

Dagný Kristinsdóttir skólastjóri Víðistaðaskóla í Hafnarfirði hefur verið send í leyfi frá störfum en ráðning hennar á síðasta ári í starfið var nokkuð umdeild.
Vísir greinir frá þessu og þar kemur fram að ráðist verði í úttekt á stjórnunarháttum í skólanum en ljóst er að stjórnendur og starfsfólk í skólanum er alls ekki sammála um þessi atriði.
Dagný hefur í fyrri störfum sínum sem skólastjóri lent upp á kant við undirmenn sína en hún lét af störfum sem skólastjóri Hvassaleitisskóla í Reykjavík en stór hluti starfsmanna hafði lýst yfir vantrausti á hendur henni.
Dagný var ráðin í starfið í Víðistaðaskóla í júlí á síðasta ári. Ráðningin þótti nokkuð umdeild í Hafnarfirði eins og DV hefur áður greint frá í ljósi starfsloka hennar í Hvassaleitisskóla en einnig vegna þess að Dagný er náfrænka Valdimars Víðissonar sem var þá formaður bæjarráðs en er nú bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Umdeild ráðning skólastjóra í Hafnarfirði – Náfrænka verðandi bæjarstjóra hreppti hnossið
Gengið var frá ráðningunni í kjölfar mats þriggja manna nefndar sem var skipuð embættismönnum bæjarins.
Gagnrýnt var að Dagný hefði verið tekin fram yfir Guðbjörgu Norðfjörð Elíasdóttir, þáverandi aðstoðarskólastjóra Hraunavallaskóla, í Hafnarfirði, og þáverandi formann Körfuknattleiksambands Íslands sem hafði notið mikilla vinsælda í störfum sínum.
Guðbjörg mun leysa Dagnýju af sem skólastjóri Víðistaðaskóla samhliða starfi sínu sem skólastjóri nýs skóla í Hafnarfirði, Hamranesskóla, sem enn hefur ekki verið reistur.