

Chelsea-goðsögnin John Terry hefur opinberað að hann hafi íhugað sjálfsvíg eftir að hafa klikkað á vítaspyrnu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn Manchester United árið 2008.
Terry rann til í vítaspyrnukeppninni á Luzhniki-leikvanginum í Moskvu og skaut í stöngina. Varnarmaðurinn hefði tryggt Chelsea sigur með marki en United vann að lokum.
Terry segir að andleg líðan hans hefði verið mjög slæm dagana eftir leikinn. „Ég var á 25. hæð á hótelinu í Moskvu og horfði út um gluggann og spurði sjálfan mig bara: Af hverju? Svona hugsanir fara í gegnum hausinn á manni á slíkum augnablikum,“ segir hann.
Hann bætti við að liðsfélagar hans hefðu komið til hans og farið með hann niður, sem hafi skipt sköpum á þeirri stundu. „Þetta voru þessar „hvað ef“ hugsanir. Maður veit aldrei,“ segir hann.
Terry segir að minningin ásæki hann enn í dag, sérstaklega eftir að hann lagði skóna á hilluna. „Ég vakna enn á nóttunni og hugsa hvort þetta hafi gerst í alvörunni. Ég held að þetta fari aldrei alveg.“
Hann hrósar sérstaklega Ray Wilkins, aðstoðarþjálfara Chelsea á þeim tíma, fyrir stuðninginn. „Ray var sá fyrsti sem hringdi í mig eftir leikinn og athugaði hvort ég væri í lagi.“
Terry vann Meistaradeildina fjórum árum síðar með Chelsea, árið 2012.
Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.