
Luka Modric eldist eins og gott rauðvín og hefur hann heillað hjá AC Milan eftir komu sína í sumar.
Miðjumaðurinn er orðinn fertugur og kvaddi hann Real Madrid sem goðsögn í sumar. Hefur hann staðið sig frábærlega í nýju umhverfi á Ítalíu.
Modric samdi við Milan til eins árs og verður því samningslaus í sumar. Samningurinn inniheldur þó ákvæði um eins árs framlengingu.
Það er Króatinn sjálfur sem velur það hvort það ákvæði verði virkjað og Milan liggur nú á bæn um að svo verði.
Ástæðan er sú að félög með mikla peninga í Sádi-Arabíu og Katar eru að reyna að freista Modric um að koma næsta sumar.
Þess má geta að Modric hefur áður hafnað Sádí, þá til að vera áfram hjá Real Madrid.