fbpx
Fimmtudagur 23.október 2025
Fréttir

Steingrímur áhyggjufullur og talar um arfavitlausar aðgerðir – „Ef stjórnvöld vilja ekki hlusta á okkur þá er það þeirra val“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 23. október 2025 15:00

Steingrímur Birgisson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds – Bílaleigu Akureyrar, gagnrýnir harðlega fyrirhugaða 66% hækkun vörugjalda á bifreiðar. Í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag segir hann að íslensk stjórnvöld hafi í orði kveðnu talað um mikilvægi fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi, en í verki séu aðgerðir þeirra þveröfugar.

Steingrímur bendir á að ferðaþjónustan sé ein af lykilstoðum íslensks efnahagslífs. Vísar hann í tölur Hagstofu Íslands máli sínu til stuðnings og bendir á að skattspor greinarinnar til hins opinbera hafi verið áætlað 155 milljarðar árið 2022 og nálgist nú 200 milljarða.

Varhugavert að ógna greininni

„Þetta sýnir svart á hvítu hversu mikilvæg greinin er fyrir samfélagið – og hversu varhugavert það er að ógna henni með vanhugsuðum, ófyrirsjáanlegum og íþyngjandi aðgerðum án nokkurs samtals,“ segir hann.

Steingrímur segir að vörugjöld á bíla skili ríkissjóði rúmum 10 milljörðum á ári en eigi að skila 17 milljörðum á næsta ári.

„Þessi breyting á að taka gildi innan örfárra mánaða – í nafni fyrirsjáanleika? Við í bílaleigugeiranum höfum enn ekki fengið skýrar upplýsingar um hvernig þessar hækkanir verða útfærðar, en miðað við það sem liggur fyrir, þá mun meðalbíllinn okkar hækka um rúmlega 20%. Slíkar hækkanir, í bland við nýjan kílómetraskatt og sterka krónu, munu draga úr eftirspurn og gera Ísland óaðlaðandi í samanburði við önnur ferðamannalönd.“

Steingrímur segir að staðan sé raunar þannig að nú þegar sé fyrirtækið farið að sjá samdrátt í bókunum inn á næstu mánuði. Það stafi meðal annars af sterkri krónu og veikingu dollars, evru og punds.

Geta haft alvarleg áhrif

Til að bæta gráu ofan á svart segir Steingrímur að stjórnvöld hyggist einnig innleiða kílómetragjald á alla bíla – fyrst allra þjóða.

„Þessi nýja gjaldtaka mun auka kostnað verulega og er kynnt með afar stuttum fyrirvara. Í samanburði má nefna að Holland og Sviss eru að skoða sambærilegt gjald, en horfa til ársins 2030. Það kallast fyrirsjáanleiki – nokkuð sem skortir verulega á hér á landi. Við höfum þegar verðlagt þjónustu okkar fyrir næsta sumar og hafið sölu. Slíkar breytingar með skömmum fyrirvara valda miklum vandræðum og geta haft alvarleg áhrif á rekstur og traust viðskiptavina,“ segir Steingrímur.

Steingrímur bendir á að um 60% allra ferðamanna leigi bíl og ferðist um landið. Fyrirhugaðar breytingar muni hafa þau áhrif að færri ferðamenn leggi í hringferð um landið og einblíni frekar á suðvesturhornið. Þetta muni bitna á landsbyggðinni og auka árstíðasveiflur.

Hann segir ljóst að markmiðið með breytingunum sé að þvinga bílaleigur til að kaupa rafbíla í auknum mæli, en eftirspurnin sé einfaldlega ekki fyrir hendi. „Það er ekki skynsamlegt að birgja sig upp af bílum sem fáir vilja leigja, viðskiptavinirnir eru því miður ekki tilbúnir í rafbílana nema í mjög litlum mæli,“ segir hann.

Varar við afleiðingunum

Steingrímur segir að ferðaþjónustan þurfi að takast á við margvíslegar áskoranir, til dæmis eldgos, óbilgjarna veðráttu, verkföll, gengissveiflur, háa vexti og verðbólgu.

„Við þurfum ekki á fleiri hindrunum að halda – sérstaklega ekki þeim sem stjórnvöld geta auðveldlega forðast með samtali og skynsemi,“ segir hann og bætir við að þetta séu „arfavitlausar aðgerðir sem munu ekki auka tekjur ríkissjóðs“.

„Þvert á móti draga þær úr útflutningstekjum ferðaþjónustunnar og þar með þeim tekjum sem hið opinbera hefur af henni. Það sem verra er, þær hafa verðbólguhvetjandi áhrif.

Nærtækara væri að nýta hluta af þessum tekjum í markaðssetningu á Íslandi, sem myndi skila sér í auknum komum ferðamanna og þar með auknum skatttekjum.

Að kunna að hlusta er kostur. Ef stjórnvöld vilja ekki hlusta á okkur þá er það þeirra val, en þá biðjum við um þá lágmarkskurteisi að okkur sé gefinn að minnsta kosti 12 mánaða aðlögunartími. Þannig getum við upplýst erlenda viðskiptavini okkar áður en þeir koma til landsins en ekki skellt þessu fyrirvaralaust framan í þá.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt