fbpx
Þriðjudagur 21.október 2025
Fréttir

Sigga Dögg veldur aftur fjaðrafoki vegna fermingarfræðslu – „Guðlasti varpað fram undir hlátri og klappi „presta“ kirkjunnar“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 21. október 2025 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fermingarfræðsla vekur ekki alltaf mikla athygli, athyglinni getur jafnvel verið ábótavant hjá fermingarbörnunum sjálfum. Fermingarfærslu á Akureyri hefur þó ekki bara tekist að vekja athygli heldur líka fjaðrafok. Akureyri.net greindi í gær frá færslu sem faðir sá sig knúinn til að skrifa eftir að kynfræðingurinn Sigga Dögg mætti með fyrirlestur í fermingarfærslu dóttur hans.

„Ég sagði dóttur mína úr „fræðslunni“ hjá þeim. Hún mun fermast og játa trú sína á Jesús Krist en eftir að hafa setið klukkustund þarna inni og hlustandi á fullorðna manneskju „predika“ yfir henni mikilvægi sjálfsfróunar á köldum vetrarkvöldum og vera dugleg að „skoða hvort annað“ með tilheyrandi glærum, þá var farið yfir strikið með að „druslustimpla“ Maríu Mey sem „vissi nú ekki einu sinni með hverjum hún hefði átt Jesús með“ og að postularnir hefðu bara verið abbó út í Maríu Magdalenu því hún hefði alltaf verið „í sleik við Jesús“. Við munum aldrei aftur mæta í „fermingarfræðslu“ þar sem svona Guðlasti er varpað fram undir hlátri og klappi „presta“ kirkjunnar.“

Um var að ræða fermingarfræðslu Glerárkirkju, en sú breyting hefur verið gerð á fræðslunni að fermingarbörnin mæta nú til fræðslukvölda í fylgd með foreldrum sínum.

Sigga Dögg skrifaði sjálf færslu um fræðslunna, en eyddi henni síðan. Þar skrifaði hún meðal annars:

„En það er svo magnað að kynfræðslan fer oft á óvæntar slóðir eins og bara allt einu vorum við farin að tala um drusluskömm Maríu Magdalenu og að hún og Jesú hefðu svo oft verið í sleik fyrir framan lærisveinana sem höfðu verið abbó og reynt að minnka hana með því að skella á hana allskyns fúkyrðum.

Ekki nóg með það heldur ræddum við kynfæri í þaula og hvernig þau tengjast skömm og líkamsímynd og sjálfstrausti og sjálfsást. Og auðvitað var þeim varpað upp á vegg. Og ég staldraði við, bara í eitt andartak eða svo, og rifjaði upp hvað gerðist síðast þegar ég sýndi kynfæri í kirkju.. En síðan þá eru liðin mörg ár, sem betur fer.“

Sigga lauk færslunni með því að segjast elska að vera með fræðslu í kirkju þar sem samtalið megi fara á aðra staði en annars staðar.

Ein móðir hefur þó ritað færslu um sína reynslu og hafði ekkert nema gott um hana að segja. Telur hún líklegt að óánægjan komi mest frá fólki sem ekki var á staðnum. Sigga Dögg hafi fjallað um sjálfseflingu sem og kynlíf. Unga fólkið eigi að elska og þekkja sjálft sig og vita hvar mörk þess liggja.

Sumir hafa slegið á létta strengi. Til dæmis ritaði fyrrum þingmaðurinn og dómarinn Brynjar Níelsson færslu sem vísar í uppákomuna.

Sigga Dögg vísaði í færslunni sinni til fjaðrafoks af svipuðum toga sem átti sér stað eftir fræðslu hennar til fermingarbarna á Selfossi árið 2014. Æskulýðsprestur Selfosskirkju var þá kærður til lögreglu eftir að Sigga Dögg sýndi kynfæramyndir. Engin ákæra var gefin út í málinu en Sigga Dögg birti sjálf myndirnar á heimasíðunni og mátti þar sjá kynfæri af öllum stærðum og gerðum, en ekki í kynferðislegu samhengi. Fyrr á því ári hafði Sigga Dögg safnað ljósmyndum af kynfærum karla og kvenna til að nota sem hluta af fræðsluefni fyrir kynfræðslubók.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Innviðaráðherra fellur frá þrepaskiptum réttindum til dráttarvélaaksturs

Innviðaráðherra fellur frá þrepaskiptum réttindum til dráttarvélaaksturs
Fréttir
Í gær

„Það er verið að taka flugrekstur og ferðaþjónustu á Íslandi og bara Íslendinga í gíslingu“

„Það er verið að taka flugrekstur og ferðaþjónustu á Íslandi og bara Íslendinga í gíslingu“