fbpx
Þriðjudagur 21.október 2025
Fréttir

Bubbi harðorður í garð ráðamanna: „Kannski er ég dramatískur en guð minn góður, þetta er satt“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 17. október 2025 09:00

Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þingmenn og ráðherrar Íslands undanfarin ár og fram á daginn í dag, hvar er sómakennd ykkar, kjarkur og þor? Hvernig getið þið sagt að íslenskan sé ykkur kær en á sama tíma langalengi látið hana drabbast niður, tötrum klædda, í ræsið?“

Þetta segir tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Þar gagnrýnir hann stjórnvöld harðlega fyrir að hafa vanrækt íslenskuna. Varar hann við að íslenskan sé á leið í glötun nema gripið verði tafarlaust til aðgerða.

Bóklestur á ekki séns í símann

„Hvernig má það vera? Þið vissuð að hingað streymdu þúsundir manna sem vildu búa hér og þið gerðuð nánast ekkert til að sjá til þess að þau lærðu málið. Fyrir vikið er hér gríðarlegur fjöldi sem talar ekki tungumálið,“ segir Bubbi og bætir við að ekki þýði að bægja spurningunni frá sem fluga væri og benda bara á skólakerfið.

„Skólakerfið hefur verið allan tímann á ykkar snærum – eða kannski væri réttast að tala um snöru,“ segir hann.

Bubbi bendir á að bóklestur sé hruninn í samkeppni við símann – bóklestur sé undirstaða þess að við getum lært að nota tungumálið frá unga aldri.

„Þið hafið viljandi skorið niður allt í kringum bækur. Eini ráðherrann sem gerði eitthvað til að sporna við var Lilja Alfreðsdóttir. Í löndunum í kringum okkur eru peningar lagðir fram til að kaupa bækur til að vernda tungumálið, hafa hlaðborð af bókum til boða í skólum, styrkja bókasöfn, auka kennslu innflytjenda, fá þau eins og hratt og auðið er til að læra málið.“

Öll skilti í miðbænum á ensku

Bubbi segir síðan að í miðbænum séu nánast öll skilti á ensku, allir matsölustaðir séu enskumælandi, matseðlar á ensku og nánast hver einasti matsölustaður beri enskt heiti.

„Við erum búin að tala um þetta í mörg ár. Hvað hafið þið gert? Og ef þið hafið gert eitthvað var það rangt.“

Bubbi segir að börn séu hætt að lesa, hætt að skilja mál eldra fólks og jafnvel foreldra sinna.

„Þau þekkja nánast enga íslenska rithöfunda. Ég á barn á grunnskólaaldri og í menntaskóla og ég spyr: þekkið þið þennan eða hinn? Nei er svarið. Ábyrgðin er líka mín sem foreldris en þegar heilt land með sínu kerfi getur ekki staðið vaktina að passa tungumál sitt, sem er að deyja innan frá, þá er eitthvað hræðilega mikið að.“

„Guð minn góður, þetta er satt“

Bubbi segir að lokum að nóg sé til af peningum og vilja til að gera ýmislegt.

„En í stað þess að passa upp á sjálft fjöreggið þá sitjið þið á heitum þjóum í bólstruðum stólum og gerið lítið til að bjarga því. Þið standið í pontu og það er þráttað um hitt og þetta, en í staðinn fyrir að stjórnarandstaðan og ríkisstjórnin setjist niður og segi björgum fjöregginu, þá setja menn orkuna í að koma höggi hver á annan. Kannski er ég dramatískur en guð minn góður, þetta er satt.“

Bubbi endar grein sína á þessum orðum:

„Ég veit líka að það er margt gott og það er vel, en það er of stór vá fyrir dyrum, tungumálið okkar er fast í kviksyndi aðgerðaleysis. En ef þing og þjóð leggjast á eitt getum við ennþá snúið þessari hrollvekjandi þróun við.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Fasteignasali segir markaðinn búinn að vera í frosti – „Það er enginn að mæta á opin hús“

Fasteignasali segir markaðinn búinn að vera í frosti – „Það er enginn að mæta á opin hús“
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Anna lofar Felix og Klöru – Rifjar upp kynni við ónafngreindan tollvörð sem hún segir fyrirmynd Felix

Anna lofar Felix og Klöru – Rifjar upp kynni við ónafngreindan tollvörð sem hún segir fyrirmynd Felix
Fréttir
Í gær

Innviðaráðherra fellur frá þrepaskiptum réttindum til dráttarvélaaksturs

Innviðaráðherra fellur frá þrepaskiptum réttindum til dráttarvélaaksturs
Fréttir
Í gær

„Það er verið að taka flugrekstur og ferðaþjónustu á Íslandi og bara Íslendinga í gíslingu“

„Það er verið að taka flugrekstur og ferðaþjónustu á Íslandi og bara Íslendinga í gíslingu“