fbpx
Fimmtudagur 02.október 2025
Fréttir

Íbúar í miðbænum kæra framkvæmd sem þeir segja óframkvæmanlega – Efasemdir hjá borginni hurfu

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 2. október 2025 12:30

Húsin til vinstri og hægri tilheyra bæði Þingholtsstræti 21. Til stendur að byggja ofan á húsið hægra meginn og einnig á að byggja nýtt hús á bak við húsin tvö. Mynd: Skjáskot/Google Maps.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tólf manna hópur húseigenda og íbúa í miðbæ Reykjavíkur hefur kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nokkuð umfangsmiklar framkvæmdir við Þingholtsstræti 21 sem byggingarfulltrúi borgarinnar hefur veitt leyfi fyrir. Segir hópurinn að einn hluti fyrirhugaðra framkvæmda sé óframkvæmanlegur og að annar hluti muni valda varanlegum skemmdum á trjágróðri á lóðinni. Skipulagsfulltrúi borgarinnar og Minjastofnun veittu upphaflega neikvæða umsögn um framkvæmdirnar en veittu síðan nýjar og jákvæðari umsagnir en lítill sem enginn rökstuðningur var veittur fyrir sinnaskiptunum.

Framkvæmdirnar snúast í stuttu máli í fyrsta lagi um að byggja ofan á byggingu á lóðinni sem upprunalega var byggð sem bílskúr, en þar sem í dag eru íbúðir, en við hliðina er svo stærra hús. Í öðru lagi verður byggt nýtt einbýlishús á lóðinni til viðbótar við þær tvær byggingar sem fyrir eru.

Íbúarnir sem lögðu kæruna fram eru íbúar í nærliggjandi húsum. Þeir segja í kærunni að fyrrnefndi hluti framkvæmdanna sé hreinlega óframkvæmanlegur. Í þessu nýja rými á að innrétta þrjár íbúðir en nýja einbýlishúsið á að vera á tveimur hæðum. Íbúarnir segja að almenna reglan sé að byggingarleyfi eigi að byggja á deiliskipulagi en ekkert slíkt sé til staðar fyrir þetta hverfi.

80 ofan á 60

Þegar kemur að fyrrnefnda hluta framkvæmdanna, að byggja ofan á skúrinn, fullyrða íbúarnir að til standi að reisa 80 fermetra hæð ofan á byggingu sem sé 60 fermetrar og það sé óframkvæmanlegt. Byggingin hafi upphaflega verið reist sem geymslu- eða bílskúr og sé orðin 105 ára og því friðuð. Í grenndarkynningu hafi verið greint frá því að byggingin væri 82 fermetrar en samkvæmt raunmálum sé hún 62,1 fermetrar. Telja megi líklegt að hún hvíli ekki á traustum grunni, hugsanlega hafi botnplatan verið steypt beint á jörðina. Vegna nýrrar byggingar myndi því þurfa að grafa grunn og líklega að brjóta klöpp. Útveggur sem snúi að Ingólfsstræti yrði færður innar á lóðina og líklegt að ytri útveggur sem snúi að Þingholtsstræti færi sömu leið. Víðfeðmt rótarkerfi aspar á næstu lóð muni tæplega þola það jarðrask. Fullyrt er enn fremur að áður hafi verið farið fram á niðurrif byggingarinnar og það sé í raun verið að framkvæma það.

Í fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa þar sem veitt var samþykki kemur hins vegar fram að byggingin sé 72 fermetrar.

Íbúarnir benda einnig á fleiri atriði til að rökstyðja kæru sína. Þeir segja að mikið vafamál sé að trén á lóðinni að Þingholtsstræti 21 og nærliggjandi lóðum að Ingólfsstræti 18 og 20 myndu lifa þetta af. Gróðurfarsúttekt skipulagsfulltrúa sýni að gildi og gæði trjáa á lóðunum væru mikil. Þau væru mikilvægur hluti af götumyndum hverfisins og byggðamynstri sem njóti verndar samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Trén gegni mikilvægu hlutverki í borgarumhverfinu, t.d. í líffræðilegum fjölbreytileika, loftgæðum, dragi úr vindi og bindi koltvísýring. Hætta væri á að trén eyðileggðust yrði farið að hreyfa við rótarkerfi þeirra. Trén séu heilbrigð og sterk og líklega um aldargömul. Búast mætti við að þau gætu lifað hundrað ár í viðbót.

Þar að auki er bent á í kærunni að birtuskilyrði í nærliggjandi húsum muni versna og útlit fyrirhugaðra bygginga sé í miklu ósamræmi við götumyndina og það hafi skipulagsfulltrúi tekið undir í fyrri umsögn sinni. Íbúarnir taka ekki undir með niðurstöðu umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar um að fyrirhugað byggingarmagn væri hóflegt þar sem þá yrðu komin á lóðina þrjú íbúðarhús með allt að níu útleiguíbúðum. Íbúarnir óttast mjög að verðmat eigna þeirra muni lækka. Minna þeir á að sum húsin hafi verið í eigu sömu fjölskyldu í meira en hundrað ár. Þeir vilja einnig meina að verði framkvæmdirnar að veruleika muni það hafa í för með sér aukin þrengsli og aukna umferð á svæðinu.

Fyrst neikvætt svo jákvætt

Umhverfis og skipulagsráð borgarinnar veitti sitt samþykki fyrir framkvæmdunum í apríl síðastliðnum en með fundargerð þess fundar ráðsins er birt ítarleg kynning á framvkæmdunum. Með henni fylgja umsagnir Minjastofnunar og skipulagsfulltrúa. Samkvæmt umsögn skipulagsfulltrúa gerði Minjastofnun ekki athugasemd við áformin en byggingin sem byggja á ofan á er eins og áður segir friðuð vegna aldurs. Framkvæmdirnar falli vel að götumyndinni, nýtingarhlutfall sé hóflegt, áhrifin á nærumhverfið lítil en passa þurfi upp á trén á lóðinni.

Þessi umsögn er frá því í apríl 2025 en í henni er ekkert minnst á fyrri umsögn skipulagsfulltrúa um framkvæmdirnar frá árinu 2023. Sú umsögn var frekar neikvæð. Þar kemur fram að ekki sé hægt að fallast á að byggja einbýlishúsið, þriðja húsið á lóðinni. Lítið verði þá eftir af lóðinni auk þess sem hætta sé á á töluverðum áhrifum á aðliggjandi byggð t.d. á birtuskilyrði. Trén á lóðinni séu einnig mikilvægur hluti götumyndarinnar og veruleg hætta sé á að þau skemmist. Draga þurfi verulega úr byggingarmagni. Hins vegar var í umsögninni ekki gerðar skipulagslegar athugasemdir við hinn hluta framkvæmdanna að byggja ofan á skúrinn en þó gerðar athugasemdir við að tölur um stærðir í gögnum framkvæmdaraðila væru ekki réttar. Í seinni umsögninni kom fram að nýtingarhlutfall hefði verið leiðrétt en enn væru vitlausar stærðir á aðaluppdráttum.

Íbúarnir furða sig á í kærunni að þessi sinnaskipti skipulagsfulltrúa hafi ekki verið rökstudd. Þeir minna einnig á að í fyrstu umsögn Minjastofnunar var ekki fallist á framkvæmdirnar og vísað til þess að útlit stækkunarinnar á skúrnum samræmdist ekki götumyndinni. Sú umsögn var veitt í ágúst 2024 en í desember 2024 veitti stofnunin hins vegar jákvæða umsögn og sagði að tekið hefði verið tillit til athugasemda stofnunarinnar um útlitið en í umsögninni er ekki tekið fram á hvaða hátt það var gert.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Danir ætla að kjósa með því að Ísrael fái að taka þátt í Eurovision – Keppnin eigi að vera ópólitísk

Danir ætla að kjósa með því að Ísrael fái að taka þátt í Eurovision – Keppnin eigi að vera ópólitísk
Fréttir
Í gær

Leynd ríkir um fjármögnun maltneska dótturfélags Play – „You can take that to the bank“

Leynd ríkir um fjármögnun maltneska dótturfélags Play – „You can take that to the bank“
Fréttir
Í gær

Andri Snær svarar Stefáni Einari fullum hálsi: „Stefán Einar hefði mátt gefa sér betri tíma til að kynna sér málefnið“

Andri Snær svarar Stefáni Einari fullum hálsi: „Stefán Einar hefði mátt gefa sér betri tíma til að kynna sér málefnið“
Fréttir
Í gær

Ertu ekki búin að fá barnabætur í dag? – Þetta er ástæðan

Ertu ekki búin að fá barnabætur í dag? – Þetta er ástæðan