fbpx
Miðvikudagur 24.desember 2025
Fréttir

Sakamál ársins I: Sjúkratryggingasvindlarinn, meintur banamaður Geirfinns nafngreindur og það sem þú vissir ekki um Gufunesmálið

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 24. desember 2025 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það kennir ýmissa grasa í innlendum sakamálum ársins 2015, árið státar af fjölbreytni í þessum málum sem er ekkert gleðiefni. Þegar litið er yfir fréttir ársins sem varða sakamál kemur fljótt í ljós að margir alvarlegir glæpir voru framdir á árinu. Í þessari yfirferð og í tveimur öðrum væntanlegum pistlum af sama tagi verður aðeins stiklað á því helsta.

Í janúar var Sigurjón Ólafsson, verslunarstjóri á miðjum aldri, dæmdur í átta ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn þroskaskertri konu, sem var undirmaður hans, og syni hennar, sem hann lét horfa á kynlífsathafnir þeirra.

Brotin voru framin reglulega og stóðu yfir  á árunum 2016 til 2020. Segir í ákæru að Sigurjón hafi notfært sér að konan gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar og hafi hann beitt hana ólögmætri nauðung með því að nýta sér yfirburði sína og aðstöðumun gagnvart henni, sem og traust hennar til hans vegna stöðu hans gagnvart henni, meðal annars sem yfirmanns hennar.

Sigurjón var einnig sakfelldur fyrir að hafa látið konuna hafa samræði við aðra karlmenn.

Sigurjón var jafnframt sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn syni konunnar með því að láta hann vera viðstaddan á meðan hann hafði mök við móður drengsins. Brotið gegn syninum lýtur annars vegar að því að hann stríðir einnig við andlega fötlun en hins vegar vegna þess að hluta brotatímans var hann undir lögaldri og er því líka um barnaverndarlagabrot að ræða.

Hann er einnig sakaður um að hafa áreitt soninn kynferðislega á árunum 2016 til 2020 með því að hafa ítrekað spurt hann um kynlíf hans og gefið honum leiðbeiningar um hvernig hann ætti að stunda kynlíf. Var hann þó sýknaður af þessum hluta ákærunnar, þar sem þetta þótti ekki fullsannað.

Brotin beindust einnig að kærustu sonarins en hann gekk inn á þau eru þau voru að hafa samfarir í herbergi og hafði afskipti af kynmökum þeirra.

Benti á að konan væri sjálfráða og fjárráða

Sigurjón neitaði sök og bar meðal annars fyrir sig að konan væri sjálfráða og fjárráða. Því hefði hann hvorki nýtt sér þroskahömlum hennar né yfirburði sína. Aðstöðumunur hefði ekki verið á mill þeirra og engin misnotkun átt sér stað.

Varðandi brot gegn syninum og kærustu hans neitaði hann einnig sök og hverfðust varnir hans þar um sönnunaratriði. Einnig byggðu varnir hans á því að verknaðarlýsing í ákæru væri ekki nægilega skýr.

Hann var hins vegar sakfelldur, m.a. vegna niðurstaðna matsaðila á andlegu ástandi konunnar. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða konunni fimm milljónir króna í miskabætur, syninum 1,2 milljónir og unnustu hans hálfa milljón króna.

Stal af Sjúkratryggingum Íslands í 11 ár

Í vor var kveðinn upp í máli gegn konu á sextugsaldri og tveimur sonum hennar fyrir að hafa með skjalafalsi svikið peninga út úr Sjúkratryggingum Íslands, þar sem konan starfaði sem verkefnastjóri í 11 ár.

Málið rataði fyrst í fjölmiðla í byrjun febrúar eftir að ákæra í málinu lá fyrir. Konan var sökuð um að hafa í 216 skipti falsað kröfur í tölvukerfi SÍ að fjárhæð 156.298.529 krónur, sem áttu sér ekki stoð, í nafni þriggja einstaklinga, eiginmanns síns, sem nú er látinn, og tveggja sona sinna á fertugsaldri.

Annars vegar var um að ræða kröfur vegna erlends sjúkrakostnaðar og hins vegar með því að skrá mennina sem fylgdarmenn ótengdra aðila sem nutu læknismeðferðar erlendis.

„Eftir að ákærða falsaði kröfumar í kerfi stofnunarinnar, blekkti hún aðra starfsmenn Sjúkratrygginga Íslands til að samþykkja þær en kröfurnar voru að lokum greiddar út til meðákærðu og eiginmanns hennar,“ segir í ákærunni.

Í 61 tilviki runnu greiðslurnar inn á reikning eiginmanns konunnar, allt frá árinu 2013 til og með 2018. Í 70 og 85 tilvikum runnu greiðslurnar inn á reikninga sona konunnar og stóðu þau svik yfir fram á árið 2024.

Annar sonur konunnar er ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa móttekið í 70 tilvikum samtals tæplega 49 milljónir króna inn á bankareikning sinn sem honum mátti vera ljóst að var ávinningur af refsiverðum brotum móður hans.

Samskonar ákæra er á hendur hinum syninum en þar eru tilvikin 85 og upphæðin samtals rétt rúmlega 80 milljónir króna.

Veikindi og erfiðleikar

Konan lýsti því fyrir dómi að hún hafi verið í stöðu þar sem hún greiddi út milljarða fyrir Sjúkratryggingar en á sama tíma hafi heimilisaðstæður hennar verið skelfilegar. Maður hennar var veikur og tekjulaus. Þarna sá konan leið til að halda heimilinu gangandi. Konan sagði þó að synir hennar hafi ekkert vitað. Hún hafi verið með aðgang að heimabönkum þeirra og séð um þetta sjálf. Konan lýsti tilveru sinni undanfarin ár sem „áratug hörmunga“, maður hennar veiktist og lést svo af veikindum sínum, annar sonur hennar lenti í hræðilegu slysi og sjálf væri hún í dag sjúklingur og atvinnulaus í leiguhúsnæði með sonum sínum.

Sjá nánar hér.

Konan játaði sök en synirnir ekki. Hélt konan því fram að þeir hefðu ekki vitað af athæfinu þó að nöfn þeirra, kennitölur og bankareikningar kæmu við sögu.

Við ákvörðun refsingar var horft til þess að fjölskyldan hefði gengið í gegnum hörmungar. Var konan dæmd í þriggja ára fangelsi, en þar af var öll refsingin fyrir utan þrjá mánuði skilorðsbundin. Synirnir voru dæmdir í skilorðsbundið fangelsi, 18 og 8 mánaða.

Stefán Blackburn við upphaf aðalmeðferðar. Mynd: DV/KSJ

Gufunesmálið

Eitt frægasta og líklega mest umtalaða sakamál ársins var morðið á Hjörleifi Hauki Guðmundssyni, 65 ára gömlum manni frá Þorlákshöfn. Hjörleifur fannst þungt haldinn á víðavangi í Gufunesi í Grafarvogi eldsnemma að morgni 11. mars. Skömmu eftir að hann hafði verið fluttur  á sjúkrahús lést hann.

Áverkar á líkama Hjörleifs gáfu til kynna að hann hefði orðið fyrir miklu misþyrmingum sem drógu hann til dauða. Flestir þekkja þá sögu að þrír menn voru á endanum ákærðir fyrir morðið, sem og að millifæra ólöglega fé af bankareikningi hans, alls þrjár milljónir króna. Þeir Stefán Blackburn og Lúkas Geir Ingvarsson hlutu 17 ára fangelsi og Matthías Björn Erlingsson 14 ára fangelsi.

Sjá einnig: Dómur fallinn í Gufunesmálinu – Þrír fá þunga refsingu

Brotin gegn Hjörleifi hófust sem svokölluð tálbeituaðgerð en Lúkas Geir átti í samskiptum við hann þar sem hann þóttist vera 17 ára stúlka sem vildi mæla sér mót við hann. Lúkas Geir fékk síðan unga konu til að hringja í Hjörleif og fá hann út í bíl þar sem Stefán og Lúkas Geir biðu hans. Hófu þeir að reyna að kúga fé út úr Hjörleifi á grundvelli þess að hann væri barnaperri sem vildi hitta unglingsstúlku. Í réttarhöldunum, og raunar fyrir þau, kom fram að Hjörleifur hafði undanfarin ár strítt við framheilaskaða sem hafði slæm áhrif á dómgreind hans og hegðun.

Sjá einnig: Hvers vegna fengu Stefán og Lúkas 17 ára fangelsisdóm?

Stúlkan sem hringdi í Hjörleif til að lokka hann út í bíl til hinna ákærðu var ákærð fyrir hlutdeild í frelsissviptingu og ráni en sýknuð af ákæru. Piltur var ákærður fyrir  peningaþvætti fyrir hlutdeild sína í málinu, en hann samþykkti að taka við millifærslu frá tveimur sakborningum inn á reikning sinn og millifæra upphæðina á þriðja sakborninginn.

Maðurinn hafði samband við lögreglu að fyrra bragði og veitti upplýsingar um þetta sem áttu þátt í að leysa málið.

Hann var engu að síður sakfelldur en refsing yfir honum frestað.

Blaðamaður DV í vitnastúku?

Málið tók nokkuð óvenjulegan snúning eftir að DV birti viðtal við einn sakborningana í málinu, Matthías Björn Erlingsson. Þar neitaði hann sök í málinu en varpaði sökinni á þá Stefán og Lúkas Geir. Byggði hann meðal annars á því að ekki voru neinar beinar lýsingar í ákæru á ofbeldi hans gagnvart Hjörleifi, sem og að hann kom til skjalanna nokkru eftir að Hjörleifur hafði verið brottnuminn frá Þorlákshöfn og misþyrmingar gegn honum stóðu yfir á Kjalarnesi. Viðtalið var í samræmi við vitnisburð Matthíasar fyrir dómi sem dómari í málinu tók ekki trúanlegan enda var Matthías sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur í 14 ára fangelsi.

Verjandi Lúkasar Geirs, Stefán Kristjánsson lögmaður, lagði DV-viðtalið fram sem gagn í málinu og hann ásamt fleiri verjendum spurði Matthías út í það. Ekki síst staðnæmdust þeir við ummæli Matthíasar í viðtalinu þar sem hann gengst við því að hafa áður tekið þátt í tálbeituaðgerðum.

Til stóð að kalla blaðamann DV, sem tók viðtalið, fyrir sem vitni í málinu. Var síðasti vitnalisti lagður fram sama morgun og aðalmeðferð í málinu hófst við Héraðsdóm Suðurlands á Selfossi. Blaðamaður var þá kominn í dóm og hafði ekið frá Reykjavík fyrr um morguninn. Fékk hann þá þær upplýsingar að lögmaðurinn hefði fallið frá því að kalla hann fyrir sem vitni. Mátti skilja að dómari hefði samþykkt beiðnina, hefði hún verið lögð fram, og blaðamaður hefði þátt þurft að snúa til baka og hefði ekki getað setið þinghaldið fyrr en eftir að hann hefði borið vitni í málinu. Lögmaðurinn féll hins vegar, sem fyrr segir, frá því að kalla blaðamann fyrir sem vitni og lá sú ákvörðun ekki fyrir fyrr en rétt áður en þinghaldið hófst.

Meintur banamaður Geirfinns nafngreindur

Miklar umræður og reglulegur fréttarflutningur hefur verið um frægasta óleysta mannshvarfsmál Íslandssögunnar, Geirfinnsmálið, allt frá því bókin Leitin að Geirfinni kom út 19. nóvember árið 2024. Aðstandendur bókarinnar hafa ítrekað en árangurslaust reynt að fá yfirvöld til að opna rannsókn á málinu. Þeim beiðnum hefur verið hafnað.

Keflavíkurrannsókn Geirfinnsmálsins, þ.e.a.s. sú rannsókn sem hófst í kjölfar hvarfs Geirfinns og lauk um hálfu ári síðar án niðustöðu, gengur út frá því að Geirfinnur hafi horfið í kjölfar þess að hann fór til fundar við ókunnugan mann í Hafnarbúðinni í Keflavík að undangengnu símtali. Eftir þennan fund hefur hvorki heyrt né sést til Geirfinns.

Samkvæmt bókinni Leitin að Geirfinni átti þessi fundur í Hafnarbúðinni sér ekki stað heldur fór Geirfinnur þangað einfaldlega til að kaupa sígarettur og sneri síðan heim. Á leiðinni var hann tekinn upp í bíl af manni sem tengist Guðnýju, eiginkonu Geirfinns, fjölskylduböndum. Er mennina tvo, Geirfinn og ökumanninn, bar að garði heima hjá Geirfinni, var þar fyrir elskhugi Guðnýjar, Svanberg Helgason. Geirfinnur trylltist af af brýðisemi og brutust úr mikil slagsmál sem enduðu með því að áðurnefndur ökumaður varð honum að bana úti í bílskúr á lóðinni. Meint vitni var að morðinu, ungur drengur sem var að leika sér með vasaljós í hverfinu og horfði á átökin inn um glugga að bílskúrnum.

Ritdeilur hafa staðið milli aðstandenda bókarinnar og Valtýs Sigurðssonar, þáverandi bæjarfógeta og yfirmanns rannsóknarinnar. Bókarfólkið sakar Valtý um að hafa vísvitandi afleigaleitt rannsókn Keflavíkurlögreglunnar á hvarfi Geirfinns og þar með hylmt yfir morði hans. Valtýr hefur lýst þeim aðdróttunum sem fjarstæðum og furðuskrifum.

Meðal gagna sem lögð hafa verið fram til yfirvalda í því skyni að fá rannsókn Geirfinnsmálið endurupptekna er svokallaður 13. kafli bókarinnar Leitin að Geirfinni en þau skrif birtust ekki í sjálfri bókinni. Í 13. kaflanum er meintur banamaður Geirfinns nafngreindur og ásakanir á hendur Valtý útlistaðar. Ekki eru fullgildar sannanir lagðar fram í 13. kaflanum fyrir niðurstöðum höfundar. Lögreglurannsóknir og þær valdheimildir sem þeim fylgja skortir til að sannreyna fullyrðingarnar. Skortir þar á til dæmis yfirheyrslur yfir tilteknum aðilum og lífsýnarannsóknir. Það er skoðun þeirra sem standa að bókinni Leitin að Geirfinni að með því að yfirheyra tiltekna aðila og láta gera tilteknar rannsóknir geti lögregla með fremur auðveldum hætti ráðið gátuna um hvarf Geirfinns Einarssonar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segir þjóðina með þeim í liði eftir harmleikinn í Suður-Afríku – „Hjartað mitt er hjá Maríu 24-7“

Segir þjóðina með þeim í liði eftir harmleikinn í Suður-Afríku – „Hjartað mitt er hjá Maríu 24-7“
Fréttir
Í gær

Gunnar sakar saksóknara um meiðyrði og hótar málsókn – „Háttsemi þín verður tilkynnt yfirmönnum þínum hjá LRH“

Gunnar sakar saksóknara um meiðyrði og hótar málsókn – „Háttsemi þín verður tilkynnt yfirmönnum þínum hjá LRH“
Fréttir
Í gær

Sneru vörn í sókn gegn leigubílstjóranum sem ofrukkaði þær og skildi svo eftir í myrkrinu á Bláfjallavegi

Sneru vörn í sókn gegn leigubílstjóranum sem ofrukkaði þær og skildi svo eftir í myrkrinu á Bláfjallavegi
Fréttir
Í gær

Stúlka sýknuð af ákæru um að hafa stungið pilt tvisvar í bakið – Var aðeins 15 ára þegar meint brot átti sér stað

Stúlka sýknuð af ákæru um að hafa stungið pilt tvisvar í bakið – Var aðeins 15 ára þegar meint brot átti sér stað