
AP-fréttaveitan greinir frá þessu og segir í frétt hennar að Wat Rat Prakhong Tham-hofið í Nonthaburi-héraði, rétt fyrir utan Bangkok, hafi birt myndband á Facebook-síðu sinni þar sem konan sést liggja í hvítri kistu í flutningsbíl.
Á myndbandinu má sjá konuna hreyfa handlegg og höfuð lítillega, sem vakti mikla undrun starfsmanna.
Pairat Soodthoop, framkvæmdastjóri búddistahofsins, segir í samtali við AP að bróðir konunnar, sem er 65 ára gömul, hefði ekið með hana frá Phitsanulok-héraði til að láta brenna líkið.
Þegar þangað var komið heyrðu starfsmenn dauf hljóð koma innan úr kistunni.
„Ég varð steinhissa og bað þau að opna kistuna. Þá brá öllum,“ segir Pairat og bætir við að konan hafi opnað augun og barið veiklulega í kistuna. „Hún hlýtur að hafa barið lengi,“ segir hann.
Pairat segir að bróðir konunnar hefði lýst því að hún hefði verið rúmliggjandi í um tvö ár. Heilsu hennar hefði hrakað verulega að undanförnu og hún að lokum misst meðvitund. Tveimur dögum áður en konan fannst á lífi hafi hún virst vera hætt að anda og bróðirinn talið að hún væri látin.
Bróðirinn setti hana því í kistu og lagði upp í um 500 kílómetra ferðalag á sjúkrahús í Bangkok, þar sem hún hafði áður lýst yfir vilja til að gefa líffæri sín.
Í frétt AP kemur fram að sjúkrahúsið hafi ekki getað tekið við líkinu þar sem ekki var búið að gefa út opinbert dánarvottorð.
Að sögn Pairats býður hofið upp á ókeypis líkbrennslu og kom bróðirinn því þangað á sunnudag. Þar var beiðninni einnig hafnað þar sem dánarvottorðið vantaði.
Á meðan Pairat útskýrði fyrir honum hvernig afla mætti dánarvottorðsins heyrðist bankið innan úr kistunni og kom þá í ljós að konan var á lífi. Hún var flutt á nærliggjandi sjúkrahús en ekki liggja fyrir upplýsingar um líðan hennar.