

Steinunn er dóttir körfuboltaþjálfara sem þjálfaði út um allt og fjölskyldan fylgdi honum. „Pabbi þjálfaði á ýmsum stöðum á Íslandi og í Danmörku líka svo við fluttum oft en ég sé það ekki sem slæmt fyrir mig. Ég á auðvelt með að aðlagast og átti alltaf vini,“ segir hún.
Þegar Steinunn var unglingur fluttu þau í Borgarnes vegna körfuboltans og þar breyttist margt segir hún: „Í Borgarnesi drukku allir unglingar og reyktu, ég fór inn í þann kúltúr, úr því að vera mjög róleg og góð alltaf. Byrjaði að ljúga að foreldrum mínum og fannst þau frekar dramatísk að hafa svona miklar áhyggjur af þessu.“
Þegar fjölskyldan flutti í Reykjanesbæ og Steinunn fór í framhaldsskóla lenti hún í áfalli og í framhaldinu varð hún fyrir miklu aðkasti og einelti.
„Pabbi sagði mér að ég þyrfti aldrei að hjálpa neinum að koma upp um sig, fólk myndi alltaf koma upp um sjálft sig á endanum og ég er þakklát fyrir það ráð og stolt af ungu mér fyrir að hafa ekki látið þetta brjóta mig.“
Í kjölfar áfallsins leitaði Steinunn mikið í drykkju og djamm til að flýja raunveruleikann en þegar hún var átján ára fór hún í meðferð sem var mikið leyndarmál á þeim tíma.
„Ég sá fólk sem ég vildi ekki enda eins og en það var samt ekki endirinn á mínum drykkjuferli, þrátt fyrir að hafa hætt í nokkur ár eftir þessa meðferð,“ segir hún.
Hún talar um að öll hennar drykkja sé eitthvað sem megi rekja til andlegs sársauka sem hún væri að reyna að slökkva.
„Ef ég hefði vitað að ég væri með ADHD og hvernig það virkar til þess að takast á við mig og tilfinningarnar mínar þegar ég var yngri,“ segir hún.
Seinni meðferð Steinunnar var í kjölfar sambands sem einkenndist af andlegu ofbeldi og drykkju bakvið luktar dyr.
„Ég var komin á þann stað að vera ein heima með belju og drakk þar til hún kláraðist,“ segir hún.
Talið berst að áfengi og hvernig það er samfélagslega samþykkt, svo mikið að það er er varla hægt að fara neitt án þess að það sé áfengi í boði. Stundum er áfengi í boði í barnaafmælum, skírnum, fermingum og öðrum stöðum þar sem börnum er fagnað.
„Þetta skil ég ekki og hef aldrei gert,“ segir Steinunn.
Steinunn segir að hún hafi ekki farið „þessa hefðbundnu“ AA-leið í sinni edrúmennsku.
„Ég er ekki á móti neinu en ég fór inn í samtökin eftir meðferð í fyrra skiptið og þá voru menn óviðeigandi,“ segir hún og ræðir þetta nánar í þættinum sem má hlusta á hér.