fbpx
Föstudagur 17.október 2025
Fréttir

Forsætisráðuneytið sagt ekki hafa brotið á Ólöfu í faðernismáli Ásthildar Lóu

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 17. október 2025 14:49

Ólöf Björnsdóttir og Ásthildur Lóa Þórsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að forsætisráðuneytið hafi ekki brotið persónuverndarlög eftir að Ólöf Björnsdóttir sneri sér til ráðuneytisins. Vildi Ólöf ræða við Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra en ætlun hennar að var upplýsa um að Ásthildur Lóa Þórsdóttir þáverandi mennta- og barnamálaráðherra hafi árið 1990 eignast barn með pilti sem þá var orðin 17 ára þegar hún var sjálf orðin 23 ára. Þegar ekki var orðið við beiðni Ólafar um fund með forsætisráðherra sneri hún sér til RÚV sem sagði fyrst frá málinu en Ásthildur Lóa sagði af sér ráðherraembættinu. Ólöf var ekki sátt við afgreiðslu forsætisráðuneytisins á málinu en það lét Ásthildi Lóu í té nafn hennar, heimilisfang og símanúmer og hafði ráðherrann þá beint samband við Ólöfu.

Ólöf er fyrrverandi tengdamóðir þessa barnsföður Ásthildur Lóa. Sagðist hún hafa viljað að Ásthildur viki úr embætti í ljósi þessa athæfis hennar. Vildi Ólöf meina að barnið hafi verið getið þegar pilturinn var 15 ára en hann var hins vegar orðinn 16 ára, sem þá var sjálfræðisaldurinn.

Eins og DV greindi frá þegar málið var í umræðunni þegar það kom upp í mars á þessu ári er ekki séð að Ásthildur Lóa hafi brotið nein lög sem giltu á þeim tíma sem á sambandi hennar við barnsföðurinn stóð.

Hvað snýr upp og hvað snýr niður í máli Ásthildar Lóu?

Talsverð upplýsingaóreiða ríkti um málið lengi vel. Ásthildur Lóa hlaut töluverðan stuðning en líka mikla gagnrýni.

Kvörtun

Í úrskurði Persónuverndar er engra nafna einstaklinga getið en það er augljóst við hverja er átt.

Ólöf lagði kvörtunina fram í apríl síðastliðnum og taldi að forsætisráðuneytið hefði í heimildarleysi og án hennar samþykkis miðlað persónuupplýsingum hennar til Ásthildar Lóu en þar hafi verið um að ræða nafn hennar, heimilisfang og símanúmer.

Fram kemur í úrskurðinum að Ólöf hafi sent erindi til forsætisráðuneytisins 9. mars 2025, í gegnum vefsíðu Stjórnarráðsins, þar sem hún hafi óskað eftir fundi með forsætisráðherra. Ólöf hafi gefið upp nafn og símanúmer sitt. Hún hafi ítrekaði beiðnina, með tölvupósti á almennt netfang ráðuneytisins 11. mars. Þar hafi komið fram að erindið varðaði þáverandi mennta- og barnamálaráðherra og að það væri í góðu lagi að viðkomandi ráðherra sæti fundinn líka ef forsætisráðherra óskaði þess. Í tölvupóstinum hafi komið fram nafn Ólafar, heimilisfang og símanúmer.

Í kjölfarið hafi aðstoðarmaður forsætisráðherra sent skjáskot af fundarbeiðni Ólafar í textaskilaboðum til aðstoðarmanns Ásthildar Lóu. Spurt hafi verið hvort ráðherrann þekkti til Ólafar eða hugsanlegs fundarefnis. Ólöf hafi átt í frekari tölvupóstsamskiptum við forsætisráðuneytið, þar sem hún meðal annars hafi reifaði erindið, en að lokum hafi ráðuneytið hafnað fundarbeiðninni 14. mars 2025. Í framhaldinu hafi Ásthildur Lóa haft samband við Ólöfu fyrst símleiðis en svo með viðkomu á heimili hennar. Hafi Ólöfu þá orðið þá ljóst að Ásthildur Lóa hefði fengið aðgang að áðurnefndum persónuupplýsingum hennar.

Trúnaður

Ólöf vildi meina í sinni kvörtun að með þessu hafi forsætisráðuneytið brotið persónuverndarlög og Evrópureglugerð um persónuvernd, sem tekin hefur verið upp hér á landi. Forsætisráðuneytið hafi heitið henni trúnaði þegar hún hefði haft hafði samband símleiðis til þess að fá upplýsingar um hvert hún gæti beint fundarbeiðni sinni. Hún hafi því litið á tölvupóstsamskipti sín við ráðuneytið sem trúnaðarmál. Taldi Ólöf að ef forsætisráðuneytið hafi talið nauðsynlegt að veita Ásthildi Lóu upplýsingar um erindi hennar hefði ráðuneytið getað upplýst um það án þess að miðla persónuupplýsingum hennar í leiðinni.

Í andsvörum forsætisráðuneytisins kom meðal annars fram að því hefði borið skylda til að svara erindi Ólafar og því orðið að leggja það í réttan farveg og svara því efnislega og með fullnægjandi hætti. Í ljósi þess að erindið hafi borið með sér að tengjast stjórnarmálefnum annars ráðherra hafi verið nauðsynlegt, með vísan til þeirrar rannsóknarskyldu sem á ráðuneytinu hvíli, að afla nauðsynlegra upplýsinga um efni málsins svo að unnt væri að leggja það í viðeigandi farveg. Því hafi verið nauðsynlegt að kanna hvort, og með hvaða hætti, efni erindisins heyrði undir mennta- og barnamálaráðherra. Slík könnun hafi verið liður í því að uppfylla leiðbeiningarskyldu sem hvíli á stjórnvöldum.

Hlutarins eðli

Vildi forsætisráðuneytið meina að það lægi í hlutarins eðli að  mennta- og barnamálaráðherra sé ekki boðaður á fund með forsætisráðherra og tilteknum borgara án þess að vera upplýstur um hverjir sitji fundinn. Nauðsynlegt hafi verið fyrir Ásthildi Lóu að fá vitneskju um hver það væri sem óskaði eftir fundi, í því skyni að taka afstöðu til þess hvort tilefni væri til þess að sitja fundinn. Ekkert í erindi Ólafar hafi gefið tilefni til að ætla að það varðaði annað en embættisverk ráðherrans og stjórnsýslu ráðuneytisins. Miðlun persónuupplýsinga hennar hafi því verið málefnaleg og ekki umfram það sem nauðsynlegt hafi verið til þess að geta lagt erindið í réttan farveg.

Viðurkenndi ráðuneytið þó að í ljósi þess sem kom síðar í ljós um tilefni fundarbeiðnar Ólafar hefði verið æskilegra að óska eftir frekari skýringum áður en Ásthildur Lóa var upplýst um erindið.

Vildi ráðuneytið ekki meina að því hefði borið skylda til að upplýsa Ólöfu um að Ásthildur Lóa hefði fengið aðgang að áðurnefndum persónuupplýsingum hennar. Hún hafi átt að gera sér grein fyrir að erindið yrði kynnt Ásthildi Lóu og ekkert í erindinu hafi gefið það til kynna að ekki mætti upplýsa viðkomandi ráðherra um fundarbeiðnina og þvert á móti tekið fram að heimilt væri að boða ráðherrann á fundinn.

Ekki brotlegt

Í niðurstöðu Persónuverndar segir að ekki verði annað ráðið en að forsætisráðuneytið hafi miðlað persónuupplýsingum Ólafar til Ásthildar Lóu í þeim tilgangi að undirbúa svar við fundarbeiðninni og meta réttan farveg málsins. Játa verði stjórnvöldum ákveðið svigrúm til að meta hvaða vinnsla persónuupplýsinga sé nauðsynleg til að framfylgja lögbundnum verkefnum sínum. Umrædd miðlun persónuupplýsinga Ólafa hafi verið nauðsynlega við beitingu þess opinbera valds sem ráðuneytið fari með og er þá vísað til málsatvika, leiðbeiningarskyldu stjórnvalda og þeirrar óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttar að svara skuli erindum borgara.

Orð standi gegn orði þegar kemur að fullyrðingum Ólafar um að henni hafi verið heitið trúnaði sem forsætisráðherra hefur þvertekið fyrir. Ólöfu hafi mátt vera ljóst að Ásthildur Lóa yrði upplýst um fundarbeiðnina og frá hverjum hún hefði borist enda tekið sérstaklega fram í erindinu að heimilt væri að boða ráðherrann á fundinn. Einnig sé um að ræða persónuupplýsingar sem Ólöf hafi sjálf gert opinberar með skráningu nafns, heimilis og símanúmers hjá upplýsingaveitum, sem séu aðgengilegar almenningi á netinu.

Niðurstaða Persónuverndar er því sú að með miðlun áðurnefndra persónuupplýsinga Ólafar til Ásthildar Lóu hafi forsætisráðuneytið ekki brotið gegn persónuverndarlögum eða Evrópureglugerð um persónuvermd.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Bubbi harðorður í garð ráðamanna: „Kannski er ég dramatískur en guð minn góður, þetta er satt“

Bubbi harðorður í garð ráðamanna: „Kannski er ég dramatískur en guð minn góður, þetta er satt“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Rússar ljóstruðu óvart upp hernaðarleyndarmáli

Rússar ljóstruðu óvart upp hernaðarleyndarmáli
Fréttir
Í gær

Mikil drykkja og ólæti á fótboltaleik MR og Verzló – „Við viljum ekki að þetta endurtaki sig“

Mikil drykkja og ólæti á fótboltaleik MR og Verzló – „Við viljum ekki að þetta endurtaki sig“
Fréttir
Í gær

Samkeppniseftirlitið bregst við hótunum banka um vaxtahækkanir – „Brot á samkeppnislögum geta varðað ströngum viðurlögum“

Samkeppniseftirlitið bregst við hótunum banka um vaxtahækkanir – „Brot á samkeppnislögum geta varðað ströngum viðurlögum“
Fréttir
Í gær

Dóttir Katrínar Tönju og Brooks fædd

Dóttir Katrínar Tönju og Brooks fædd
Fréttir
Í gær

Sverrir gerir stólpagrín að tillögu Höllu Hrundar – „Orðinn dauðþreyttur á því að þessi sjálfumglöðu gamalmenni fái að njóta lífsins í ellinni!“

Sverrir gerir stólpagrín að tillögu Höllu Hrundar – „Orðinn dauðþreyttur á því að þessi sjálfumglöðu gamalmenni fái að njóta lífsins í ellinni!“