fbpx
Sunnudagur 19.október 2025
Fréttir

Hjólreiðamaður fær nýtt tækifæri hjá Sjúkratryggingum – Brá mjög þegar bíll birtist skyndilega

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 19. október 2025 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur fellt úr gildi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands í máli hjólreiðamanns sem sótti um bætur úr slysatryggingu almannatrygginga og lagt fyrir stofnunina að taka málið fyrir að nýju. Stofnunin hafði sagt manninum að leita til viðeigandi tryggingafélags en maðurinn hemlaði snögglega og datt af hjólinu eftir að hafa brugðið mjög þegar bíll birtist skyndilega, þegar hann var að fara yfir gangbraut, en annar bíll hafði byrgt honum sýn.

Í maí 2024 sneri maðurinn sér til Sjúkratrygginga og tilkynnti að hann hefði orðið fyrir slysi á leið til vinnu mánuðinn áður. Stofnunin hafnaði í janúar á þessu ári umsókn hans um bætur úr slysatryggingu almannatrygginga á þeim grundvelli að um væri að ræða tjón sem væri bótaskylt úr lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis eð slysatryggingu ökumanns og eiganda, hjá viðkomandi tryggingafélagi.

Hjólreiðamaðurnn kærði synjunina í apríl á þessu ári.

Vísaði hann í kærunni til ákvæða laga um slysatryggingu almannatrygginga um að hann sé tryggður á leið til vinnu eftir eðlilegri leið. Sagðist maðurinn í kærunni hafa einmitt í umrætt sinn hafa verið á leið til vinnu eftir eðlilegri leið, á hjólinu. Þegar hann hafi hjólað framhjá sendibíl hafi hann séð bíl. Við það hafi honum brugðið þannig að hann hafi snögghemlað til að forðast árekstur og þá dottið. Sagðist hjólreiðamaðurinn ekki sjá hvernig ökutækið eða notkun þess hafi ollið slysinu þannig að hann eigi rétt á bótum frá vátryggingafélagi ökutækisins í stað slysatryggingu almannatrygginga eins og Sjúkratryggingar vildu meina.

Hindraði

Í úrskurði nefndarinnar er birt tilkynning mannsins til Sjúkratrygginga um slysið en þar kom fram að að hann hafi verið nýlagður af stað til vinnu á hjóli. Þegar hann kom að gangbraut var stór bíll sem lagt var við gangbrautina sem hindraði útsýni til vinstri. Þegar maðurinn var kominn framhjá kyrrstæða bílnum sá hann að öðrum bíl var ekið frá vinstri. Við það brá honum, beygði hann þá til vinstri og bremsaði snögglega um leið, til að forða árekstri. Þá steyptist hjólið fram fyrir sig og maðurinn lenti ofan á því. Í fallinu setti hann aðra höndina ósjálfrátt á hægri framhlið bílsins þannig að það teygðist á henni í óeðlilega stöðu, að sögn mannins.

Maðurinn leitaði til læknis og samkvæmt læknisvottorði, þar sem málsatvikum var lýst með sama hætti, náði maðurinn að forðast árekstur við bílinn en rak höndina útrétta í brettið á honum.

Sjúkratryggingar stóðu í andsvörum sínum fast á því að maðurinn ætti að leita til tryggingafélags eiganda bílsins en lýstu því þó yfir að ef félagið myndi hafna bótaskyldu yrði málið tekið fyrir að nýju, myndi maðurinn óska eftir því.

Verkir

Í niðurstöðu Úrskurðarnefndar velferðarmála koma fram nánari upplýsingar um þá áverka sem hjólreiðamaðurinn hlaut. Samkvæmt læknisvottorðinu, sem er dagsett daginn sem slysið varð, tognaði mikið á annarri öxlinni og lendhrygg þegar hann rak útrétta höndina í bílinn og var hann með verki í þeirri öxl og stífni og verki í lendhrygg. Hann gat ekki sett fullan þunga á annan fótinn og var með stóra skrámu á hnénu, á þeim fótlegg.

Nefndin segir að af gögnum málsins megi ráða að maðurinn hafi hlotið meiðsli þegar hann datt af hjóli eftir að hafa stöðvað snögglega til að forðast árekstur við bifreið. Ekki verði ráðið að orsök slyssins mætti því rekja til notkunar vélknúins ökutækis og ekkert liggi fyrir um í málinu að slysið væri bótaskylt samkvæmt lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis eða slysatryggingu ökumanns og eiganda. Leggja yrði  til grundvallar við úrlausn málsins þá lýsingu á atvikum sem fram kæmi í frumgögnum málsins, í þessu tilviki læknisvottorði.

Synjun Sjúkratrygginga á umsókn mannsins um bætur úr slysatryggingu almannatrygginga er því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka málið fyrir að nýju.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Eldri maður sagður hafa áreitt unglingsstúlku við Engihjalla – Reyndi að komast inn í bíl hennar

Eldri maður sagður hafa áreitt unglingsstúlku við Engihjalla – Reyndi að komast inn í bíl hennar
Fréttir
Í gær

Ruddist inn í íbúð og læsti sig inni á salerni

Ruddist inn í íbúð og læsti sig inni á salerni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reykjavíkurborg selur stórt hús í miðborginni en böggull fylgir skammrifi

Reykjavíkurborg selur stórt hús í miðborginni en böggull fylgir skammrifi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Starfsmaður RÚV sagður í leyfi eftir ásakanir frá þremur samstarfskonum

Starfsmaður RÚV sagður í leyfi eftir ásakanir frá þremur samstarfskonum