fbpx
Fimmtudagur 27.nóvember 2025
Fréttir

Segja brotið á rithöfundum í fjárlagafrumvarpinu

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 27. nóvember 2025 14:30

Til stendur að halda áfram niðurskurði á framlögum til Bókasafnssjóðs rithöfunda.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í minnisblaði sem unnið var fyrir Rithöfundasamband Íslands og Samtök íslenskra barna- og unglingabókahöfunda eru færð rök fyrir því að fyrirhugaður niðurskurður, í fjárlagafrumvarpi næsta árs, á Bókasafnssjóði rithöfunda brjóti gegn höfunda- og eignarrétti þeirra.

Minnisblaðið er unnið af lögmannsstofunni Rétti en einn eigenda hennar er Sigurður Örn Hilmarsson varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins sem gegnir þingstörfum í vetur í stað Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem er í leyfi.

Segir í minnisblaðinu að færa megi sannfærandi rök fyrir því að veruleg lækkun framlags ríkisins til Bókasafnssjóðs rithöfunda á undanförnum árum brjóti í bága við höfundarétt og 72. grein  stjórnarskrárinnar, um friðhelgi eignarréttarins. Notkun bókasafna á höfundarverkum feli í sér takmörkun á einkarétti höfunda til afnota á höfundarétti sínum. Samkvæmt stjórnarskránni þurfi slíkri takmörkun á eignarrétti að fylgja viðunandi greiðsla og að fullt verð komi fyrir, en stöðug lækkun greiðslna fullnægi varla þeirri kröfu.

Orðalag í reglum um að greiðslurnar séu menningarlegur stuðningur en ekki höfundaréttargreiðslur geti ekki vikið til hliðar þessum stjórnarskrárvörðum réttindum. Ef greiðslurnar séu ekki endurgjald fyrir afnotin sé verið að nýta höfundarétt án endurgjalds, sem brjóti augljóslega í bága við stjórnarskrána og höfundarétt.

Lækkar stöðugt

Í minnisblaðinu er minnt á að greiðslur til höfunda fyrir útlán bóka og afnot á lestrarsölum reiknist út frá árlegri fjárveitingu Alþingis til Bókasafnssjóðs rithöfunda, samkvæmt bókmenntalögum. Fjölda útlána sé deilt í þá fjárhæð sem til ráðstöfunar sé og fáist þá ákveðin krónutala fyrir hvert útlán.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2026 sé lagt til að framlag ríkisins til Bókasafnssjóðs rithöfunda nemi 144,5 milljónum króna. Framlagið hafi farið lækkandi. Það hafi verið 197,4 milljónir árið 2021, 193,8 milljónir árið 2022, 189,2 milljónir árið 2023, 184,6 milljónir árið 2024 og 146 milljónir árið 2025. Frá árinu 2021 hafi framlagið þannig lækkað hlutfallslega um tæp 27 prósent og enn meira að raunvirði.

Við mat á því hvort lækkun fjárframlaga teljist brjóta í bága við höfundarétt og/eða stjórnarskrárvarinn rétt höfunda þar um verði að líta til þess að höfundar hafi ekki val um hvort opinber bókasöfn bjóði verk þeirra til útlána.

Minnt er á að samkvæmt stjórnarskránni þurfi að koma fullt verð fyrir þegar eignarréttur sé takmarkaður eins og gert sé í þessu tilfelli.

Það að Alþingi geti ákveðið fjárhæð greiðslna í fjárlögum takmarki ekki þá kröfu stjórnarskrárinnar að greiðslurnar skuli vera viðunandi. Fjárveitingarvald Alþingis sé víðtækt en ekki ótakmarkað. Þótt erfitt sé að meta markaðsvirði notkunarinnar veiti stöðug lækkun framlags ríkisins í Bókasafnssjóð rithöfunda á síðustu fimm árum sterka vísbendingu um að greiðslurnar uppfylli ekki lengur skilyrði stjórnarskrárinnar um að fullt verð komi fyrir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Réðst á lögreglumann á Þorláksmessu

Réðst á lögreglumann á Þorláksmessu
Fréttir
Í gær

Stóð í skilum með leigu og afhenti herbergið hreint – leigusalinn neitaði samt að endurgreiða tryggingarféð

Stóð í skilum með leigu og afhenti herbergið hreint – leigusalinn neitaði samt að endurgreiða tryggingarféð
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rúnar fagnar tímamótum í janúar

Rúnar fagnar tímamótum í janúar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ungir Miðflokksmenn hæðast að SUS fyrir að saga bíl í sundur – „Flott myndband, það er bara eitt vandamál“

Ungir Miðflokksmenn hæðast að SUS fyrir að saga bíl í sundur – „Flott myndband, það er bara eitt vandamál“