fbpx
Þriðjudagur 25.nóvember 2025
Fréttir

Bóndi sektaður fyrir að sinna dýrunum illa – Segir Matvælastofnun beita sig andlegu ofbeldi

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 25. nóvember 2025 15:30

Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mynd: Eyþór Árnason.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Atvinnuvegaráðuneytið hefur staðfest ákvörðun Matvælastofnunar (MAST) um að leggja dagsektir á bónda fyrir ýmis brot á lögum um matvæli og dýravelferð. Meðal annars sagði stofnunin bóndann ekki hafa sinnt slösuðum og sjúkum dýrum og nokkuð væri um að umhirðu dýranna á bænum væri ábótavant. Bóndinn mótmælti því harðlega og sakaði starfsmenn stofnunarinnar um lygar og að beita hann andlegu ofbeldi.

Síðastliðið sumar fóru starfsmenn MAST í eftirlitsheimsókn á bæ bóndans og í skoðunarskýrslu voru honum gefin að sök brot á matvæla- og dýravelferðarlögum og skráð alls 24 frávik, þar af sjö alvarleg.

Alvarlegu frávikin, samkvæmt skýrslunni, sem vörðuðu sauðfé lutu að því að margir gripir voru í óviðunandi umhverfi, sjúkum og slösuðum gripum var ekki sinnt sem skyldi og dýralæknir ekki kallaður til þegar þess þurfti. Þá var klaufhirðu ábótavant, þar sem ær voru með ofvaxnar klaufir og kalla þurfti til dýralækni vegna draghaltra áa. Einnig var að finna áhöld og drasl í kringum húsin og svæðið fyrir framan dyr fjárhússins var ekki þrifalegt, sem reyndist síendurtekið frávik, sagði í skýrslunni.

Alvarlegu frávikin sem vörðuðu hross sneru að hrossum sem voru undir reiðhestsholdum og að heygæði voru óviðunandi, þar sem einungis skuli nota óskemmt fóður. Þá kom fram að gömul hryssa, sem átti að fella, hafði verið aflífuð við gerð skýrslunnar og að heilbrigðisskoða þyrfti tryppi sem andaði þungt og hafði hárlausan blett á kvið. Bóndinn hafði fengið ormalyf og sýklalyf fyrir veikt tryppi. Eftirlit með hrossum á útigangi var jafnframt talið verulega ábótavant, en hrossin höfðu ítrekað farið út af landareign bóndans.

Önnur

Um tveimur vikum eftir fyrstu heimsóknina fór MAST í aðra eftirlitsheimsókn á bæinn. Í kjölfarið var gerð önnur skoðunarskýrsla og þar voru skráð 22 frávik þar af sex alvarleg.

Alvarlegu frávikin, samkvæmt skýrslunni, sem vörðuðu sauðfé lutu að því að margir gripir voru í óviðunandi umhverfi, sjúkum og slösuðum gripum var ekki sinnt sem skyldi og dýralæknir ekki kallaður til þegar þess þurfti, sem þótti margendurtekið frávik. Í fyrri skýrslum hafði jafnframt verið skráð að klaufhirðu væri ábótavant og að kalla þyrfti til dýralækni vegna draghaltra áa. Við þetta eftirlit var féð hins vegar statt á fjalli og því ekki unnt að skoða þetta atriði, en engin vitjun var skráð í Búfjárheilsu. Þá var enn að finna áhöld og drasl í kringum húsin og svæðið fyrir framan dyr fjárhússins var ekki þrifalegt, sem var endurtekið frávik.

Þegar kom að alvarlegum frávikum, samkvæmt skýrslunni, sem vörðuðu hross sneru þau að því að tryppi, sem bóndinn hafði áður meðhöndlað með ormalyfi, var orðið mjög kviðað og veiklulegt á ný, sem þótti endurtekið frávik. Eftirlit með hrossum á útigangi var áfram talið verulega ábótavant, þar sem hrossin höfðu ítrekað farið út af landareigninni. Þá var haugskítugt umhverfi og mikið drasl á svæðinu sem skapaði slysahættu, meðal annars vegna girðinga sem lágu niðri.

Í kjölfar þessarar skýrslu krafði MAST bóndann um úrbætur annars yrðu lagðar á hann 10.000 króna dagsektir.

Engir slasaðir

Því andmælti bóndinn harðlega og sagði að ekki hafi verið til staðar neinir slasaðir gripir en MAST benti honum þá á að bæði eftirlitsdýralæknir og dýraeftirlitsmaður hefðu séð haltar ær við eftirlit. Bóndinn furðaði sig á því að krafist væri að kalla til dýralækni þegar kind fengi helti, enda væri slíkt ekki óalgengt eftir útivist í byrjun sumars, líkt og í því tilviki sem hér um ræddi. MAST benti honum á að við eftirlitið hafi sést ein ær sem ekki hafi staðið í eina löppina og að mati stofnunarinnar væri það mjög slæm dýravelferð að láta ána ganga úti og fá ekki aðhlynningu.

Bóndanum var í kjölfar þessara athugasemda tilkynnt að á hann yrðu lagðar dagsektir en hann hefði fimm daga til að gera úrbætur og koma þannig í veg fyrir álagningu sektanna. Bóndinn lagði þá fram stjórnsýslukæru til atvinnuvegaráðuneytisins.

Vildi bóndinn meina í kærunni að frávikin sem skráð væru í skoðunarskýrslur MAST væru órökstudd. Lýsingar á aðstæðum væru með almennum orðum, svo sem að umhverfi væri óviðunandi eða skítugt án þess að tilgreina sérstaklega hvað í því fælist. Sagði bóndinn ákvörðun MAST ekki studda neinum rökum og væri því ekki í samræmi við stjórnsýslulög. Mótmælti hann því harðlega að gripir hefðu verið slasaðir og að sjúkum og slösuðum gripum hafi ekki verið sinnt sem skyldi. Í seinni skýrslunni væri vísað til þess að féð hafi verið komið á fjall og því hafi ekki verið unnt að skoða þetta atriði. Að mati bóndans væri slíkur rökstuðningur ófullnægjandi og uppfyllti ekki rannsóknarskyldu stofnunarinnar.

Gerði bóndinn ýmsar aðrar athugasemdir við þau frávik sem skráð voru í skoðanaskýrslur MAST.

Andlegt ofbeldi og lygar

Í lok kærunnar sagðist bóndinn hafa ítrekað kvartað yfir vinnubrögðum MAST og að hann væri búinn að fá nóg af framgöngu stofnunarinnar. Hann telji að stofnunin fari með lygar, rangfærslur og mismuni mönnum, auk þess sem vinnubrögðin væru óvönduð og ættu ekki að líðast hjá ríkisstofnun. Bóndinn benti jafnframt á að aldrei væri tekið á starfsmönnum stofnunarinnar vegna slíkra athugasemda, þar sem þeir nytu friðhelgi í starfi.

Sagði bóndinn að stofnunin beiti hann andlegu ofbeldi með því að gera lítið úr honum, halda því fram að hann hafi ekki næga getu eða þekkingu og taka ekki tillit til þeirra úrbóta sem hann hafi þegar framkvæmt.

Í andsvörum MAST við kæru bóndans sagði meðal annars, þegar kom að fullyrðingum bóndans um að ranglega hefði verið fullyrt að kind á bænum hefði verið slösuð, að í nýjustu skoðunarskýrslunni hafi sérstaklega verið tekið fram að ekki hafi verið unnt að skoða ær við síðasta eftirlit, þar sem féð var þá statt á fjalli. Þá hafi engin vitjun verið skráð í Búfjárheilsu og ekkert benti til þess að dýralæknir hafi verið kallaður til. Umráðamaður dýra beri lagaskyldu til að tryggja að sjúk eða slösuð dýr fái viðeigandi læknismeðferð eða séu aflífuð.

Varðandi athugasemdir bóndans um að allar kindur hafi verið settar á fjall og klaufir þeirra snyrtar eftir þörfum, benti MAST á að, eins og fram kæmi í nýjustu skýrslunni, hafi allt fé verið komið á fjall þegar eftirlitið fór fram. Af þeim sökum hafi ekki verið hægt að staðfesta hvort klaufir á fénu hefðu verið snyrtar. Að mati stofnunarinnar teldist slíkt frávik standa þar til staðfest hefði verið að úrbætur hafi verið gerðar.

Gögn og fjall

Í niðurstöðum atvinnuvegaráðuneytisins segir að ljóst sé af gögnum málsins að ýmsu hafi verið ábótavant í búrekstri bóndans varðandi velferð sauðfjár og hrossa. Þegar kemur að nýjustu skoðunarskýrslunni og fullyrðingum bóndans um að MAST hafi ranglega fullyrt að kind væri slösuð og hún hafi ekki verið skoðuð í það skipti þar sem hún hafi verið farin á fjall ásamt öðrum kindum á bænum segir ráðuneytið að ekki sé hægt að ætlast til að starfsmenn MAST færu á fjöll til að staðfesta að kindin væri ekki lengur slösuð. Það sama eigi við um athugasemdir bóndans um að MAST hafi ekki staðfest að hann hafi látið snyrta klaufar á kindum hans, þar sem þær hafi verið á fjöllum. Í stað þess hafi stofnunin byggt á því að bóndinn hafi ekki gert úrbætur á þessu þar sem hann hafi ekki upplýst stofnunina um að slíkar úrbætur hafi verið gerðar og þar með hafi MAST uppfyllt rannsóknarskyldu sína.

Ráðuneytið telur einnig rökstuðning fyrir skráðum frávikum fullnægjandi og bendir á að með skýrslum hafi fylgt ljósmyndir. Skilyrði fyrir því að leggja á dagsektir væru til staðar og bóndanum hafi verið áður veittur frestur til úrbóta án þess að það hafi skilað viðunandi árangri. Það hafi einnig verið hóflegt að leggja 10.000 króna dagsektir á bóndann í ljósi þess að MAST geti að hámarki lagt á 100.000 króna dagsektir.

Ákvörðun Matvælastofnunar um að leggja dagsektir á bóndann var því staðfest.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Bóndi fékk háa sekt – Vildi ekki segja hvenær hann aflífaði kind sem enn er skráð lifandi

Bóndi fékk háa sekt – Vildi ekki segja hvenær hann aflífaði kind sem enn er skráð lifandi
Fréttir
Í gær

Ekki gerð refsing fyrir að klæmast við unga stúlku í Strætó

Ekki gerð refsing fyrir að klæmast við unga stúlku í Strætó
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þrettán ára stúlka grunuð um morð í Bretlandi

Þrettán ára stúlka grunuð um morð í Bretlandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta eru stórmyndirnar sem Eddie Murphy syrgir að hafa hafnað

Þetta eru stórmyndirnar sem Eddie Murphy syrgir að hafa hafnað