

Tónlistarmaðurinn Auður, Auðunn Lúthersson, hefur tilkynnt útgáfu á nýrri plötu núna á föstudaginn.
Platan fjallar um ferðalagið milli Kaliforníu og Íslands og lagatitlarnir vísa í ýmis kennileiti og staðsetningar. 101 er óður til Reykjavíkur, 10.000 ft. gerist í háloftunum og 90015, póstnúmerið í miðborg LA er lokalag plötunnar.
„Ég er fæddur í Bandaríkjunum en flyt til Íslands sex ára. Líf mitt hefur verið stöðugur samanburður á tveimur menningarheimum, stóru og flóknu landi annars vegar og litlu og einföldu landi. Svo flutti ég til Kaliforníu fyrir næstum þremur árum. Hér er ég að njóta þess að harka og vinna sem lagasmiður og ég er alltaf í nýjum ævintýrum.
Ég kom til Íslands í september til að halda tónleika í heimabænum mínum Hafnarfirði og platan varð til í þessari heimsókn. Titillinn er vísun í þær 336 klukkustundir eða tvær vikur sem það tók að semja lögin. „Platan kom til mín á tveimur vikum á Íslandi“
Ég elska íslensku og það var frelsandi að semja lög á móðurmálinu í fyrsta sinn í dágóðan tíma. Ég elska Ísland og ég elska tónlist.”
Auður hefur verið að gera það gott með verkefninu sínu Luthersson í Los Angeles og unnið með tónlistarfólki á borð við Rayana Jay, Social House, Chichi og Luca.
Samhliða þessum verkefnum hefur Auður líka unnið að væntanlegri plötu Bubba Morthens, leikið í stuttmyndinni Freyr sem var frumsýnd á Tribeca Film Festival, fengið hlutverk í tekílaauglýsingu í Mexíkó og birst í tónlistarmyndböndum fyrir Doja Cat og Jack Harlowe.
„Ég reyni bara að segja já við öllu sem er spennandi og sleppi því að ofhugsa hlutina. Það var mikil breyting að flytja hingað og þekkja bara einhverja örfáa ketti. Það frábæra við LA er að hér er fullt af listafólki með stóra drauma og það er auðvelt að kynnast fólki.“
Platan er unninn við reynda íslenska hljóðupptökustjóra og nýjar raddir í íslenskri dægurtónlist. Þá má nefna Martein Hjartarson betur þekktur sem Bngrboy, Emil Lorange, Pálma Ragnar og Daníel Friðrik. Ábreiða plötunnar er unninn með ljósmyndaranum Ari Michelson.
Platan er væntanleg aðfaranótt föstudags og hægt er að vista plötuna fyrirfram hér.