
Maður sem þekkir til tveggja mæðra, sem fóru með unglingssyni sína, sem glíma við vímuefnavanda auk annarskonar vanda, á meðferðarstofnun í Suður-Afríku, að sögn vegna mikils úrræðaleysis í meðferðarmálum hér á landi, segir ljóst að meðferðarstarfi fyrir börn í slíkri stöðu hafi farið aftur á Íslandi. Vísar hann því til stuðnings í skýrslu um meðferðarstarf fyrir börn og ungmenni hér á landi á fyrsta áratug aldarinnar. Vill hann einnig meina að meðferðarstarfið sé ekki að bera nógu góðan árangur þar sem Barna- og fjölskyldustofa beiti sér fyrir aðferðafræði sem virki ekki nægilega vel fyrir börn sem séu í fíkniefnaneyslu. Það hafi verið misráðið að draga úr áherslu á að senda börn á meðferðarheimili.
Nokkuð hefur verið fjallað í fjölmiðlum undanfarið um sögu mæðranna tveggja en þær segja að meðferðin í Suður-Afríku sé að bera miklu meiri árangur en það sem reynt hafi verið á Íslandi.
Móðir 16 ára drengs: „Afríka greip hann meðan Íslandi var slétt sama“
Ólafur Valur Ólafsson er vinur beggja mæðranna og tjáir sig um stöðu þessa málaflokks í greinargóðri Facebook-færslu sem hann veitti DV góðfúslegt leyfi til að fjalla um.
Ólafur þurfti sjálfur á sínum unglingsárum á meðferð að halda við fíkn. Upp úr aldamótum dvaldi hann í heilt ár í Götusmiðjunni Árvelli og meðferðin bar árangur. Þess vegna segist Ólafur hafa farið að velta því fyrir sér hvers vegna meðferð við vímuefnavanda unglinga sé komin í svona mikið óefni þegar hún hafi virkað svona vel fyrir hann í upphafi aldarinnar.
Vísar Ólafur til skýrslu sem Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd, við Háskóla Íslands, vann fyrir Barnaverndarstofu, sem nú heitir Barna- og fjölskyldustofa, árið 2012.
Í skýrslunni sem er aðgengileg á heimasíðu Barna- og fjölskyldustofu eru rannsökuð afdrif barna sem dvöldu á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu á árunum 2000-2007.
Helstu niðurstöðurnar varðandi meðferðarúrræðin á heimilinum voru þær að reynsla ungmennanna af dvölinni á meðferðarheimili væri almennt jákvæð. Tengsl við starfsmenn hefðu almennt verið jákvæð, styðjandi og farsæl. Um tveir þriðju hafi dvalið áætlaðan meðferðartíma en þriðjungur rofið meðferð. Fram kom að lítil eftirfylgni hefði verið eftir að meðferð lauk, Hátt hlutfall pilta (41 prósent) hafi setið í gæsluvarðhaldi eða fangelsi að lokinni meðferð og um helmingur ungmenna sótt vímuefnameðferð og/eða aðstoð vegna tilfinningalegra erfiðleika eftir að dvöl lauk. Þetta gæti bent til að sum ungmennin tækju upp sína fyrri siði eftir meðferðina
Skýrslan tók til meðferðarheimilanna á Hvítárbakka, Árbót, Bergi, Laugalandi, Geldingalæk, Háholti, Torfastöðum, Jökuldal og Götusmiðjunni á árunum 2000 til 2007 sem og Meðferðarstöð ríkisins á Stuðlum sem er það eina af þessum heimilum sem enn er starfandi. Götusmiðjunni var lokað með vísan til vanefnda á þjónustusamningi af hálfu rekstraraðila og Árbót vegna ofbeldis af hálfu starfsmanns sem kært var til lögreglu og endaði með því að viðkomandi hlaut dóm.
Taka ber fram að það voru ekki eingöngu börn í vímuefnavanda sem stóð meðferð á heimilinum til boða en slíkur vandi var algengasta ástæðan þess að börnin voru send á heimilin.
Í heild sögðu 59 prósent, þeirra úr hópnum sem náðist í, að dvölin á meðferðarheimilinum hefði gagnast þeim við að takast á við sinn vanda en lægst var hlutfallið meðal þeirra sem vorum á Stuðlum, 36 prósent, en minnt er á í skýrslunni að meðferðartími þar hafi verið stuttur. Alls sögðust 20 prósent hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu annarra sem voru í meðferð en hlutfallið var misjafnt milli heimila. Alls sögðust um 15 prósent hafa orðið fyrir ofbeldi starfsmanna en hlutfallið var einnig í því tilfelli misjafnt eftir því á hvaða heimili viðkomandi dvaldi en af þessum hópi sagði 70 prósent að um hafi verið að ræða tilraun starfsmanns til að stöðva ofbeldi eða aðra óæskilega hegðun.
Hópurinn var spurður opinnar spurningar um upplifun sína af dvölinni og í skýrslunni er vitnað til orða þeirra sem lofuðu dvölina og sögðu hana hafa bjargað lífi sínu og segir í skýrslunni að sum ummælin gefi til kynna að börnin hafi haft afar gott af því að komast í annað umhverfi.
Sumir sögðu þó ekki jafn góða sögu og sögðust hafa orðið fyrir ofbeldi á meðferðarheimili, glímt þar við mikla vanlíðan og sumir sögðust hafa komist í kynni við krakka sem hafi verið sokkin dýpra í fíkniefnaneyslu en þau sjálf. Sumir gagnrýndu að börnum með ólíkan vanda hefði verið blandað saman og einhverjir sögðust fyrst hafa prófað fíkniefni á meðferðarheimili.
Þegar hópurinn var spurður um starfsfólkið voru svörin einnig bæði jákvæð og neikvæð. Skýrsluhöfundar segja því ljóst að þeir sem dvöldu á meðferðarheimilum á þessum árum hafi bæði haft góða og slæma sögu að segja af dvölinni.
Umrædd skýrsla er mjög ítarleg og því aðeins hægt að stikla hér á mjög stóru um efni hennar. Niðurstaða skýrsluhöfunda var þó sú að þar sem meirihluti barnanna lyki meðferð og hefði jákvæða reynslu af henni benti það til þess að á meðferðarheimilunum sem könnuð voru í skýrslunni væri unnið gott og mikilvægt starf. Ofbeldi á heimilunum virtust vera undantekningartilvik.
Að lokum var mælt með því þó að draga úr áherslu á stofnanameðferð fyrir börn og unglinga en styrkja eftirlit með meðferðarstofnunum og herða kröfur um menntun og hæfni starfsfólks.
Skýrslan var þó síðar gagnrýnd fyrir að hafa dregið úr því ofbeldi sem þó hefði átt sér stað á heimilunum. Var í umfjöllun Stundarinnar árið 2021 meðal annars rætt við konur sem dvöldu á meðferðarheimilinu að Laugalandi á þeim árum sem skýrslan nær til og urðu þar fyrir ofbeldi af hálfu forstöðumannsins.
Ljóst virðist því af þessu öllu saman að árangur af starfi meðferðarheimilanna á fyrsta áratug aldarinnar var í mörgum tilfellum góður en ekki öllum.
Í dag fylgir Barna- og fjölskyldustofa einkum svokölluðu MST-meðferðarúrræði. Samkvæmt heimasíðu stofnunarinnar er það ætlað fjölskyldum barna á aldrinum 12-18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunar- og vímuefnavanda. Barnaverndarþjónustur um allt land geti vísað áfram í úrræðið og meðferðin standi til boða um land allt. Meðferðin felist í að barn búi heima hjá sér, stundi skóla eða vinnu, komist ekki í kast við lögin, noti ekki vímuefni og beiti ekki ofbeldi eða hótunum.
Meðferðin taki að jafnaði 3-5 mánuði og felist fyrst og fremst í að auka færni foreldra til að takast á við vanda barna sinna. Almennt sé stefnt að því að bæta samskipti og samheldni innan fjölskyldunnar, tengsl og samráð foreldra og skóla og annarra lykilaðila í umhverfi barnsins. MST meðferðin snú því að öllu nærumhverfi barnsins: foreldrum, fjölskyldu, félagahópi, skóla og tómstundum.
Meðferðin fari fram á heimili fjölskyldunnar og geri þá kröfu að barnið búi á heimilinu. Sérhæfður meðferðaraðili hitti foreldra, og eftir aðstæðum barn, á heimili þeirra eftir samkomulagi. Foreldrar hafi jafnframt aðgengi að meðferðaraðila til ráðgjafar í síma allan sólarhringinn.
Segir einnig að meðferðin sé aðlöguð að þörfum hverrar fjölskyldu.
Áðurnefndar mæður sem stigið hafa fram segja hins vegar að MST-úrræðið hafi alls ekki gagnast við fíkniefnaneyslu sona þeirra heldur miðast aðallega við hegðunarvanda drengjanna. Þeir hafi verið sendir af heimilinu í önnur úrræði sem hafi ekki gagnast á nokkurn hátt og til að mynda hafi reynst auðvelt, þegar þeir hafi verið sendir á Stuðla, að strjúka og ná sér í efni.
Ólafur Valur segir reynslu mæðranna og sína eigin sýna að MST-meðferðin sé gagnslaus við vímuefnavanda barna. Í samtali við DV bætir hann því við að fleiri foreldrar hafi tjáð sér að meðferðin hefði ekki hjálpað neitt börnum þeirra sem væru að takast á við fíkn. Foreldranir telji ljóst að Barna- og fjölskyldustofa líti á fíkniefnaneyslu barna og ungmenna fyrst og fremst sem hegðunarvanda. Það sé ekki gripið inn í neysluna af hálfu barnaverndaryfirvalda nema því fylgi mikill og langvarandi hegðunarvandi.
Ólafur Valur segir að reynsla sona mæðranna tveggja og fleiri fjölskyldna sýna að mikil þörf sé á góðu meðferðarheimili hér á landi sem veiti ungmennum undir 18 ára langtímameðferð við vímuefnavanda. Það sé eins og barnayfirvöld líti svo á börn undir 18 ára geti ekki verið fíklar.
Hvað svo sem áðurnefndri skýrslu líður og hvort lausnin sé að beina krökkum í vímuefnavanda aftur inn á meðferðarheimili virðist það blasa við, miðað við umræður og reynslusögur undanfarinn missera sem birst hafa í fjölmiðum og á samfélagsmiðlum, að vandi þessa hóps er ærinn og illa hefur gengið að leysa hann.
Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra hefur viðurkennt að úrbóta sé þörf þó að hann neiti að taka undir að ákvörðun mæðranna að fara með syni sína úr landi til meðferðar sé ekki áfellisdómur yfir kerfinu. Hann hefur sagt í samtali við Vísi að meðferðarúrræði verði opnað í Gunnarsholti í Rangárþingi og að þegar ríkið taki alfarið yfir málefni barna með fjölþættan vanda, eftir áramót. sé vonast til að hægt verði að bregðast betur við verið sé að vinna í að kortleggja vandann.