Bresk kona sem sakfelld var fyrir stórþjófnað gegn aldraðri konu er sögð dveljast á Tenerife. Canarian Weekly greinir frá þessu.
Hin 62 ára gamla Pamela Gwinnett var dæmd fyrir dómstóli í Preston fyrr á þessu ári í sex ára fangelsi fyrir að svíkja 300.000 pund út úr hinni 89 ára gömlu Joan Green, sem lést árið 2022. Gwinnett var ekki viðstödd réttarhöldin þar sem hún hafði flúið til Kanaríeyja. Handtökuskipun á hana er enn í gildi en bresk yfirvöld leita nú liðsinnis hjá spænskum yfirvöldum varðandi handtöku og framsal svikakvendisins.
Íbúar í bænum Los Christanos á Tenerife hafa greint frá því í Facebook-hópum að þeir hafi hvað eftir annað séð til konu sem lítur nákvæmlega eins út og Gwinnett. Sumir netverjar ganga svo langt að segjast vita heimilisfangið þar sem hún heldur til. Gwinnett er ennfremur sögð hafa keypt tvær eignir í Los Christanos.
Upphæðin sem Gwinnett stal af gömlu konunni jafngildir vel yfir 40 milljónum íslenskra króna. Hún starfaði við umönnun gömlu konunnar sem hún féfletti og er sögð hafa einangrað konuna og skipt um læsingar að húsi hennar, sem og um símanúmer hennar. Hún er síðan sögð hafa millifært um 300.000 pund af reikningi gömlu konunnar yfir á eigin reikninga, en fjármunina notaði hún meðal annars til fegrunaraðgerða og fasteignakaupa.
Sjá nánar hér.