

Ekki kemur til appelsínugulrar veðurviðvörunar eins og áður hafði verið auglýst, en gul viðvörun er enn í gildi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðarstjórn höfuðborgarsvæðisins.
Enn þá snjóar sumsstaðar á höfuðborgarsvæðinu, en annars staðar er farið að rofa vel til. Umferð er þó víða enn þung og miklar tafir í til dæmis austurhluta höfuðborgarsvæðisins.
Aðgerðarstjórn biður fólk mjög eindregið um að halda sig heima og fylgjast áfram með veðurspám og upplýsingum um færð á vegum.
„Það mun taka dágóðan tíma að ryðja götur á höfuðborgarsvæðinu og fjarlægja ökutæki, sem hafa verið skilin eftir vegna ófærðar. Því er mjög mikilvægt að fólk hindri ekki hreinsun gatna en þar er ærið verkefni fyrir höndum, ekki síst vegna mikillar klakamyndunar víða.“
Spá gerir ráð fyrir að viðvaranir falli úr gildi um miðnætti. Aðgerðarstjórn varar við því að aftur megi búast við þungri umferð á morgun, en ekki er gert ráð fyrir röskun á skólastarfi.