Tónlistarmaðurinn Árni Páll Árnason, betur þekktur sem Herra Hnetusmjör, er fyrsti gestur þáttarins Hreinn vöðvi sem er í umsjón Hreins Orra Hreinssonar einkaþjálfara. Orri eins og hann er kallaður þekkja margir einnig undir nafninu Coach Clean, en hann starfar í World Class.
Orri kennir Árna tökin í ræktinni um leið og hann fræðir áhorfendur nánar um einn þekktasta tónlistarmann landsins. Árni og Orri kynntust í meðferð á Vogi, þar sem þeir fóru í gegnum alla meðferðina saman, urðu nánir vinir og herbergisfélagar á Staðarfelli.
„Það var örugglega bara þegar kom Makki inn á heimilið, ég var 11-12 ára. ára. Ég fann einhverja takta og bauð Sindra vini mínum í heimsókn og við gerðum einhverja tónlist, fáránleg lög. Og svo bara svona hægt og rólega, ég var bara alltaf á YouTube. Ég og Sindri skrifuðum bara vers af og við máttum bara rappa um eitthvað sem var inni í herberginu. Það svona hjálpar manni að setja smá svona kassa utan um það sem maður var að skapa. Ekki bara bulla bara eitthvað,” segir Árni aðspurður um hvenær hann byrjaði í tónlistinni.
Og hvenær hann trúði að hann væri bestur svarar Árni að það hafi verið í byrjun 2017. Hann hafi sett sér það markmið að vera einn af þeim fimm bestu. Árni segir lagið Takk fyrir allt vera þýðingarmest fyrir sig, þegar þeir rúlla yfir plötu- og lagalista Árna.
Orri hendir Árna í 10 hraðaspurningar, þar sem þetta kemur meðal annars fram:
„Auddi eða Sveppi? Auddi
Hefurðu verið með frítt hótelherbergi en keyptir samt annað hótelherbergi á hálfa milljón bara til að skíta og sofa þar inni? Já.
Hvað er dýrasta flík sem þú hefur keypt? Telst úr sem flík….Prada buxur, fjögur hundruð þúsund kall.
Hver er dramatískastur í IceGuys? Rúrik.
Hvað er lélegasta lag sem þú hefur gert? Litlir fuglar.
Hvaða er besta lag sem þú hefur gert? Takk fyrir allt.Málið með þetta hótelherbergi, ég náði ekki einu sinni að skíta þarna inni, ég var svo spenntur.”
Árni hefur stundað ræktina í níu ár og er núna að æfa brasilískt jiu-jitsu. Takast þeir á á mottunni og er Árni snöggur að taka Orra niður. Orri segir Árna hafa rokkað til í þyngd á tónlistarferlinum og spyr hvort að það hafi einhver áhrif þegar hann kemur fram á sviðinu.
„Ég þyngdist um þrjátíu kíló í COVID og ég man þegar ég var að taka fyrstu giggin eftir COVID. Ég var að taka hálftíma gigg í einhverjum grunnskóla og ég var bara eftir tíu mínútur; gaur, hvað er að gerast. Mér sveið bara í augun. Ég var að svitna svo mikið og það var innblástur til þess að taka þetta með. Það er klárlega munur en ég vil alltaf skila sama „showi”.”
Skemmtilegast við IceGuys ævintýrið segir Árni allt við það skemmtilegt. „Ég ætla að segja tökurnar á þáttunum, það er alltaf bara rosa gaman.”
„Konan, börnin, bíllinn, húsið, allt komið fyrir þrítugt. Hvað er drifkraftur þinn til að halda áfram og gera meira?”
„Ég finn alltaf eitthvað nýtt markmið til að stefna að. Eins og núna þegar ég er búinn selja upp Höllina, þá er næsta markmið bara að gera það tvisvar. Ég veit það ekki, bara að halda áfram. Ég vil bara vinna við þetta. Ég vil ekki vinna við neitta annað, ef ég fæ bara að vinna við þetta þá er ég bara sáttur. Þú veist, ég geri mér grein fyrir því að ég mun ekki alltaf vera í fyrsta sæti.”
„Hvar sér Herra Hnetusmjör sig eftir tíu ár?”
„Ég væri til í að gera það sem ég er að gera núna, æfa og droppa tónlist og gera eitthvað sjónvarp með einhverju skemmtilegu fólki. Og halda áfram að rækta fjölskyldusamböndin.”