

Lögmaðurinnn vísar til viðtals RÚV við forstjóra Happdrættis Háskóla Íslands (HHÍ) í kvöldfréttunum í gær, en Sigurður telur að þar sé verið að fylgja eftir umfjöllun Kveiks frá því í október, en þar var rætt við forstjóra bandaríska fyrirtækisins Yield Sec sem er sérhæft í ráðgjöf varðandi ólöglega veðmálastarfsemi á netinu. Gerir Sigurður athugasemdir við bæði viðtölin.
„Forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands var í viðtali við Ríkissjónvarpið í gær og virtist vera að fylgja eftir afar sérstöku viðtali „rannsóknarblaðamanns hjá Kveiki“ við bandarískan ráðgjafa happdrættisins. Ráðgjafinn bandaríski komst upp með ýmiss konar fullyrðingar í Kveik athugasemdalaust af hálfu rannsóknarblaðamannsins, sem virtist ekki hafa kynnt sér eða vitað um fyrirliggjandi innlend gögn sem sýna allt aðra mynd en ráðgjafinn dró upp.“
Sigurður segir að það hafi verið erfitt að skilja ráðgjafann öðruvísi en að á Íslandi þrífist ólögleg veðmálastarfsemi studd af glæpahópum og að þetta væri að leggja samfélagið allt á hliðina út af þeim mikla fjölda Íslendinga sem stundar veðmál á slíkum síðum þar sem fjármunir renna úr landi.
„Þetta eru ekki ýkjur heldur beinlínis ósannar fullyrðingar.“
Telur Sigurður að það hefði farið betur á því að Kveikur minntist á skýrslu sem var unnin fyrir dómsmálaráðuneytið á síðasta ári. Þar komi meðal annars fram að svipað margir hafi spilað á erlendum veðmálasíðum á árunum 2023 og 2017. Eins hafi hlutfall þeirra sem glíma við spilafíkn haldist óbreytt, 2,3 prósent. 91,4 prósent spili án vandkvæða og önnur 5,3 prósent séu í lítilli hættu á vanda, 2,3 prósent í nokkurri hættu og aðeins 1 prósent útsett fyrir líklegri spilafíkn.
„Með öðrum orðum, ekki þarf að hafa áhyggjur af 96,7 prósent þeirra sem spila peningaspil. Athyglin á að beinast að þeim sem glíma við fíknina og þar er verkkaupi bandaríska ráðgjafans sem var í aðalhlutverki hjá Kveiki, Happdrætti Háskóla Íslands, í verulega vondum málum.“
Sigurður bendir á að vandi Íslendinga séu spilakassar. Happdrætti háskóla Íslands reki tæplega 500 slíka á rúmlega 20 stöðum, gjarnan á börum, í söluturnum eða sérstökum spilasölum.
„Þar er beinlínis gert út af hörku á spilafíkni í ágóðaskyni fyrir Háskóla Íslands,“ skrifar Sigurður og bendir á að þetta hafi einmitt komið fram í áðurnefndri skýrslu og að ítrekað hafi verið staðfest að spilakassar séu skaðlegasta form veðmála. Eins hafi ríkislögreglustjóri í áhættumati sínu varað við verulegri hættu á því að spilakassar geti verið notaðir til peningaþvættis og að vísbendingar séu um að slíkt hafi verið gert.
Lögmaðurinn bendir á að ekkert í starfsemi umbjóðanda hans, Betsson, sé ólögmætt. Fyrirtækið uppfylli strangar reglugerðir Evrópusambandsins og borgi sína skatta og gjöld. Fyrirtækið leggi ríka áherslu á að koma í veg fyrir óheilbrigða spilamennsku. Spilarar geti sjálfir stutt sig við ýmsar ráðstafanir og eins getur fyrirtækið gripið inn í leikinn ef hugbúnaður metur það svo að spilamennska sé farin úr böndunum. Telur Sigurður að fólki sé betur borgið hjá Betsson en í spilakössum HHÍ.