Líf Paradísu snerist á hvolf þegar hún hryggbrotnaði árið 2022. Það hafði gríðarleg áhrif á hana, ekki bara líkamleg heldur einnig andleg en Paradísu fannst fótunum kippt undan henni. Hún gat ekki lengur sinnt starfi sínu né stundað áhugamál sín, hún var týnd þar til hún fann nýjan tilgang; að semja tónlist. Hún tók upp listamannanafnið Paradísa og hefur gefið út þrjú lög og er plata væntanleg þann 8. nóvember næstkomandi.
Hlustaðu á þáttinn á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Textabrot úr þættinum má lesa hér að neðan.
„Áður en ég lenti í slysinu var ég að gera allt aðra hluti en í dag og ég var eiginlega bara allt önnur manneskja,“ segir Paradísa. Hún er með meistaragráðu í íþrótta- og heilsufræði og starfaði sem einkaþjálfari og hóptímakennari hjá Hreyfingu í sex ár.
„Ég var líka að gera alls konar hluti, eins og að taka þátt í fegurðarsamkeppnum, leika mér að því að sitja fyrir og módelast. En annars snerist í rauninni allt líf mitt um íþróttir og það voru mín einu áhugamál sem ég hafði. En það er búið að breytast núna…“
Paradísa hryggbrotnaði fyrir þremur árum og breyttist allt líf hennar í kjölfarið.
„Ég fæ sem sagt tækifæri til þess að vera með svona trampólín-fitness tíma og svona stórum trampólínum í trampólíngarði fyrir fullorðnar konur. Og það gekk ótrúlega vel, það var rosalega gaman. En eftir einn tímann var ég bara eitthvað að hoppa og ganga frá, eitthvað að leika mér og ég lendi illa,“ segir hún.
Það voru nánast allir farnir heim en sem betur fer var ein kona eftir sem gat hringt á sjúkrabíl. „Mér tókst að brjóta á mér bakið. Ég bara kramdi sjálfa mig eins og þegar þú ert að brjóta glowstick. Hryggurinn fór alveg í klessu. Ég fékk það sem að heitir burst fracture á einn hryggjarliðinn, sem þýðir að hann kramdist og klofnaði og litlu munaði að ég hafi orðið lömuð fyrir neðan mitti.“
Paradísa var flutt á sjúkrahús. „Næsta sem ég veit er að ég er að bíða eftir að fjórir sérfræðilæknar mæti til að geta tekið mig í bráðaaðgerð því það voru beinflísar að stingast inn í mænuna mína,“ segir hún.
Hún segir að það hafi ekki farið á milli mála að hún hafi brotnað, hún hafi heyrt það þegar hún lenti. „Ég hef líka aldrei fundið jafn mikinn sársauka á ævinni að ég vissi ekki að það væri hægt að finna svona mikið til án þess að detta í yfirlið,“ segir hún.
„Mér var sagt að englar hafi vakið yfir mér og ég trúi því, vegna þess að ég fetti mig svona í bakinu og ég þurfti að halda mér í fettu. Ég vissi ekki af hverju, ég vissi bara að ég þurfti þess,“ segir Paradísa.
Sem betur fer gerði hún það og hélt stöðunni í einn og hálfan sólarhring áður en hún fór í aðgerð, en ef hún hefði sleppt fettunni þá hefðu beinflísarnar getað stungist inn í mænuna.
Hún man eftir því þegar læknir tilkynnti henni að hún þyrfti að gangast undir aðgerð. „Hann var svo áhyggjufullur á svipinn og var svo stressaður að segja mér þetta. En ég var bara: „Já ókei, let‘s go.“ Sem meikar engan sens þegar líf þitt er í hættu. En það var búið að gefa mér mikið af lyfjum, þannig það hjálpaði manni allavega,“ segir hún kímin.
Aðgerðin gekk vel, beinflísarnar voru tíndar úr og hryggurinn spengdur upp.
„Þegar maður er inni í þessu áttar maður sig ekki á því sem er að gerast, fyrr en árum seinna. Það voru allir svo rosalega áhyggjufullir alltaf og ég skildi ekkert í því. Ég ætlaði bara að laga þetta,“ segir Paradísa.
„Allir læknarnir og bara allir voru svo áhyggjufullir, og ég átta mig á því í dag að það eru ekki allar aðgerðir sem ganga svona vel, sérstaklega þegar er verið að tala um mænuna. Ef að eitthvað hefði farið úrskeiðis, þá væri ég lömuð fyrir neðan mitti.“
Endurhæfingin var löng og ströng og þurfti Paradísa að sætta sig við að líf hennar eins og hún þekkti það væri ekki lengur raunhæft. Það var mikil sorg að þurfa að sleppa því.
„Ég er eiginlega bara nýhætt að tárast þegar ég tala um þetta. En ég er betri núna því ég hef fundið mér nýjan tilgang.“
Í sjúkrahúsrúminu byrjaði Paradísa að leika sér með litla DJ-græju og kviknaði þar gömul ástríða á ný. Hún hefur spilað á ýmsum viðburðum, þar á meðal stórum tískuviðburði í Indlandi. Hún byrjaði að semja eigin tónlist fyrr á árinu og hefur gefið út þrjú lög. Fyrsta lagið var Leaves, sem fjallar um slysið og hvernig það markaði nýtt upphaf fyrir hana.
Fyrsta plata Paradísu, STARGAZER, kemur út þann 8. nóvember næstkomandi og verður útgáfupartí á skemmtistaðnum Útópía þann 15. nóvember.
Hún ræðir nánar um slysið og tónlistina í þættinum sem má hlusta á hér. Hún ræðir einnig um þátttöku sína í fegurðarsamkeppnum, en hún segist bæði hafa góða og slæma reynslu af slíkum keppnum. Hún segist hafa séð og upplifað alls konar óviðeigandi hegðun gagnvart saklausum ungum keppendum.
Fylgdu Paradísu á Instagram og hlustaðu á lögin hennar á Spotify og YouTube.