Breski leikarinn Tom Holland segir stórhlutverk hans í kvikmyndum eins og Spider-Man, Avengers og fleirum ekki þau sem aðdáendur hans tali oftast um. Það sé dans hans í sjónvarpsþættinum Lip Sync Battle, sem sé hans umtalaðasta „hlutverk“.
Þættirnir gengu í fimm þáttaraðir árin 2015-2019, alls 91 þáttur, undir stjórn LL Cool J og Chrissy Teigen. Í hverjum þætti áttust tvær þekktar stjörnur við, þar sem þær mæmuðu og dönsuðu við þekkt lög. Hvor keppandi fékk tvo lög og sá vann sem áhorfendur í sal klöppuðu hæst fyrir.
Holland og Zendaya, mótleikkona hans í Spider-Man: Homecoming, tókust á í 16. þætti þriðju þáttaraðar árið 2017. Holland sló gjörsamlega í gegn með seinni dansi sínum sem hófst á lagi Gene Kelly Singin´in the Rain áður en Umbrella Rihönnu tók við.
Holland mætti í þátt stjörnukokksins Gordom Ramsay, Scrambled, þar sem þeir vippuðu saman kjúklingasamlokum um leið og þeir ræddu málin um víðan völl, þar á meðal frammistöðu Holland í Lip Sync Battle.
„Það sem var alveg frábært við þetta var að fólk vissi ekki að ég gæti dansað,“ segir Holland, 29 ára, um þáttinn. „Ég hélt því leyndu, ég veit ekki af hverju. Og ég skilaði því mínu atriði með látum.“
Þátttakendur lögðu mikinn metnað í atriði sín, með dönsurum, búningum og sviðsmynd og sama átti við um Holland. Hann mætti á svið með hárkollu, í búning þar á meðal netsokkabuxum, með regnhlíf og fjölda dansara með sér, ásamt því sem „rigning“ lék stórt hlutverk.
Holland segir að hann og Zendaya hafi ákveðið fyrirfram að bæði myndu flytja frekar látlaus atriði.
„Þetta er svo fyndið, við vorum að spjalla um hvað við ætluðum að gera og við vorum búin að samþykkja að taka því rólega. „Þetta var samkomulagið: „Ég ætla ekki að gera neitt brjálað. Þú ætlar ekki að gera neitt brjálað. Við ætlum bara að halda þessu rólegu og léttu.“
Meðan á undirbúningnum stóð þá magnaðist atriði Holland upp í það sem orðið er að goðsagnakenndri frammistöðu, sem enn er aðdáendum hans í fersku minni átta árum síðar.
„Þegar ég var að vinna með skapandi teyminu að atriði þá kynntu þau svona „regnhlífar“-atriði, og á meðan við vorum að æfa varð þetta meira og meira brjálað,“ segir Holland við Ramsay. „Og svo kom regnvélin. Og svo hugsaði ég með mér: „Fjandinn, ég vil vera í netsokkabuxum og gera þetta, og ég vil hárkollu og fataskipti.““
„Voru þetta sokkabuxur mömmu þinnar?“ spyr Ramsay.
„Reyndar ömmu minnar,“ svarar Holland hlæjandi. Bætir hann við að faðir hans, Dominic Holland, hafi í fyrstu verið hikandi við þessa djörfu rútínu.
„Þegar ég sagði pabba mínum þetta, sagði hann: ,Sonur minn, ég held að þetta sé ekki góð hugmynd. Ég held að þú ættir ekki að gera þetta,“ útskýrði hann. „Ég sagði: ,Nei, pabbi. Þetta verður mjög gaman. Ég ætla að skemmta mér konunglega. Ég held að pabbi hafi bara, á þessum tíma á ferli mínum var hann mjög áhyggjufullur um að ég yrði of frægur of fljótt. Hann var líka mjög á því að ég væri ekki að leika í sjónvarpsþáttum sem ég þurfti ekki að gera til að reyna að viðhalda þeim hluta bernsku minnar.“
Holland segir að enn í dag sé þátttakan í Lip Sync Battle á meðal þeirra sem fólk man best eftir:
„Þetta er fáránlegt. Af öllum þeim hlutverkum sem ég hef unnið, sem ég hef lagt hjarta og sál í, blóð, svita og tár, þá er Lip Sync Battle það sem allir nefna,“ sagði hann. „Það er aldrei Spider-Man. Það er aldrei nein af hinum myndunum mínum. Það er alltaf Lip Sync Battle.“
Holland klæddist nýlega aftur í Spider-Man búninginn fyrir væntanlega mynd Marvel, Spider-Man: Brand New Day, sem frumsýnd verður 31. júlí 2026.
Hann og Zendaya voru eins og áður sagði mótleikarar þegar þau tókust á í Lip Sync Battle árið 2017, en þau opinberuðu samband sitt í nóvember árið 2021 og trúlofuðu sig í desember árið 2024.