

Maður á fertugsaldri sem var vísað úr landi reyndist vera eftirlýstur í heimalandinu Póllandi. Hann olli umferðarslysi hér á Íslandi og hafði framið rán og ógnað lífi lögreglumanns með hnífi í Póllandi.
Greint er frá þessu í pólska miðlinum TVN24.
Segir að maðurinn, sem er 36 ára gamall, hafi verið fluttur frá Íslandi til borgarinnar Gdansk í Póllandi í fylgd þriggja íslenskra lögreglumanna. Við komuna á flugvöllinn þar hafi komið í ljós að hann var eftirlýstur.
Kemur fram að maðurinn hafi farið til Íslands fyrir þremur árum síðan til þess að vinna. Hafi hann sagt lögreglumönnum á flugvellinum að honum hefði verið vísað úr landi á Íslandi fyrir að valda umferðarslysi. Vildi hann ekki greina frá dóminum sem hann hafi fengið en vitað var að hann fær ekki að koma til Íslands í þrjú ár.
En á flugvellinum var maðurinn handtekinn vegna tveggja útistandandi handtökuskipana. Annars vegar fyrir að ógna lífi lögreglumanns með hnífi, sem hann fékk eins árs fangelsi fyrir. Hins vegar fyrir rán, sem hann fékk tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir. Samanlagt þriggja og hálfs árs fangelsisdómur.