

Það verður norðlæg átt á landinu í dag, 5 til 13 metrar á sekúndu, og éljagangur um landið norðanvert, en bjart að mestu á Suðvesturlandi. Frost verður á bilinu 0 til 7 stig en að sögn veðurfræðings verður kaldara í kvöld og nótt allvíða.
„Í fyrramálið verður lægð sem nú er austur af Jan Mayen skammt fyrir norðan land. Þá mun blása nokkuð norðantil á landinu, vestan 10-18 m/s þar og snjókoma með köflum, en dregur úr vindi þegar líður á morgundaginn. Í öðrum landshlutum verður vindur fremur hægur og yfirleitt þurrt, en þó má búast við stöku éljum við ströndina. Áfram svalt í veðri.“
Það dregur til tíðinda á föstudag en annað kvöld nálgast lægð úr suðaustri. Að sögn veðurfræðings fylgir henni talsvert hlýrra loft en verið hefur og á föstudag er útlit fyrir ákveðna norðaustanátt með vætusömu veðri, einkum á Suðuraustur- og Austurlandi.
„Þar sem snjóað hefur síðustu daga má búast við töluverðri hláku og er fólk hvatt til að hreinsa frá niðurföllum.“
Á vef Veðurstofunnar er gert ráð fyrir rigningu á höfuðborgarsvæðinu á föstudag og 5 stiga hita um kvöldið. Á laugardag verður áfram milt í veðri.
Á fimmtudag:
Vestan og suðvestan 10-15 m/s norðantil og snjókoma með köflum, en hægari vindur og yfirleitt þurrt í öðrum landshlutum. Dregur úr vindi og úrkomu eftir hádegi. Frost 0 til 10 stig, kaldast inn til landsins. Vaxandi norðaustanátt seint um kvöldið.
Á föstudag:
Gengur í norðaustan 13-20, en 18-23 suðaustanlands fram eftir degi. Rigning eða slydda með köflum, en talsverð rigning austantil. Hlýnandi, hiti 2 til 8 stig seinnipartinn.
Á laugardag:
Austan og norðaustan 8-15, en hvassviðri norðvestantil. Rigning með köflum, en samfelld úrkoma á Austfjörðum. Hiti 3 til 9 stig.
Á sunnudag:
Norðaustan- og austanátt og víða dálítil rigning eða slydda. Hiti 0 til 8 stig, mildast syðst.
Á mánudag:
Norðlæg átt og él, en þurrt að kalla sunnan heiða. Hiti um eða yfir frostmarki.
Á þriðjudag:
Breytileg átt og stöku skúrir eða él. Hiti breytist lítið.