Í dag hættir Microsoft formlega að styðja Windows 10 stýrikerfið. Mælingar í september 2025 sýna fram á að allt að 40% Windows tölva á heimsvísu eru enn að keyra Windows 10. Mælingar á Íslandi benda til að allt að 37% tölva séu með Windows 10 en var um 47% í júní þannig að vel hefur gengið að fækka þeim að sögn Arnars S. Gunnarssonar, öryggisstjóra OK.
Mælingar sýna jafnframt fram á að allt að 150 milljón fyrirtækjatölva séu að keyra Windows 10 og verða þar með sérstakt skotmark hakkara þar sem þær verða með tímanum viðkvæmari fyrir netárásum.
,,Það sem þetta þýðir er að Microsoft er hætt að veita Windows 10 stuðning og gefur ekki lengur út uppfærslur. Windows 10 er orðið 10 ára gamalt stýrikerfi og bara í apríl á þessu ári uppgötvuðust 17 öryggisveikleikar í stýrikerfinu en það eru einmitt þeir sem verður hætt að lagfæra. Slíkir veikleikar geta leyft hökkurum að komast yfir gögn, lykilorð eða jafnvel stjórn á tölvum. Tölvurnar sjálfar halda áfram að virka en frá og með morgundeginum munu ekki berast fleiri uppfærslur frá Microsoft,“ segir Arnar í tilkynningu.
Arnar segir að áhættan verði lítil fyrstu dagana en eykst eftir því sem líður á. ,,Samkvæmt mælingum er áætlað 150 milljón tæki eingöngu hjá fyrirtækjum. Þeir sem stunda innbrot í tölvukerfi leita alltaf veikustu hlekkjanna og þessi fjöldi af úreltum kerfum verður aðlaðandi skotmark fyrir árásir.“
Arnar bendir á að með tímanum mun annar hugbúnaður líka hætta að styðja Windows 10. ,,Það getur gerst hraðar en margir gera sér grein fyrir og algengt verður að forrit hætti að virka eftir uppfærslur. Fyrirtæki sem treysta á tækniaðstoð frá Microsoft gætu einnig lent í vandræðum, því þeir samningar falla líka út þegar stuðningi lýkur,“ segir hann.
Arnar segir að flestar nýrri tölvur sé hægt að uppfæra beint í Windows 11. ,,Þetta er ráðlegasta leiðin og tryggir áframhaldandi öryggi og samhæfni. Þar sem tæki styðja ekki uppfærslu í Windows 11 er nauðsynlegt að fara í útskipti á vélbúnaði og við mælum með því.“
Microsoft hefur ákveðið að gefa fyrsta árið frítt af svokölluðum ESU-samning (Extended Security Updates) sem mun tryggja áframhaldandi öryggisuppfærslur en því fylgja allnokkrar kvaðir og takmarkanir að sögn Arnars. ,,Þessar kvaðir eru til dæmis að þú verður að nota svokallaðan skýjanotanda frá Microsoft á tölvunni þannig að það mun ekki henta mörgum fyrirtækjum, OK ráðleggur sínum viðskiptavinum að uppfæra í Windows 11 þar sem það er mögulegt og að endurnýja tölvur þar sem það á ekki við. ESU-samningar ættu aðeins að vera notaðir sem bráðabirgðalausn, ekki til langs tíma.“