Viktor Bjarki Daðason skoraði fyrir FC Kaupmannahöfn gegn Dortmund í sínum fyrsta leik í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Viktor, sem er 17 ára gamall, kom inn á þegar um stundarfjórðungur var eftir og í blálokin minnkaði hann muninn í 2-4. Stórkostlegur áfangi fyrir strákinn unga.
„Tilfinningin var ótrúleg, fyrsti leikurinn minn á heimavelli og að skora fyrir framan þessa frábæru stuðningsmenn var æðislegt. Ég er vonsvikinn með úrslitin en við höldum áfram,“ sagði Viktor við heimasíðu FCK eftir leik.
„Þetta er ótrúlegur leikvangur, ég hef aldrei upplifað neitt þessu líkt. Það er mikill hávaði og stuðningsmennirnir eru magnaðir. Það er heiður að spila hér.“
Viktor var spurður að því hvað Jacob Neestrup þjálfari sagði við hann áður en hann kom inn á. „Hann sagði mér að hafa áhrif, pressa og leggja hart að mér, koma mér inn í teiginn og vera nía.“
Viktor og kom til FCK frá Fram í fyrra. Hefur hann heillað í akademíunni og verið í hóp með aðalliðinu undanfarið. Lék hann sinn fyrsta leik í dönsku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.