fbpx
Föstudagur 12.september 2025
Fréttir

Kvörtunum vegna Reykjavíkurflugvallar hefur fjölgað hratt – Umsókn um nýtt starfsleyfi verið meira en ár í vinnslu

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 12. september 2025 19:00

Reykjavíkurflugvöllur. Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á fundi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur í gær fór meðal annars fram umræða um endurnýjun brágðabirgðastarfsleyfis Reykjavíkurflugvallar en dótturfélag Isavia, sem sér um rekstur innanlandsflugvalla, sótti í júní á síðasta ári um endurnýjun starfsleyfis hjá Heilbrigðiseftirliti borgarinnar. Nefndin ákvað að boða fulltrúa félagsins á næsta fund sinn og umsóknin er því enn í vinnslu en skipulagsfulltrúi borgarinnar mælti, í lok síðasta árs, með endurnýjun til ársloka 2032 þó aðeins fyrir þann hluta flugvallarins sem snýr að innanlandsflugi. Í kynningu sem unnin var af heilbrigðiseftirlitinu og birt er með fundargerð heilbrigðisnefndar kemur fram að kvörtunum vegna starfsemi flugvallarins hafi snarfjölgað síðustu tvö ár.

Kynningin, sem unnin var fyrir fund með öllum helstu hagaðilum, tildæmis áðurnefndu dótturfélagi Isavia, er þó ekki glæný en hún er frá nóvember 2024 og fjallar um kvartanir einkum vegna hávaða og ónæðis frá flugvellinum. Með kynningunni er birt kort frá 2021 yfir mældan hávaða frá flugvellinum en þar kemur meðal annars fram að mældur hávaði við þau svæði sem allra næst eru flugvellinum var þá um 55-60 desíbel en 50-55 desíbel mældist í nokkurri fjarlægð, til að mynda úti á Granda og Kársnesi í Kópavogi. Minna ber á í því samhengi að hávaðastyrkur allt niður í 85 desíbil getur valdið varanlegum heyrnarskemmdum ef hljóðið varir nógu lengi.

Miðað við aukinn fjölda kvartana hefur hávaði frá flugvellinum aukist síðan þetta kort var gert, þótt reyndar áhrif Covid-faraldursins geti hafa stuðlað að minni umsvifum á vellinum 2021.

Fjölgað hratt

Í kynningunni kemur fram að á árunum 2015-2022 hafi kvartanir vegna hávaða og ónæðis frá flugvellinum verið innan við 10 ár hvert og sum árin var engin kvörtun lögð fram. Árið 2023 voru þær aftur á móti rétt yfir 40 sem er meira en fjórföldun og árið 2024 voru kvartanirnar yfir 90 en nákvæm tala er ekki gefin upp í kynningunni, heldur aðeins birt stöplarit sem sýnir tölur eingöngu í tugum.

Eins og áður segir er kynningin frá nóvember 2024 og því gætu fleiri kvartanir hafa bæst við það ár og ekki liggur fyrir á þessari stundu fjöldi kvartana á þessu ári.

Nokkrar kvartanir eru birtar í kynningunni og virðast þær einkum beinast að umferð einkaþota, smærri flugvéla og þyrla. Það síðastnefnda tengist líklega, að hluta til að minnsta kosti, útsýnisflugi yfir hin tíðu eldgos á Reykjanesskaga síðustu ár. Þó er ekki bara kvartað yfir hávaða heldur líka mengun. Einn kvartandi tekur sérstaklega fram að kvörtun hans beinist ekki að áætlunar- og sjúkraflugi en annað gildi um kennsluflug, útsýnisflug og annað einkaflug.  Þó er ekki bara kvartað yfir hávaða heldur líka mengun.

Lítið eftirlit

Í kynningunni er farið yfir ýmsar ráðstafanir sem gripið var til vegna kvartananna. Meðal annars var beint ýmsum tilmælum til flugrekenda en fram kemur að Isavia hafi lítið eftirlit haft með því að þeim væri framfylgt.

Þegar kemur að langtíma aðgerðum sem Isavia ætlaði að ráðast í virðist lítið hafa orðið úr flestum þeirra, af ýmsum ástæðum, þegar kynningin var gerð en ítreka ber að hún er ekki glæný.

Í kynningunni er einnig minnt á leiðbeiningar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um að hávaði frá loftförum fari helst ekki yfir 45 desíbel en eins og áður segir mældist hávaði frá flugvellinum, árið 2021, 50 desíbel nokkuð út fyrir næsta nágrenni hans. Stofnunin segir hávaða yfir þessum mörkum geta haft skaðleg áhrif á svefn allra aldurshópa en einnig þroska barna.

Heilbrigðiseftirlitið minnir í kynningunni á skyldu sína að verja viðkvæma hópa og gæta að lýðheilsu og velt er upp ýmsum hugmyndum til að bæta inn í starfsleyfið í því skyni að draga úr hávaða og ónæði af flugvellinum.

Umsóknin

Sækja þarf um starfsleyfi fyrir flugvöllinn til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur þar sem starfsemi hans fellur samkvæmt lögum og reglugerðum undir mengandi starfsemi. Umsóknin var lögð fram í júní á síðasta ári.

Samkvæmt vefsíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er starfsleyfi fyrir flugvöllinn í gildi en það er ekki hægt að opna það á síðunni og því er DV ekki kunnugt um á þessari stundu hvenær það rennur út.

Heilbrigðiseftirlitið óskaði eftir umsögn skipulagsfulltrúa borgarinnar um umsóknina en henni var skilað í desember á síðasta ári. Þar er minnt á að samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur, sem gildir til 2040, eigi flugvöllurinn að víkja úr Vatnsmýri en mögulegt verði að reka hann þar til 2032 en flug þyrla Landhelgisgæslunnar og aðstaða fyrir það sé heimilt eftir þann tíma.

Skipulagsfulltrúi mælir með í ljósi þessa að starfsleyfið verði endurnýjað og gildi út árið 2032 en forsendur fyrir lengra starfsleyfi séu ekki til staðar í aðalskipulaginu. Mælt er þó með því að þetta eigi aðeins við um starfsemi innanlandsflugvallar en þegar komi að starfsemi einkaflugs, þyrluflugs og annars leiguflugs ferðaþjónustufyrirtækja, svo og æfinga- og kennsluflugs, sé mælt með því að starfsleyfi verði til enn skemmri tíma, meðal annars í ljósi vaxandi ónæðis vegna þyrluflugs og einkaþota og fyrirliggjandi samkomulags ríkis og borgar frá 2013 og eldri viljayfirlýsinga ríkisins um að finna einka-, æfinga- og kennsluflugi nýjan stað.

Vinnsla

Þessi umsögn virðist eitthvað hafa flækt málið því auglýsing um endurnýjað starfsleyfi hefur ekki verið birt á vefsíðu heilbrigðiseftirlitsins og eins og áður segir verður endurnýjunin rædd frekar á næsta fundi heilbrigðisnefndar en hún fundar yfirleitt einu sinni í mánuði.

Hver niðurstaðan verður með starfsleyfi flugvallarins til næstu ára virðist því óljóst á þessari stundu en eins og fram kemur í umsögn skipulagsfulltrúa gerir aðalskipulag Reykjavíkur ekki ráð fyrir að flugvöllurinn verði í Vatnsmýri lengur en út árið 2032, að þyrlum Landhelgisgæslunnar undanskildum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Snorri fær pillu frá ömmu sinni eftir færslu hans um Charlie Kirk – „Gegnsær populismi“

Snorri fær pillu frá ömmu sinni eftir færslu hans um Charlie Kirk – „Gegnsær populismi“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Birta myndband af flótta hins meinta morðingja

Birta myndband af flótta hins meinta morðingja
Fréttir
Í gær

Þrjár verslanir opna í nýrri verslunarmiðstöð í Reykjanesbæ

Þrjár verslanir opna í nýrri verslunarmiðstöð í Reykjanesbæ
Fréttir
Í gær

Þekkt leyniskytta telur að skotárásin á Charlie Kirk hafi verið vel skipulögð

Þekkt leyniskytta telur að skotárásin á Charlie Kirk hafi verið vel skipulögð
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gagnrýnir Ingu Sæland fyrir að vilja stytta rétt til atvinnuleysisbót um eitt ár – „Hún hefur steingleymt sínum minnsta bróður“

Gagnrýnir Ingu Sæland fyrir að vilja stytta rétt til atvinnuleysisbót um eitt ár – „Hún hefur steingleymt sínum minnsta bróður“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Áhrifamaður í Bandaríkjunum segir hugsanlegt markmið Trump að hernema Ísland

Áhrifamaður í Bandaríkjunum segir hugsanlegt markmið Trump að hernema Ísland