fbpx
Þriðjudagur 09.september 2025
Fréttir

Segir Samfylkinguna á rangri braut – „Það kemur mér virkilega á óvart“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 8. september 2025 21:11

Logi Már Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra hefur lagt til hækkun innritunargjalds í opinbera háskóla.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson fyrrum þingmaður og ráðherra Vinstri grænna og varaformaður flokksins segir áform Loga Más Einarssonar ráðherra háskólamála um að hækka innritunargjöld í opinbera háskóla koma sér verulega á óvart. Hann segir flokk Loga, Samfylkinguna, þar með kominn á ranga braut í málefnum háskólanna. Minnihluti stúdentaráðs fjölmennasta opinbera háskólans segist munu halda áfram að beita sér gegn gjaldinu.

Í tilkynningu frá menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu fyrr í dag kom fram að Logi hafi lagt til að innritunargjaldið verði hækkað úr 75.000 krónum í 100.000 krónur. Gjaldið hefur ekki hækkað síðan 2013. Í tilkynningunni segir að rektorar skólanna hafi viljað hækka gjaldið í 180.000 krónur en ákveðið hafi verið að hlífa nemendum við svo mikilli hækkun. Gjaldinu er að sögn ætlað að standa straum af útgjöldum háskóla vegna nemendaskráningar og þjónustu við nemendur, að frátöldum kennslukostnaði og rannsóknum. Opinberu háskólarnir eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn á Hólum. Listaháskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst sem innheimtu áður skólagjöld en nú aðeins innritunargjald sem er jafn hátt og í opinberu skólunum. Tilkynningin virðist aðeins eiga við um opinberu skólana en líklega má búast við því að tveir síðastnefndu háskólarnir hækki sitt gjald samhliða hinum fjórum.

Á rangri braut

Haft er eftir Loga í tilkynningunni að það sé langtímaverkefni að bæta rekstrargrunn háskólanna. Í framhaldinu telji hann rétt að koma þessum málum í farsælla horf þannig að gjaldtakan uppfylli markmið sitt og þróist með eðlilegri hætti.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson segir í pistli á Facebook það hafa komið sér á óvart að ráðherra úr Samfylkingunni leggi til að hækka álögur á háskólanema. Hann minnir á að síðasta ríkisstjórn, sem hann átti sæti í, hækkaði ekki innritunargjöldin. Þvert á móti hafi hún fellt niður skólagjöld við Listaháskóla Íslands og Bifröst, til að jafna aðgengi að námi:

„Það kemur mér virkilega á óvart að það sé Samfylkingin sem nú hækki gjöld á nemendur, en ég hélt að af þeim stjórnmálaflokkum sem nú eru við völd myndi hún helst verja jafnrétti til náms.“

Vanfjármagnað

Guðmundur Ingi segir háskólana vanfjármagnaða, eins og hann hafi áður skrifað um, og hafi fulla samúð með háskólayfirvöldum, en lausnin sé ekki að hækka gjöld á nemendur þeirra:

„Það eykur eingöngu á misskiptingu, og getur dregið úr tækifærum efnaminni stúdenta til náms. Aðgengi að námi óháð efnahag er og verður verðmætasta jöfnunartæki samfélagsins. Samfylkingin er greinilega búin að gleyma því.“

Guðmundur Ingi segist túlka áðurnefnd orð Loga þannig að til standi að hækka innritunargjöldin enn frekar. Hann segir öflugt háskólanám og kraftmiklar rannsóknir undirstaða velsældar hvers samfélags. Hann hvetji háskólaráðherra og ríkisstjórnina til að gera gangskör að því að bæta fjármögnun háskólastigsins.

Munu berjast

Gera má ráð fyrir töluverðri óánægju háskólanema og þeirra sem munu hefja nám þegar og ef hækkunin kemur til framkvæmda. Röskva samtök félagshyggjufólks innan Háskóla Íslands, sem er í minnihluta stúdentaráðs skólans, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að samtökin muni halda áfram að berjast gegn innritunargjaldi í opinbera háskóla. Samtökin minna á undirskriftalista sinn gegn gjaldinu á Ísland.is. Röskva minnir einnig á að gjaldið hafi árið 2023 verið úrskurðað ólögmætt af áfrýjunarnefnd í málefnum háskólanema, hvað varðar Háskóla Íslands. Segir Röskva að niðurstaða nefndarinnar hafi verið byggð á því að útreikningar um hvernig ágóða gjaldsins væri eytt væru ófullnægjandi:

Rennur niðustaðan stoð undir grun okkar í Röskvu að skrásetningargjöld opinberu háskólanna sé í raun falin skólagjöld, “ segir enn fremur í tilkynningunni og minnt er á að opinberir háskólar hafi ekki lagaheimild til að innheimta skólagjöld.

Enn sem komið er hefur Vaka-Félag lýðræðissinnaðra stúdenta sem er í meirihluta stúdentaráðs Háskóla Íslands ekki birt eða sent frá sér neina tilkynningu um áform Loga.

Hvað varðar áðurnefndan úrskurð um ólögmæti innritunargjalds segir í tilkynningu ráðuneytisins að Háskóli Íslands hafi óskaði eftir endurupptöku á úrskurðinum og lagt fram ítarlegri gögn til stuðnings kröfu sinni um staðfestingu á lögmæti skrásetningargjaldsins. Málið hafi verið til meðferðar hjá áfrýjunarnefndinni um alllanga hríð en vonir standi til að hún kveði upp úrskurð sinn á næstu vikum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Marmítið tekið af föðurnum á flugvellinum – Dóttirin marmítlaus á Íslandi

Marmítið tekið af föðurnum á flugvellinum – Dóttirin marmítlaus á Íslandi
Fréttir
Í gær

Frekir ferðamenn fóru frá í fússi og fýlu – „En það er opið. Af hverju megum við ekki fara inn?“

Frekir ferðamenn fóru frá í fússi og fýlu – „En það er opið. Af hverju megum við ekki fara inn?“