

Manchester United hefur bannað stuðningsmanni að mæta á leiki félagsins næstu þrjú árin eftir að hann birti hómófóbískar athugasemdir um Chelsea á samfélagsmiðlum.
Stuðningsmaðurinn var sakaður um að nota orðið „rent boys“ yfir stuðningsmenn Lundúnaliðsins, orð sem hefur verið notað í áratugi sem niðrandi og hefur nú verið skilgreint sem hatursorð af ríkissaksóknara í Bretlandi.
Þá hafði hann einnig gert grín að því að hafa nánast verið vísað úr stúkunni á leik eftir að hafa kallað Diogo Dalot hómófóbísku skammaryrði.
Í bréfi sem stuðningsmaðurinn birti sjálfur á X (Twitter) kemur fram að United telji hann hafa brotið gegn reglum félagsins og leikvalla.
„Okkur hefur borist vitneskja um að þú hafir notað hómófóbískar athugasemdir í samskiptum á netinu í garð Chelsea og stuðningsmanna þeirra,“ stendur meðal annars í bréfinu.
„Þetta brýtur í bága við reglur félagsins og varðar samkvæmt viðurlagaskrá þriggja ára bann, bæði heima og á útivöllum.“
United hefur síðustu ár tekið harða afstöðu gegn mismunun á leikjum félagsins og segir bannið hluta af stefnu félagsins gagnvart hatursorðum.