fbpx
Föstudagur 17.október 2025
Fréttir

Þjóðkirkjan segir svartnætti framundan – Uppsagnir og aukin hætta á að kirkjur grotni niður

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 16. október 2025 19:00

Höfuðstöðvar Þjóðkirkjunnar eru í Borgartúni 26 í Reykjavík. Mynd/Skjáskot-Já.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þungt hljóð er í Þjóðkirjunni vegna fyrirhugaðrar lækkunar á sóknargjöldum. Fram kemur í minnisblaði Biskupsstofu sem sent hefur verið Alþingi að nái þessi lækkun fram að ganga blasi ekki annað við en að Þjóðkirkjan þurfi að segja upp starfsfólki og að viðhald á kirkjum, sem séu margar hverjar friðaðar, verði enn erfiðara en þú þegar sé viðhaldsþörfin mikil.

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á ýmsum lögum vegna fjárlaga næsta árs. Samkvæmt frumvarpinu verða sóknargjöld sem ríkið greiðir til Þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga, á hvern skráðan meðlim 16 ára eða eldri, lækkuð úr 1.221 krónu á mánuði í 1.133 krónur á mánuði. Segir í greinargerð frumvarpsins að heildarlækkun sóknargjalda muni nema 187 milljónum króna frá fjárlögum þessa árs.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Þjóðkirkjan mótmælir skerðingu sóknargjalda.

Þjóðkirkjan búin að fá nóg og vill láta hækka sóknargjöldin um 60 prósent – „Þessu þarf að linna“

Í minnisblaði Þjóðkirkjunnar segir meðal annars að sóknargjöldin renni óskipt til einstakra sókna og séu um 75 prósent tekna þeirra en alls séu sóknirnar 255. Um 15 prósent tekna sókna fari í laun og annan rekstur, 506 milljónir króna, 39 prósent í tónlistar- og félagsstarf, 1,3 milljarður, en hæsta hlutfallið 46 prósent, 1,6 milljarður, fari í viðhald kirkjubygginga. Það er ekki tekið fram við hvaða tímabil þessar tölur eiga en líklega eiga þær við um yfirstandandi ár.

Skerðing

Í minnisblaðinu segir að allt frá 2008 hafi upphæð sóknargjalda verið ákveðin tímabundið og skerðing þeirra síðan þá nemi 2,8 milljörðum króna á verðlagi þessa árs. Afleiðingarnar séu meðal annars þær að sóknir haldi að sér höndum og forðist langtíma skuldbindingar meðal annars í ráðningarmálum. Skerðingin bitni mest á tónlistar- og félagsstarfi og viðhaldi. Viðhaldsskuld sé orðin mikil, hversu mikil kemur ekki fram, en sóknirnar sjálfar sjái um allt viðhald.

Fram kemur að kirkjur, kapellur og önnur bænahús Þjóðkirkjunnar séu 361 talsins en af þeim séu 210 friðaðar. Fasteignamat þessara bygginga sé 56 milljarðar króna og árleg viðhaldsþörf sé miðuð við fjögur prósent af því, um 2,2 milljarðar króna.

Það kemur ekki fram hvort miðað sé við fasteignamat þessa árs en tekið fram að um 1,6 milljörðum hafi verið varið til viðhalds árið 2023. Tekið er einnig fram að stórum hluta viðhaldsins sé sinnt af sjálfboðaliðum.

Tónlistin

Þegar kemur að áhrifum skerðingar sóknargjalda á tónlistar- og félagsstarf Þjóðkirkjunnar þá er fullyrt í minnisblaðinu að Þjóðkirkjan sé stærsti einstaki vinnuveitandi tónlistarfólks á Íslandi og langstærsti hljóðfæraeigandi landsins. Sóknargjöld standi alfarið undir launum tónlistarfólks og hljóðfærakaupum. Um 2.000 einstaklingar syngi í kirkjukórum landsins. Aðrir 1.500 kórsöngvarar æfi í kirkjum landsins. Þúsundir sæki félagsstarf í kirkjum landsins í hverri viku. Laun organista, kórstjóra, æskulýðsstarfsfólks, djákna og kirkjuvarða séu greidd af sóknum.

Í minnisblaðinu eru tekin nokkur dæmi um tekjuskerðingu einstakra söfnuða verði frumvarpið samþykkt óbreytt. Tekjur Neskirkju muni minnka um 7 milljónir króna, Grafarvogskirkju um 9,5 milljónir, Akureyrarkirkju  um 7,6 milljónir, Lindakirkju um 8,7 milljónir,  Lágafellskirkju um 6,95 milljónir og. tekjur Ísafjarðarkirkju muni skerðast um 1.55 milljónir króna.

Segir enn fremur að uppsagnir yrðu þar með óumflýjanlegar. Hlutfall vinnuframlags launaðra starfsmanna á móti sjálfboðaliðum í sóknum landsins sé að minnsta kosti 1:8. Þegar starfsfólki sé sagt upp hverfi það sem nemi margföldu vinnuframlagi þess eina starfsmanns úr framboði á kirkjulegu félagsstarfi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Skagfirðingar uggandi og segja heilbrigðiseftirlitin missa 70 prósent verkefna sinna – Hafi verið lofað að fækka ekki störfum á landsbyggðinni

Skagfirðingar uggandi og segja heilbrigðiseftirlitin missa 70 prósent verkefna sinna – Hafi verið lofað að fækka ekki störfum á landsbyggðinni
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Enn þúsundir bíla með hættulega loftpúða á íslenskum götum

Enn þúsundir bíla með hættulega loftpúða á íslenskum götum
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Dóttir Katrínar Tönju og Brooks fædd

Dóttir Katrínar Tönju og Brooks fædd
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Sverrir gerir stólpagrín að tillögu Höllu Hrundar – „Orðinn dauðþreyttur á því að þessi sjálfumglöðu gamalmenni fái að njóta lífsins í ellinni!“

Sverrir gerir stólpagrín að tillögu Höllu Hrundar – „Orðinn dauðþreyttur á því að þessi sjálfumglöðu gamalmenni fái að njóta lífsins í ellinni!“