Eins og fram hefur komið í fréttum notuðu þjófar gröfu í nótt til að stela hraðbanka í heilu lagi í Mosfellsbæ. Hraðbankinn sem er í eigu Íslandsbanka var staðsettur við skrifstofur bæjarins. Grafan hefur fundist en ekki þjófarnir eða hraðbankinn. Á samfélagsmiðlum má greina nokkra þórðargleði vegna málsins enda njóta bankar almennt ekki mikillar velvildar á Íslandi. Meðal þeirra sem lýsa yfir nokkri ánægju með ránið er Bubbi Morthens tónlistarmaður. Hann segist í stuttri Facebook-færslu þó ekki vera að mæla slíku athæfi bót en ránið minni þó óneitanlega á verk dáðrar sögupersónu:
„Það er einhver Hróa hattar bragur á því að ræna banka með gröfu þó ekki mæli ég því bót, en hvernig bankarnir haga sér í skjóli ríkistjórnar Íslands þá er hráleiki brotsins og framkvæmd þess á sinn hátt fallegt andsvar.“
Í athugasemdum við færsluna er tekið undir þessi orð Bubba.
„Ræna þá sem ræna okkur.“
„Já, bankar eru bara þjófa fyrirtæki og ekkert annað. Við erum tilneydd að vera í banka með peningana/ færslurnar okkar, og svo kalla þau okkur viðskiptavini.“
„Og manni var sagt að besta ráðið til að ræna banka væri að ræna þá innan frá. Nú virðist utan-frá aðferðin ekki síður virka. Bara mismunandi áferð.“
Hrói höttur (e. Robin Hood) er persóna úr enskum þjóðsögum en sögurnar gerast þar í landi á miðöldum. Í nýrri útgáfum af sögunum stelur hann frá ríku fólki til að gefa því fátæka.
Hvort að hraðbankaræningjarnir í Mosfellsbæ ætla að fylgja fordæmi hans og gefa fátækum ránsfenginn verður að teljast ólíklegt og því virðist þessi samlíking langsótt. Hins vegar er eflaust ágætt í þessu samhengi að hafa þetta orðatiltæki í huga:
Aldrei að segja aldrei.