

Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolta.net, og Bjarni Helgason, blaðamaður á Morgunblaðinu, voru gestir Helga Fannars Sigurðssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni.
Einhverjir vildu sjá hinn 17 ára gamla Viktor Bjarka Daðason í landsliðshópi Arnars Gunnlaugssonar eftir að hafa slegið í gegn með FC Kaupmannahöfn. Hann var þó ekki valinn og ekki heldur í U-21 árs landsliðið. Framherjinn ungi er í U-19 ára landsliðinu í komandi leikjum.
„Arnar talar um vegferð sem ungir leikmenn fara í innan KSÍ. Hefði maður ekki haldið á þessum tímapunkti að Viktor Bjarki væri á U-21 árs staðnum í þeirri vegferð?“ spurði Helgi í þættinum.
„Jú, sérstaklega því þetta U-21 árs lið okkar hefur ekki gert neitt í þessari undankeppni. Þeir hafa litið illa út og eru í vandræðum með að skora. Hann hefði verið flottur þar inni og getað hjálpað því liði mikið. Það eru tveir stórir framherjar þarna, Benoný og Hilmir og ég held hann hefði alveg getað komið inn fyrir Hilmi, það er mitt mat. KSÍ er með eitthvað plan, kannski sjá þau fram á að hann spili meira með U-19 en U-21,“ sagði Bjarni þá.
„Manni finnst íslenska hefðin vera sú að vera alltaf að horfa í kennitöluna og hversu gamlir menn eru. Umhverfið sem hann er í hjá FC Kaupmannahöfn, ungir leikmenn sem koma þaðan eru miklu tilbúnari en þeir voru áður. Þeir eru ekki jafn mikið að fá aðsvif við að gaga inn á stóra leikvanga,“ sagði Elvar.
Bjarni benti á að Viktor Bjarki væri ekki að fá neinar ruslmínútur með FCK.
„Ef það hefði verið sagt við okkur fyrir einhverjum árum síðan að það yrði íslenskur leikmaður að spila á móti Tottenham í Meistaradeildinni en væri ekki í landsliðinu, þá hefði fólki fundist það hljóma furðulega,“ sagði Elvar þá.
Þátturinn í heild er í spilaranum.