Í þættinum var Guðrún annars vegar spurð út í slæmt gengi Sjálfstæðisflokksins í borginni á undanförnum árum og hvort segja mætti að þegjandi samþykki ríkti á milli hægri og vinstri vængsins þess efnis að Sjálfstæðisflokkurinn fengi landsmálin en vinstri flokkarnir borgarmálin.
Hins vegar var hún spurð að því hvort Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrverandi ráðherra og þingkona, væri stödd í Bandaríkjunum til að búa sig undir að taka við stjórnartaumunum í borginni.
„Fyrst vil ég segja að það hefur aldrei verið eitthvað samþykki um það að ríkjandi valdhafar í landsmálum komi ekki að borginni,“ sagði Guðrún og hló og bætti við að Sjálfstæðismenn í borginni hefðu beðið óþreyjufullir eftir því að taka við borginni í langan tíma.
„Þú sérð að við vorum alltaf með borgina, Davíð Oddsson var borgarstjóri og við vorum líka að stýra landinu og svo framvegis.“
Guðrún segir að þó að hún sé búsett í Hveragerði sé Reykjavík höfuðborgin hennar eins og allra landsmanna.
„Það gleymist stundum að við sem ekki búum hér, eigum ekki lögheimili í borginni, við megum líka hafa skoðun á borginni vegna þess að þetta er höfuðborg okkar allra. Þeir sem henni stýra bera líka ábyrgð gagnvart mér og öðrum íbúum þessa lands.“
Guðrún fór svo yfir það hvað henni finnst um hvernig borginni hefur verið stjórnað á undanförnum árum.
„Mér finnst algjör hörmung hvernig þessari borg hefur verið stýrt núna í langan tíma og aftur komum við að því, þessu grundvallarhlutverki stjórnmálanna, það er að leysa þessi einföldu viðfangsefni fólksins í landinu: að ég geti vaknað upp í Árbænum og keyrt í vinnuna ef ég er hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum og það taki mig ekki klukkutíma. Og á þessari leið geti ég farið með barnið mitt í leikskóla,“ sagði hún meðal annars.
Guðrún sagði að skipulagsmálin hefðu verið algjör hörmung og búið væri að eyðileggja miðborgina með örfáum undantekningum, Hverfisgatan væri til dæmis vel heppnuð. Húsin við Hafnartorg væru köld í ásýnd og hentuðu fremur stórborgum á borð við New York en núverandi borgarmynd Reykjavíkur. „En það er mín persónulega skoðun,“ bætti hún við.
Hún nefndi svo fyrirhugaða íbúðabyggð við Gullinbrú og í Keldnalandinu þar sem fólk á ekki að komast heim til sín nema gangandi. „Eiga aldraðir foreldrar þínir eða afi og amma ekki að geta komið í heimsókn? Áttu að ganga með tvö ungabörn á sitthvorum handleggnum og innkaupapoka af einhverju miðlægu bílastæði 400 metra í hvaða veðri sem er? Þetta gengur ekki upp þannig að okkur langar mjög til að fá tækifæri til að stýra borginni. Við höfum mikla sannfæringu fyrir því að við munum bara gera það miklu betur.“
Hvort Áslaug Arna verður borgarstjóraefni flokksins vildi Guðrún ekki fullyrða um.
„Hver mun leiða lista Sjálfstæðismanna í borginni veit ég ekki. Það mun fara í gegnum lýðræðislegt ferli flokksins. Áslaug Arna, eftir því sem ég veit, er í mjög spennandi námi í Bandaríkjunum. Áslaug Arna yrði frábær borgarstjóri ef hún myndi vilja fara í það. Ég bara hef ekki hugmynd um hvað hún er að hugsa. Hildur Björnsdóttir yrði líka frábær borgarstjóri eða Guðlaugur Þór eða hverjir það eru sem hafa verið nefndir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á að skipa alveg ofboðslega stórum hópi af flottu fólki.“