Leinket, sem er 48 ára og búsettur á Costa del Sol á Spáni, hafði ætlað sér að eiga rólega kvöldstund fyrir framan sjónvarpið fyrir skemmstu þegar hann rakst fyrir tilviljun á heimildarmynd um Himmler.
Leinket hafði lengi starfað sem hjónabandsráðgjafi og sinnti jafnframt prestsstarfi í hlutastarfi, en í umfjöllun Der Spiegel, sem Mail Online vitnar til, kemur fram að þessi starfsreynsla hans hafi ekki getað undirbúið hann fyrir það sem á eftir kom.
Myndin vakti áhuga hans á ævi Himmlers, sem stýrði kerfisbundinni útrýmingaráætlun nasista gegn gyðingum í síðari heimsstyrjöldinni. Leinket fór að leita nánari upplýsinga á netinu og tók þá eftir sláandi líkindum á milli ástkonu Himmlers, Hedwigar Potthast, og ömmu sinnar; andlitsdrættirnir voru þeir sömu og þær áttu sama fæðingar- og dánardag.
Potthast hafði unnið í höfuðstöðvum Gestapo og átt í ástarsambandi við Himmler frá 1940, þrátt fyrir að Himmler væri kvæntur Margarate Boden. Potthast og Himmler eignuðust tvö börn, Helge árið 1942 og Nanette-Dorotheu árið 1944, áður en Himmler svipti sig lífi eftir að Bretar handsömuðu hann árið 1945.
Eftir stríð giftist Potthast viðskiptamanninum Hans Staeck og fengu börnin nýtt eftirnafn – annað þessara barna var móðir Leinkets, fyrrnefnd Nanette-Dorothea.
Leinket segir í viðtalinu að honum hafi aldrei verið sagt frá ætt sinni, en eftir að hafa grafið dýpra fann hann fæðingarvottorð þar sem Himmler er skráður sem faðir Nanette-Dorotheu.
„Ég trúði þessu ekki. Ég hélt að þetta væru einhver mistök,“ segir hann í viðtalinu.
Leinket rifjaði upp að amma hans hefði alltaf verið hlý og góð við sig sem barn, en á kreiki hafi verið orðrómur um fortíð hennar sem hún hafi augljóslega ekki viljað að kæmi upp á yfirborðið.
„Skyndilega ertu orðinn barnabarn fjöldamorðingja,“ sagði Leinket. „Hvernig gat hún elskað slíkan mann?“
Potthast lést árið 1994 og móðir Leinkets árið 2019.