Sigurður skáld Breiðfjörð dvaldist um þriggja ára skeið í Grænlandi á 19. öldinni. Hann lýsir samskiptum hrokafullrar herraþjóðar við undirsáta sína. Danir litu niður á Grænlendinga sem barnalegt og óþroskað fólk sem hafa þyrfti vit fyrir. Þegar ég dvaldist í Kaupmannahöfn á árum áður kynntist ég vel þessari neikvæðu afstöðu Dana til Grænlendinga.
Nýlega var upplýst um þau áform danskra stjórnvalda að gera sem flestar grænlenskar konur ófrjóar. Læknar komu fyrir hormónalykkju hjá liðlega 4000 grænlenskum konum á áttunda áratug liðinnar aldar. Í flestum tilvikum var þetta gert án vitundar kvennanna.
Þýskir læknar í Auschwitz á dögum heimsstyrjaldarinnar gerðu tilraunir með frjósemi gyðingakvenna. Þetta var liður í hugmyndum þeirra um endanlega útrýmingu kynþáttarins. Alþjóðasamfélagið fordæmdi þessa starfsemi harðlega enda ekki í neinu samræmi við siðareglur lækna.
RÚV fjallaði um stóra lykkjumálið á Grænlandi á dögunum. Mette Frederiksen forsætisráðherra hélt fund með innfæddum og grét krókódílatárum og bað grænlenskar konur afsökunar. Fréttaskýrandi RÚV var í öngum sínum yfir harmi ráðherrans og vorkenndi henni meira en hinum eiginlegu fórnarlömbum. Búið er að margspila þessa tárvotu afsökunarbeiðni eins og hún veiti dönskum ráðamönnum syndaaflausn.
Málið er risastórt og fjölmargir embættismenn og læknar komu að ákvarðanatöku og framkvæmd. Þetta sýnir nýlenduveldið Danmörku í réttu ljósi. Þeir taka sér það vald að gera konur ófrjóar til að hindra að þjóð Inúíta fjölgi sér. Eitt það fyrsta sem læknar læra í námi sínu er að vinna sjúklingum sínum aldrei mein. Þessir dönsku kollegar létu sér það í léttu rúmi liggja enda töldu þeir að um óæðri kynstofn væri að ræða.
Það sýnir vel undirlægjuhátt Íslendinga gagnvart Dönum að standa alltaf með þeim í samskiptum við Grænlendinga. Þegar Trump bauðst til þess á dögunum að taka yfir stjórn landsins tóku allir helstu gáfumenn Íslands bakföll af hneykslan. Mér er þó til efs að jafnvel honum hefði dottið svívirða sem þessi í hug.