38 ára karlmaður, Christopher Moss, var handtekinn á sunnudagskvöld, tveimur dögum eftir að lögreglan var kölluð að byggingu við East 21st Street í Flatbush í New York vegna mikils óþefs sem lagði um stigaganginn frá íbúð á sjöttu hæð, að sögn lögreglu.
Moss er sakaður um að hafa hent rotnandi líki kærasta síns út með ruslinu, en lyktin var svo ógeðfelld að líkið varð ekki leyndarmál lengi.
Yfirvöld fundu „mjög rotnandi“ lík kærasta Moss, Darrell Montgomery, 35 ára, sem troðið hafði verið í ruslapoka og hent í ruslatunnu á gangstéttinni. Líkamsleifarnar voru svo illa farnar að lögreglan hélt að líkið hefði verið bútað niður og þurftu að bíða eftir réttarmeinafræðingi til að fjarlægja líkið úr pokanum.
Ekki er grunur um að Moss hafi myrt kærasta sinn og hefur hann verið ákærður fyrir að reyna að farga líkamsleifunum og veita mótspyrnu við handtöku.
Moss var ekki samvinnufús við handtöku eftir að lögreglan hafði uppi á honum eftir ábendingu og nálgaðist hann þar sem hann var á gangi. Þegar lögreglumenn reyndu að handtaka hann skallaði hann einn lögreglumann og greip byssu annars lögreglumanns.
Lögreglan sagði að Moss væri einnig ákærður fyrir árás á lögreglumann, tilraun til ráns, vopnaeign, mótspyrnu við handtöku og fyrir að hindra stjórnsýslu ríkisins.
Mikinn óþef lagði enn yfir í göngum fjöleignarhússins á mánudaginn, þar sem nágrannar voru undrandi yfir því sem gerðist.
Sayuri Abundis, 23 ára, sem býr á fimmtu hæð, sagði að Moss hefði hagað sér undarlega síðustu tvær vikur.
„Hann hefur verið úti að tala við sjálfan sig. Hann hefur bara verið að segja: „Hvar ertu? Opnaðu dyrnar!“ aftur og aftur. Þeir voru alltaf saman en síðustu tvær vikurnar var það bara hann. Áður en hann læstist úti hringdi hann í Darrell og bað hann um að hleypa sér inn og þá voru þau að rífast. Christopher öskraði á hann: „Bíddu þangað til ég kem upp!““ sagði Abundis. „Þeir voru alltaf að rífast. Það hefur alltaf verið þannig. En síðustu tvær vikurnar hefur hann verið einn og hann hefur bara verið að tala upphátt við sjálfan sig.“
Í sama streng tekur annar íbúi, Carl Smith, sem búið hefur í húsinu tvö ár og sagðist alltaf hafa séð parið saman.
„Moss gekk um og muldraði einhverja vitleysu áður en þetta gerðist, áður en þeir fundu líkið,“ sagði Smith, 62 ára. „Hann var að tala við sjálfan sig, ganga fram og til baka hérna fyrir framan bygginguna og bara ganga um hverfið … bara að fara í búðina að tala við sjálfan sig,“ bætti hann við. „Ég er ruglaður eins og allir aðrir. Ég veit ekki af hverju hann gerði það sem hann gerði. Maður sá þá bara koma og fara saman allan tímann en síðustu tvær vikurnar eða svo var það bara hann að ganga um einn að tala við sjálfan sig.“
Réttarlæknir mun taka úrskurða um dánarorsök Montgomery.
Moss var úrskurðaður í gæsluvarðhald gegn 25.000 dollara reiðufé eða 30.000 dollara tryggingu við fyrirtöku hans á mánudagskvöld.