
Hólmbert Aron Friðjónsson hefur framlengt samning sinn við suðurkóreska úrvalsdeildarfélagið Gwangju og er nú samningsbundinn út 2026.
Framherjinn stæðilegi gekk í raðir Gwangju um mitt tímabil á þessu ári. Það vantaði upp á leikæfingu þegar hann mætti en var hann kominn í toppstand undir lok leiktíðar og skoraði þá þrjú mörk í deild og bikar.
Það er mikil ánægja með Hólmbert hjá félaginu og hvernig hann hefur aðlagast því og landinu. Þjálfari hans hrósaði honum til að mynda fyrir að vera fyrirmyndarleikmaður fyrir yngri leikmenn félagsins og að sýna mikla fagmennsku. Það hefur því verið ákveðið að framlengja við hann.
Hólmbert er 32 ára gamall og hefur einnig leikið með Preussen Munster, Holstein Kiel, Lilleström, Brescia, Álasund og Bröndby á atvinnumannaferlinum. Hann á að baki sex A-landsleiki fyrir Íslands hönd.
View this post on Instagram