fbpx
Fimmtudagur 09.október 2025
Fókus

Viktoría þurfti að horfast í augu við áföllin til að byggja sig upp á ný – „Það tók mig mörg ár að muna hvað barnapían gerði mér“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 9. október 2025 11:30

Viktoría Rós Jóhannsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Markaðsstjórinn og áhrifavaldurinn Viktoría Rós Jóhannsdóttir opnar sig í viðtalsþættinum Fókus og segir frá átakanlegri lífsreynslu sem mótaði hana. Þrátt fyrir venjulega æsku varð hún fyrir kynferðisofbeldi sem barn af hendi barnapíu, áfalli sem hún vann ekki úr fyrr en mörgum árum síðar. Í kjölfarið fylgdu erfið sambönd, áfengisvandamál og flókin fjölskyldumál varðandi faðerni sonar hennar, en í dag hefur Viktoría snúið lífi sínu við með sjálfsvinnu og stuðningi AA. Hún ræðir fortíðina, baráttuna við fíknina og hvernig hún byggði sig upp á ný í einlægu og áhrifaríku viðtali.

Hlustaðu á þáttinn á Spotify. Einnig er hægt að lesa textabrot upp úr þættinum hér að neðan.

Viktoría er skilnaðarbarn og alin upp á Stokkseyri. Hún segir að æskan hafi að mestu leyti verið venjuleg og heimilislífið líka. En svo lenti hún í áfalli sem markaði djúp spor.

„Ég var beitt kynferðisofbeldi af barnapíu sem var að passa mig þegar ég var yngri,“ segir Viktoría.

Hún segir að það sé stutt síðan, um tvö ár, sem hún vann úr þessari reynslu og áttaði sig á alvarleika brotsins. Þá var hún byrjuð í mikilli sjálfsvinnu og hjá sálfræðingi.

Eftir að barnapían braut á Viktoríu byrjuðu ýmis hegðunarvandamál að brjótast fram hjá henni. Hún segir að það hafi verið ótrúlega erfitt að samþykkja að þetta hafi gerst en hún var í mikilli afneitun í mörg ár.

Viktoría Rós þegar hún var barn.

Tengdamamman sannfærði hana um að fara

Viktoría byrjaði að drekka fyrsta árið í menntaskóla. „Ég var í mjög óheilbrigðu sambandi á þeim tíma, bara á báða bóga. Bara rosalega mikið andlegt og líkamlegt ofbeldi,“ segir Viktoría.

„Svo varð mér aftur nauðgað nokkrum árum seinna. Ég kærði til lögreglu en því var vísað frá, þrátt fyrir að vera með sönnunargögn og fleira. Ég fór í kjölfarið í ofbeldissamband og var föst með honum í smá tíma. Ég reyndar náði að fara úr því sambandi frekar fljótt en ég var mjög reglulega alltaf að fara til baka.“

Það er mjög algengt að þolendur heimilisofbeldis fari aftur til geranda síns og að það taki þolendur að meðaltali sjö skipti að komast úr aðstæðunum.

Sjá einnig: Hvers vegna fara konur aftur til ofbeldismanna sinna?

„Þetta er svo slæmt, því ég trúði því að ég ætti þetta skilið. Að þetta væri ástin sem ég verðskuldaði. Það var ekki fyrr en tengdamamma mín á þeim tíma, sem mér þykir ótrúlega vænt um ennþá í dag, sannfærði mig að fara frá honum,“ segir Viktoría.

Áfengisneyslan jókst í kjölfarið og drakk hún mikið og stíft. „Ég leitaði mikið í toxic fólk, aðallega toxic stráka. Og síðan varð ég ólétt,“ segir Viktoría.

Viktoría og sonur hennar, Óliver Hrafn.

Neitaði að taka faðernispróf

Viktoría fór í snemmsónar gengin um fjórar til fimm vikur á leið, árið 2020.

„Á þeim tíma var ég eiginlega nýhætt með fyrrverandi og var svona búin að vera með öðrum. Var síðan aftur að hitta fyrrverandi. Maður var bara að lifa lífinu,“ segir hún.

Við tók langt og strangt tímabil þar sem faðerni drengsins var óljóst. „Ég þurfti að fara í gegnum faðernispróf því ég var ekki viss hver pabbinn var,“ segir hún.

„Fyrrverandi kærasti minn var giftur, sem ég vissi ekki. Ég frétti það þegar ég var ólétt að hann væri ennþá með konunni sinni. Ég vissi að hann væri að skilja, það var bara svolítið langt síðan þau slitu sambúð. En hann var þá byrjaður aftur með henni og ég náttúrulega hafði samband við hana og hún upplýsti mig um að þau voru samt ennþá að hittast.“

Sá maður samþykkti strax að gangast undir faðernispróf. En hinn maðurinn, sem endaði með að vera faðir barnsins, neitaði og þurfti Viktoría að stefna honum til að koma honum í faðernispróf. Hún segir að þó hann sé líffræðilegur faðir drengsins þá sé hann enginn pabbi og hafi aldrei viljað vera hluti af lífi drengsins, Ólivers Hrafns.

Mæðginin.

Þegar Óliver Hrafn var tveggja vikna kom hann loksins að hitta drenginn og samþykkti að taka prófið. Það kom ekki svar fyrr en rétt fyrir eins árs afmæli Ólivers Hrafns, þá kom staðfestingin. Viktoría segir að það hafi verið mikill léttir að fá þetta á hreint þó biðin hafi verið erfið og löng.

„Ég gaf þeim báðum valkost: Ætlarðu að vera með eða ekki? Barnsfaðir minn valdi ekki, og ég virti það bara. Ég vildi ekki þvinga neinn til að vera í lífi barnsins míns og mér finnst það ósanngjarnt að gera það þannig, af því að þá kemur ennþá meiri svona höfnunartilfinning þegar þú finnur að pabbi þinn vill ekki einu sinni vera með þig. Þannig að ég tók bara mjög harða ákvörðun. Hann hefur haft samband við mig eftir að Óliver fæddist. Ekki til þess að hitta hann, heldur til þess að hætta að borga meðlag.“

Viktoría gerði honum ljóst að þau séu bæði fullorðið fólk sem stundaði óvarið kynlíf og þurfi bæði að axla ábyrgð. Hann hafi kosið að vera ekki hluti af lífi drengsins en þurfi samt að taka þátt fjárhagslega.

„Hann er líka bara að borga leikskólagjaldið. Hann er eiginlega ekki að borga neitt,“ segir hún.

Viktoría Rós er á góðum stað í dag og líður vel.

Kjaftasögur í smábæ

Þegar Viktoría var ólétt flutti hún til móður sinnar á Stokkseyri. Það var ekki auðvelt að flytja í lítið bæjarfélag á þessum tíma en kjaftasögur fóru á kreik.

„Það var ein saga um að það væru bara nokkrir sem kæmu til greina sem faðir barnsins. Og ég var bara druslan á Stokkseyri,“ segir Viktoría og viðurkennir að þetta hafi verið erfitt á þeim tíma, sérstaklega þar sem andlega hliðin var slæm og sjálfsálitið lélegt.“

Viktoría byrjaði aftur að drekka þegar hún flutti í bæinn og fékk pössun um helgar til að fara út að djamma. Þetta tímabil var mjög erfitt, verandi einstætt foreldri með lítið bakland og stuðning.

„Þetta var ógeðslega erfitt,“ segir hún. „Ég brann út og fór í endurhæfingu og þar byrjaði ég að hitta sálfræðing.“ Þetta var árið 2022.

Viktoría var samt ekki tilbúin að samþykkja að hún væri alkóhólisti. „En þarna byrjaði boltinn svolítið að rúlla að betra lífi og að gera betur. Ég var byrjuð að taka mig í sátt að þetta væri staðan og ég þyrfti að vinna í þessum áföllum, ekki bara hlaupa í burtu í áfengi til að láta mér líða vel. Af því að við vitum það, áfengi er ekki að fara að gera neitt gott fyrir þig, það er bara þannig. Sérstaklega þegar þú ert alkóhólisti.“

Þann 15. mars 2024 fór Viktoría í AA-samtökin. „Það var síðasta djammið mitt og ætla að reyna að halda því þannig til framtíðar,“ segir hún.

Eftir þetta byrjaði enn meiri sjálfsvinna og er Viktoría í dag á frábærum stað, andlega og líkamlega. Hún ræðir nánar um sjálfsvinnuna, hvað hún gerði til að koma sér á þann stað sem hún er í dag, áföllin, starfið í Sassy og TikTok-lífið, morðhótun sem hún fékk heim til sín og fleira í þættinum sem má hlusta á í heild sinni hér.

Fylgdu Viktoríu á TikTok og Instagram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Leikkonan brotnaði niður í dómsal – „Hann komst oft helvíti nálægt því að drepa mig“

Leikkonan brotnaði niður í dómsal – „Hann komst oft helvíti nálægt því að drepa mig“
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Mörgum finnst að ég geti alveg gefið þeim peninga eða að það þurfi ekki að borga til baka. Þannig hef ég tapað vinum.“

„Mörgum finnst að ég geti alveg gefið þeim peninga eða að það þurfi ekki að borga til baka. Þannig hef ég tapað vinum.“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Tímavélin: Þegar Íslendingum fannst sjálfsagt að henda rusli úr bílum beint á götuna

Tímavélin: Þegar Íslendingum fannst sjálfsagt að henda rusli úr bílum beint á götuna
Fókus
Fyrir 5 dögum

Þegar mamma mín dó – Einlæg og persónuleg frásögn af sorg, söknuði og sektarkennd

Þegar mamma mín dó – Einlæg og persónuleg frásögn af sorg, söknuði og sektarkennd