
Áhyggjufullur faðir hafði samband við DV vegna atviks sem átti sér stað fyrir utan leikskólann Hamravelli, við Hvannavelli 1 í Hafnarfirði, upp úr kl. 17 í dag.
Var þar reynt að lokka ungan son hans og vini sonarins upp í bíl. Drengirnir eru á aldrinum 7 til 9 ára. „Tveir menn buðu þeim nammi og að koma upp í bíl til sín. Þeir buðu þeim oftar en einu sinni þegar þeir neituðu.“
Mennirnir tveir voru að sögn föðurins í kringum tvítugt og íslenskumælandi. „Annar var í svartri upprenndri hettupeysu, hvítum bol, með svarta húfu og í svörtum buxum,“ segir hann.
Lögreglu var gert viðvart og fór hún eftirlitsferð um hverfið.
Faðirinn biður foreldra í hverfinu að vera á varðbergi eins og kostur er. „Endilega minnum börnin á hættur sem þessar,“ segir hann.