
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, sá afar reynslumikli þjálfari sem stýrði til að mynda íslenska kvennalandsliðinu um árabil, tók saman afar áhugaverða tölfræði íslenska karlalandsliðsins undanfarin ár. Strákarnir okkar lenda í vandræðum þegar stutt er milli leikja.
Ísland féll úr leik í undankeppni HM á dögunum með tapi gegn Úkraínu. Um var að ræða seinni leikinn í þessum landsleikjaglugga, en það er einmitt í þeim leikjum sem íslenska liðið hefur lent í brasi eins og Sigurður vekur athygli á.
Liðið hefur nefnilega tapað 17 af síðustu 22 mótsleikjum sem eru seinni leikir í hverjum landsleikjaglugga fyrir sig, ef teknir eru frá sigurleikir gegn Liechtenstein, einu slakasta liði Evrópu.
„Í dag er mjög stutt milli tveggja mikilvægra landsleikja og flug og ferðalag milli landa búa til þreytu sem getur sérstaklega haft áhrif á síðustu 30 mín seinni leiksins. Þarf Ísland að rótera liðinu meira í seinni leiknum þegar stutt er milli leikja? Kasta þessari pælingu fram til allra 400.000 landsliðsþjálfaranna sem búa á Íslandi,“ skrifar Sigurður meðal annars.
Vekur hann þá athygli á rannsókn hollenska þjálfarans Raymond Verheyen á þessu sviði.
„Hann tók fyrir 27 þúsund leiki yfir 10-11 ára tímabil í bestu deildum Evrópu. Hann skoðaði hvaða áhrif minni hvíld hefur á úrslit leikja og fjölda marka sem eru skoruð á síðasta hálftíma í leikjum og hversu mörg mörk þú færð á þig,“ segir Sigurður.
„Úkraína gerði átta breytingar á byrjunarliðinu og Ísland þrjár. Úkraína skipti fimm leikmönnum inn á og má segja að þeir hafi verið frískari, þeir vinna þegar það er komin þreyta í íslenska liðið,“ segir hann enn fremur.
Hér ofar má lesa og horfa á þessar vangaveltur Sigurðar.