fbpx
Sunnudagur 03.ágúst 2025
Fréttir

Stefán varð vitni að harmleik á Tenerife og lýsir súrrealískum aðstæðum í kjölfarið

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 3. ágúst 2025 15:00

Costa Adeje er vinsæll áfangastaður Íslendinga. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karlmaður í kringum sjötugt lést í sjónum við ströndina Playa del Bobo  á Tenerife í gær. Að sögn Canarian Weekly fór maðurinn hjartastopp og endurlífgunartilraunir báru ekki árangur.

Ekki liggur fyrir hvort maðurinn var innfæddur eða ferðamaður en ströndin er staðsett á Costa Adeje og er vinsæl meðal ferðalanga.

Stefán S. Stefánsson og eiginkona hans sátu á veitingastað við ströndina þegar harmleikurinn átti sér stað. Stefán veitti DV góðfúslega leyfi til að fjalla um færslu sem hann skrifaði um málið.

„Ég, eins og svo margir aðrir Íslendingar, nýt þess í botn að vera á Tenrife. Dagurinn í dag var ekki einn af þeim,“ skrifar Stefán. Þau hjónin voru að sóla sig á Playa del Bobo en ákváðu svo að fá sér hádegismat á veitingastað við ströndina. Þar sátu þau þegar þau tóku eftir því að ekki var allt með felldu.

„Það var eitthvað að gerast, hrópin voru ekki gleðihróp og galsi, heldur örvænting og skelfing.“

Þau sáu strandvörð æða út í sjóinn til að sækja manninn og hófust þegar endurlífgunartilraunir í flæðamálinu. Fleiri streymdu að sem vildu aðstoða, lífverðir og lögreglumenn. Sjúkrabíll kom ekki á vettvang fyrr en tveimur klukkustundum síðar. Því miður tókst ekki að bjarga manninum.

„Allt kom fyrir ekki, þrátt fyrir hetjulega baráttu lækna, bráðaliða og annarra sem komu að, lést maðurinn. Örvinglaðir aðstandendur ráfuðu um hringinn utan um manninn, erfitt að gera sér grein fyrir hvað þetta fólk var að upplifa.“

Þegar ljóst var að ekki tækist að bjarga manninum féllust bráðaliðar í faðma og Stefán reiknar með að erfiðar tilfinningar fylgi því að leggja sitt allt í björgunartilraun sem gengur ekki eftir.

„Þessar tilfinningar þekkja þeir sem vinna við þessi störf, bráðliðar, hjúkrunarfólk, læknar, slökkviliðs- og lögreglumenn.“

Eftir þetta hófst þó súrrealísk atburðarás. Maðurinn var vafinn í hvítan poka, ströndinni var ekki lokað og nýir gestir mættu á svæðið.

Stefán greinir frá því að þarna hafi maðurinn tímunum saman legið látinn innan um strandgesti, þar með talið börn sem voru að leika sér með skóflur og bolta. Smám saman skapaðist ákveðinn radíus utan um hvíta pokann sem fólk hélt sig frá en utan þess radíus reyndu strandgestir að halda sínu striki.

Stefán var farinn að velta fyrir sér hvort enginn ætlaði að koma til að sækja manninn. Loksins um fimmleytið, þremur tímum eftir að endurlífgunartilraunum var hætt, kom útfarastofa sem færði manninn í svartan líkpoka og ók með hann af ströndinni.

„Þrír klukkutímar af súrrealísku ástandi á Playa Del Bobo, með líki á miðri ströndinni og fólk allt í kring að reyna að lifa sínu áreynsluausa strandarlífi.“

Canarian Weekly tekur fram að harmleikurinn sé sláandi áminning um hætturnar sem fylgja hafinu, jafnvel í aðstæðum sem virka öruggar. Yfirvöld hvetja strandgesti til að hafa allan vara á við sund og að tilkynna strandvörðum eða viðbragðsaðilum um fyrstu merki um háska. Miðillinn tekur þó ekki fram að það tók sjúkrabíl 2 klukkustundir að mæta á vettvang og svo aðrar 3 klukkustundir fyrir líkbílinn.

Stefán lýkur færslu sinni á að benda á ákveðna kaldhæðni. Eftir að líkbíllinn ók með manninn frá ströndinni sá Stefán svokallaðan partýbát sigla framhjá. Djammskipstjórinn kallaði yfir farþega sína: Þetta er Tenerife gott fólk, prísið ykkur sæl.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gabríel Þór keypti TR-húsið á tæpan milljarð – Umsvif hans vekja spurningar

Gabríel Þór keypti TR-húsið á tæpan milljarð – Umsvif hans vekja spurningar
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Auglýsti gistingu á Þjóðhátíð og netverjar eru fjúkandi yfir verðinu – „Mundu bara að karma er alltaf að fylgjast með“

Auglýsti gistingu á Þjóðhátíð og netverjar eru fjúkandi yfir verðinu – „Mundu bara að karma er alltaf að fylgjast með“