
Samkvæmt frönskum fjölmiðlum og viðtölum sem The Guardian hefur tekið, á Nègre að hafa boðið umsækjendum kaffi eða te við komu þeirra í ráðuneytið í París.
Drykkirnir voru að sögn blandaðir einhvers konar þvagræsilyfi sem veldur því að skömmu eftir inntöku þarf viðkomandi að komast strax á klósett til að pissa.
Á Nègre að hafa stungið upp á að halda viðtölunum áfram utandyra og farið með konurnar í langar gönguferðir fjarri salernum.
Í umfjöllun Guardian kemur fram að fjöldi kvenna hafi lýst svipuðum einkennum; það er svima, skjálfta, hjartsláttarónotum og stjórnleysi við að halda í sér. Sumar neyddust til að pissa úti á almannafæri á meðan aðrar misstu þvag. Margar segja upplifunina hafa valdið langvarandi áfalli og skömm.
Ein þeirra sem Guardian ræðir við heitir Sylvie Delezenne og er 45 ára markaðsfræðingur frá Lille. Hún fór til Parísar árið 2015 eftir að Nègre hafði haft samband við hana á LinkedIn.
Hún segir að hún hafi þegið kaffi frá honum við komuna í ráðuneytið en Nègre leiddi hana síðan í gegnum Tuileries-garðana í löngu viðtali sem að sögn stóð yfir í nokkrar klukkustundir. Kveðst hún hafa upplifað líkamleg einkenni sem hún skildi ekki og mjög mikla þörf til að hafa þvaglát.
„Ég sagði að ég þyrfti smá pásu, en hann hélt áfram að ganga,“ sagði hún í viðtali við The Guardian. Að lokum kveðst hún hafa neyðst til að létta á sér á almannafæri skammt frá Seine-fljótinu. „Hann tók jakkann sinn og sagðist ætla að skýla mér. Mér fannst það einkennilegt,“ segir hún í viðtalinu.
Hún fór heim niðurbrotin, kenndi sjálfri sér um og fékk martraðir. Fjórum árum síðar hafði lögreglan samband við hana og höfðu þá fleiri konur lent í sambærilegum uppákomum.
Málið kom fyrst upp árið 2018 þegar samstarfsmaður kvartaði undan Nègre fyrir að reyna að taka mynd af fótleggjum háttsetts embættismanns. Í kjölfarið fannst skjal í tölvu Nègre sem bar yfirskriftina Tilraunir en þar voru skráðir tímar, einkenni kvennanna og viðbrögð þeirra skráð skilmerkilega niður.
Nègre hefur verið ákærður fyrir margvísleg brot og bíður nú réttarhalda. Hann starfar ekki lengur í ráðuneytinu en í frétt Guardian kemur fram að hann starfi nú í einkageiranum.