Hann veltir þessu fyrir sér í athyglisverðri færslu á Facebook.
„Það er með ólíkindum að segja frá því að í Reykjanesbæ kostar það næstum 300 þúsund krónur að vera með barn, fætt á árunum 2013–2014, í fimleikum frá ágúst 2025 til júní 2026. Þetta eru ekki ýkjur, heldur staðreynd: samkvæmt skráningu Keflavíkur fyrir skólaárið 2025–2026 er heildarupphæðin 295.538 krónur,“ segir Vilhjálmur í færslunni og spyr: „Hverjir hafa efni á þessu?“
Hann setur þetta í samhengi og bendir á að foreldri þurfi að hafa um það bil 438 þúsund krónur í brúttólaun á mánuði, án persónuafsláttar og miðað við miðskattþrepið, til að sitja eftir með 300 þúsund í ráðstöfunartekjur.
„Og það er aðeins til að borga fyrir eitt barn í einni íþrótt – ekki húsaleigu, ekki mat, ekki annan kostnað, heldur bara fimleikana. Hvernig eiga börn hjá tekjulágu fólki að geta tekið þátt í þessu? Eru fimleikar orðnir íþrótt eingöngu fyrir börn efnameiri foreldra? Þetta er galið.“
Vilhjálmur veltir fyrir sér hvort þetta sé staðan víðar og hvort fimleikafélög víða um land séu að rukka álíka upphæðir.
„Og er íþróttin þá einfaldlega orðin lúxus sem aðeins fáir hafa efni á? Ef svo er, þá er fimleikahreyfingin að búa til tvöfalt kerfi: annars vegar börnin sem fá tækifæri vegna efna foreldra sinna, hins vegar þau sem standa eftir vegna þess að fjölskyldan á ekki fyrir gjöldunum.“
Vilhjálmur nefnir að stöðugt sé talað um mikilvægi þess að börn hreyfi sig, finni gleði í íþróttum og verði hluti af jákvæðu félagslegu umhverfi.
„En hverjir geta í alvöru boðið börnum sínum þetta þegar gjöldin eru svona himinhá? Foreldrar í venjulegri vinnu, með meðaltekjur, þurfa að taka erfiðar ákvarðanir: hvort barnið má stunda íþróttir eða hvort peningarnir þurfa einfaldlega að fara í mat, húsnæði og nauðsynjar. Það er hrein mismunun eftir efnahag. Börn efnameiri fjölskyldna komast áfram og fá tækifærin – á meðan börn úr heimilum sem eiga erfitt með að ná endum saman standa eftir. Þetta er ekki lengur íþrótt fyrir alla, heldur íþrótt fyrir þá sem ráða við að borga hundruð þúsunda á ári.“
Vilhjálmur sendir ákall og spyr hvar sveitarfélagið og ríkið sé í þessu máli. Spyr hann hvar sú stefna sé sem á að tryggja að börn hafi jafnan aðgang að íþróttastarfi.
„Frístundastyrkirnir sem sveitarfélög veita duga skammt – þeir ná ekki að brúa svona gífurlega gjá í gjaldskrám. Við sem samfélag verðum að spyrja okkur: viljum við að íþróttir barna séu lúxusvara sem aðeins fáir geti boðið upp á, eða viljum við að öll börn – án tillits til efnahags – hafi tækifæri til að taka þátt?“
Vilhjálmur segir að lokum að kominn sé tími til að brjóta á bak aftur þetta „okurkerfi“ sem heldur úti íþróttahreyfingunni með himinháum gjöldum á foreldra.
„Íþróttir eru samfélagslegt verkefni, ekki einkaklúbbur. Og meðan fimleikar og aðrar íþróttir kosta þetta ósköp, þá erum við að segja beint við hundruð barna: þú færð ekki að vera með – fjölskyldan þín á ekki efni á því. Það er hneyksli,“ segir hann að lokum.