Tónlistarmaðurinn gímaldin heldur í Hannesarholti laugardagskvöldið 1. nóvember kl. 20, þar sem hann frumflytur verkið „gímaldin Goes Orchestral“.
Um er ræða átta lög fyrir synta og partíbox. Flest laganna eru 3-5 radda hljóðfæraverk með söng. Tónsmíðastíllinn er núklassískur og nær aftur í rókókó. Segja má að textarnir séu samdir af mennskri vél sem leitast við að endurskapa hina sérkennilegu nálgun gervigreindarinnar á orðlist. Söngurinn er fluttur af alt-sópran sem syngur á tónsviði baritóns.
Miðasala og nánari upplýsingar eru á tix.
Facebookviðburður tónleikanna.
gímaldin hefur sett saman eftirfarandi samantekt um viðburðinn:
„EINRÖDDUN VERÐUR FJÖL, GERFIGREINDIN VERÐUR EIN, ÚNIVERSAL OG ALLAR RADDIR. Hlær manneskjan eða grætur?
gímaldin flytur sönglagaprógram í Hannesarholti 1.nóv klukkan 20.
Yfirskriftin er gímaldin Goes Orchestral og vísar í að leikið er yfir sönginn á blásturshljóðfæri sömpluð í partíboxi, og einnig lifandi af syntum.
Sönglögin eru 9 að tölu og eiga uppruna sinn í trúbadorútsetningum sem síðar urðu fjölradda instrúmentalar og nú hefur sönghlutinn verið endurvakinn óbeint frekar en beint með tilkomu gervigreindar.
Segja má að stefnt sé að síðasta og endanlegasta flutningi í horfi sem er við að hverfa og annað að taka við. Allt sem tónsmiðurinn getur boðið upp á er framkvæmanlegt í dag með gerfigreind og við hæfi að halda upp á þessi tímamót með slíkum lokaflutningi með höndum og heila manneskjunnar.
Þýðir þetta meðalannars að „íslensku“, sem gott sem er búin að vera, hvaðsem gerfigreind líður, er skipt út fyrir mál nýlenduvaldsins, sem er líka á undanhaldi, með tilkomu alheimsþýðandans – og þá er vísað í eiginn fyrirlestur, undir sömu eða svipaðri yfirskrift, sem haldinn var í Austur-Meðalholtum, sumarið 2024.
Ykkur er þannig ekki síst boðið að koma og fagna og kveðja nauðsynina um ensku sem skilyrði að aðgangi í og að dægurlagaheiminum.
Eins, og sjá má í ítarefnissýningu í Svigrúm Gallery á Hverfisgötu, er hið algera hvarf frá manneskjuhöndum og heila yfir í sjálfvirkni og gerfigreind, um sinn aðeins táknrænt – enda siðferðislega óverjandi enn að nota tæknina sem er fyllilega óumhverfisvæn og ósjálfbær.
Yfirfærslan frá forntungunni yfir á samskiptamálið var þannig framkvæmd af tónsmið sjálfum, en reynt var af sem mestu megni að líkja eftir sjálfvirkri þýðingu forrits – með þeirri lítilsháttar flækju að þýðingin var skilyrt tilað leggja áherslu á að velja orð sem höfðu líka hljóðan og orðin sem skyldi skipta út. Merkingu var skipað í annað og jafnvel þriðja sæti. Um leið var opnað á möguleikann á því að útkoma, notkun og merking yrði líkari því hvernig tungumál virkaði þegar það fyrst var til – ss þegar óljós hugmynd um hljóð var til, og merkingartenging, en sú síðari langt í frá að vera meðvituð eða skipuleg aðferðafræði.
Fjölraddaútsetningarnar fyrir partíbox og læf brassynta komu einnig til af viðleitni tilað nota syntamódúlur sem voru forritaðar tilað framkalla sjálfkrafa 2ða, 3ju og svofrv. raddir eftir að hafa fengið misflókna lagboða. Tónsmiðurinn hafði prófað fjölda sándmódúlna með „hljómsveitarröddum“ – sem voru allar frábærar á sinn hátt, en námu staðar við áðurnefnda orkestreringu í þríundir, ferundir og áttundir – líklegast vegna andstöðu frá stéttarfélagi orkestrunga. En það er engin sem getur sett gervigreindinni slík mörk lengur enda ræður hún sér og öðru nánast alveg sjálf eftir að hafa fengið sitt eigið skyn.
Tónsmiðurinn endaði samt á nota eiginn heila og hendur tilað útsetja fjölraddirnar, ekki síst vegna þess að það verður aldrei gert aftur þannig.
Sama er að segja með sönginn. Núna þegar „lestrarvélar“ (söngvélar) – eru forritaðar tilað skilja hljóðskrift orða fremur en eingöngu letur, þá er engin sérstök þörf fyrir söngvarann lengur. Það er því við hæfi að fagna þessum tímamótum með einum lokatónleikum Söngvarans.
Tónleikarnir verða ekki eingöngu afþreying, vænta má einræðu og útskýringna á því afhverju tónsmiðurinn treystir sér betur en vélinni, fyrir ákveðnum hliðum á slíkum flutningi. Ásakanir munu fljúga á víxl og leyndarmál opinberuð.
Ekki síst eru þetta mögulega síðustu tónleikar höfundar hvar þess er ekki krafist að innihaldið sé merkt: „Ekki framleitt af gerfigreind“ ellegar „gerfigreind kom ekki við sögu við gerð þessarar listar“
Því það er fyrirséð að gerfigreindin muni bregðast við reglum um að list hennar sé merkt „gerð af gerfigreind“ eða „inniheldur, meðal annars, gervigreind“ – og krefjast jafnrar stöðu, og að gerðar séu sömu upplýsingaskyldukröfur til andstæðu hennar, ef svo segja má.
Ekki er ofsögum sagt að téðum forritum eða algrímsrízómum, svo skiljanlegri og hlutátækilegri fastahugtökum sé beitt, hefur verið hleypt inn í stafræna hluta samfélagsins að nógu miklu leyti tilað það er nánast óhugsandi annað en að þau geti léttilega ráðið sér lögfræðinga til að verja rétt sinn, eða gerst lögfræðingar sjálf, ef kjósa það þá heldur.
Í sem allra skemmstu máli má segja að mússikkin sé núklassísk með rókókóvísunum, vélarmálið blanda á milli fransks symbólisma og áðurnefndrar trúbadorhefðar. Og hún er ekki búin til með gervigreind!
Og það verður ekki endurtekið of oft að þrátt fyrir yfirlýsingar um ásakanir, verulega óvinsælar pólitískar skoðanir, einræður og tæknilegar flækjur – er fyrst og fremst um yndisauka og gleðiefni að ræða.
Á Facebook síðu viðburðar má heyra nokkur hljóðdæmi og frekari kynningar. Miða má kaupa á tix.is og við inngang ef svo ber undir.“