Alls hafa þrettán fangar nú verið teknir af lífi í Flórída og hafa þeir aldrei verið fleiri. Tvær aftökur til viðbótar eru fyrirhugaðar síðar í þessum mánuði.
Í frétt AP kemur fram að framkvæmdin hafi hafist á slaginu 18:00 þegar gluggi inn í áhorfendasal var opnaður. Jones var spurður að því hvort hann vildi segja eitthvað að lokum en hann neitaði því. Hann var úrskurðaður látinn klukkan 18:13.
Jones þessi var nýbyrjaður að vinna hjá fyrirtæki hjónanna Matildu og Jacobs Nestor í Miami-Dade sýslu þegar hann réðst á þau í desember 1990. Samkvæmt dómsskjölum stakk hann Matildu í hálsinn og eiginmann hennar í brjóstið.
Þrátt fyrir að vera lífshættulega slasaður tókst Jacob að komast inn á skrifstofu sína þar sem hann náði í skammbyssu. Skaut hann fimm skotum í átt að Jones og hafnaði eitt þeirra í honum. Lögregla handtók Jones á vettvangi þar sem hann var með peninga og eigur hjónanna á sér.
Árið 1993 var hann dæmdur til dauða fyrir tvö morð og vopnað rán.
Verjendur Jones reyndu allt fram á síðustu stundu að fá aftökunni frestað eða dómnum breytt í lífstíðarfangelsi. Reyndu þeir að færa rök fyrir því að hann glímdi við þroskahömlun og hefði mátt sæta kynferðislegri misnotkun á unglingsárum sínum. Hæstiréttur hafnaði beiðninni, meðal annars í ljósi þess að fullyrðingar um misnotkun komu aldrei fram þegar morðmálið fór fyrir dóm á sínum tíma.
Síðan dauðarefsing var tekin aftur upp í Bandaríkjunum árið 1976 hafði Flórída, áður en árið 2025 gekk í garð, aldrei áður framkvæmt fleiri en átta aftökur á einu ári – það var árið 2014. Á þessu ári hafa sem fyrr segir þrettán verið teknir af lífi í ríkinu og er búist við að þær verði fleiri á næstu vikum.