Margir hafa eflaust heyrt nefnt touretteheilkennið. Það er röskun í taugakerfinu sem tekur sig yfirleitt upp hjá fólki þegar það er börn eða unglingar. Tourette getur haft mismikil áhrif á fólk en það lýsir sér einna helst í ósjálfráðum hreyfingum eða taugakippum og að fólk gefi frá sér ósjálfráð hljóð. Tourette getur lagst mjög þungt á fólk og ung bresk kona var í þeim hópi þar til hún fann vettvang þar sem hún gat losnað undan einkennunum, þó vissulega aðeins tímabundið í senn, óperusöng.
Megan Hastings er tvítug en þegar hún var 10 ára fór hún fyrst að finna fyrir einkennum, kækjum en taldi að skýringin væri kvíði.
Þegar hún var 16 ára, í miðjum Covid 19 heimsfaraldrinum snarversnuðu einkennin og hún fór að slá sjálfa sig og segja dónaleg orð við foreldra sína og þá auðvitað gegn eigin vilja.
Hastings tjáir breska ríkisútvarpinu, BBC, að þegar hún var í kjölfarið greind með Tourette hafi hún aldrei heyrt um það áður. Hún segir alla tíð síðan hafa ýmist verið misskilin eða hreinlega mátt þola háðsglósur.
Þegar hún uppgötvaði óperusöng breyttist hins vegar allt. Hastings segir að þegar hún sé að syngja sé hún ekki með neina taugakippi og sé á meðan frjáls undan Tourette. Söngurinn hjálpi henni líka að hafa betri stjórn á heilkenninu þegar hún er ekki að syngja.
Hastings er að læra óperusöng við Royal Welsh College of Music and Drama í Cardiff í Wales.
Hastings fékk formlega greiningu á Tourette árið 2022 og var þá einnig greind með einhverfu en hún segist hafa fengið litla aðstoð í kjölfarið og þurft sjálf að lesa sér til um þessi fyrirbrigði. Hún hafði aldrei hitt manneskju með Tourette og skammaðist sín og reyndi sitt besta til að fela ástandið.
Hún segir að þegar hún syngi sé hún hins vegar frjáls, finni ekki til og halda megi þá beinlínis að hún sé alls ekki með Tourette. Minnir hún á að Tourette fylgi töluverður sársauki enda séu vöðvarnir sem hreyfist við kækina og taugakippina á stöðugri hreyfingu og séu í mun meiri notkun en eðlilegt sé.
Meðal hinna ósjálfráðu hreyfinga sem fylgt hafa Tourette hjá Hastings er að hún kýlir sjálfa sig í lærið sem hún segir að sé ekkert sérstaklega gott að lifa með.
Hún segir að fyrst þegar hún greindist hafi á samfélagsmiðlum verið mikið um að gert væri grín að Tourette og einkennum þess en fólk hafi ekki látið það nægja heldur oft hæðst að henni augliti til auglitis. Hastings segir að það hafi reynst henni afar erfitt að sætta sig við orðinn hlut og að öðlast nægilega mikið sjálfstraust til að takast á við stríðnina.