Íslenska karlalandsliðið átti fínan landsleikjaglugga gegn Úkraínu og Frakklandi á dögunum. Fyrrum landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson var heilt yfir hrifinn af því sem hann sá.
Um var að ræða leiki í undankeppni HM. Fyrri leikurinn tapaðist 3-5 gegn Úkraínu en glæsilegt 2-2 jafntefli við Frakka í þeim seinni heldur möguleikum Strákanna okkar um sæti í lokakeppninni vel á lífi.
„Mér fannst margt mjög jákvætt. Það er búið að tala um vandræði með varnarmenn og þá aðallega hafsenta í mörg ár, mér fannst Daníel Leó og Sverrir spila virkilega vel, sem við höfum þurft á að halda,“ sagði Freyr til að mynda um landsliðið.
„Liðið spilar mjög sókndjarfan fótbolta, við spilum eins og félagslið. Úrslitin á móti Frakklandi voru frábær en það er auðvitað hræðilegt að fá á sig fimm mörk á móti Úkraínu. Arnar hefur komið vel inn á það að þetta er aldrei 5-3 leikur. En við verðum að hætta að koma okkur í stöður, þessi transition-augnablik sem við erum að ströggla með.
Við spilum áhættusæknari fótbolta en nokkru sinni fyrr með okkar íslenska landslið. Ef Arnari tekst að fara með þessum drengjum, sem eru gríðarlega hæfileikaríkir, á stórmót með þessa hugmyndafræði þá er það stórkostlegt. Ég er alls ekki viss um að við getum það en ég verð mjög heillaður ef við náum því og við erum enn þá með lifandi möguleika,“ sagði Freyr einnig.
Ítarlegt viðtal við Frey er í spilaranum og hefst það þegar þátturinn er um það bil hálfnaður.