fbpx
Sunnudagur 03.ágúst 2025
Fréttir

Landsmenn slegnir og spyrja áleitinna spurninga eftir að 9 ára stúlka lést í Reynisfjöru – „Hver ber ábyrgð?“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 3. ágúst 2025 12:30

Reynisfjara. Mynd úr safni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ung stúlka lést í gær eftir að hafa fallið í sjóinn við Reynisfjöru. Þetta var sjötta banaslysið í fjörunni á innan við áratug. Stúlkan var 9 ára gömul og kom frá Þýskalandi.  Systir hennar og faðir fóru líka í sjóinn en komust upp úr. Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn á slysinu.

Landsmenn eru margir slegnir vegna atviksins og telja að nú sé komið gott. Eitthvað þurfi að breytast varðandi aðgengi og öryggi á þessum vinsæla ferðamannastað.

Fjöldi einstaklinga hefur tjáð sig um slysið og margir spyrja áleitinna spurninga á borð við hver beri ábyrgð, hvort rétt sé að loka aðgengi að fjörunni þegar aðstæður eru hættulegar og veður vont, eða hvort að tryggja þurfi þar öryggisgæslu.

Sumir hafa borið mál Reynisfjöru saman við málefni Grindavíkur. Grindavík hafi nú ítrekað verið rýmd og skellt í lás vegna eldgosa á Reykjanesskaga. Það sama eigi ekki við um Reynisfjöru.

Ekki hægt að una við óbreytt ástand

Dóra Magnúsdóttir samskiptastjóri Hafrannsóknarstofnunar bendir á að það starfi landverðir um allt land og sinni mikilvægum störfum – bara ekki í Reynisfjöru. Samt er þetta einn hættulegasti en jafnframt vinsælasti ferðamannastaður landsins.

„Það er ekki hoggið í stein að landverðir geti ekki starfað utan þjóðgarða með sérstöku samkomulagi og/eða samningum. Landeigendur hafa lýst yfir vilja til að auka öryggi fjörunnar og það er bara úrlausnarefni og (ekki mjög flókin) áskorun að finna út úr því stjórnsýslulega hvernig hægt sé að manna stöður landvarða í Reynisfjöru.“

Dóra bendir á að það væri eðlilegt að nýta hluta bílastæðagjalda í slíka vörslu ásamt framlagi úr ríkissjóði. Ekki sé hægt að una við óbreytt ástand enda liggi fyrir að skilti og varúðarljós duga ekki til.

Sama hvað maður sagði

Flosi Þorgeirsson tónlistarmaður segir að þegar hann starfaði sem leiðsögumaður hafi honum alltaf kviðið fyrir því að fara í Reynisfjöru. Lausnin sé þó ekki að banna fjöruna heldur frekar að fræða gesti um hættur hennar.

„Sama hvað maður sagði, sama þótt þarna séu skilti og viðvörunarljós, alltaf sá maður fólk fara óvarlega. Alltaf skal svo storma fram fólk sem vill síðan banna Reynisfjöru. Það hjálpar ekkert. Frekar ætti að kenna fólki að bera hreina og óttablandna virðingu fyrir náttúrunni. Við erum hvorki óskeikul né ósigrandi. Dánartíðni ferðamanna í Reynisfjöru er lág, um 0,00003%. Samt er það of hátt.“

Þarna vantar strandverði

Unnur Máría Máney Bergsveinsdóttir, húlladúlla og leiðsögukona, tekur í sama streng og Flosi og segir lausnina ekki vera þá að loka fjörunni. Á sama tíma sé ekki hægt að krefja leiðsögufólk um að sinna gæslu.

Hún rifjar upp að fyrir tveimur árum hafi hún séð tvö lítil börn haldast í hendur og dansa við öldurnar í Reynisfjöru. Unnur gekk beint til verks og rak þau upp á ströndina og fann foreldra þeirra – sem reyndust vera mun ofar á ströndinni þar sem faðirinn var að taka myndir af móðurinni.

„Það er ekki hægt að banna aðgengi að fjörunni en ég held að það sé ljóst að það er ekki lengur hægt að ætlast til þess að gædar séu í sjálfboðavinnu við það að líta til með fólki. Við eigum yfirleitt nóg með að passa upp á eigin hópa. Þarna vantar strandverði. Skítt með fullorðið fólk sem vill fara sér að voða en elsku börnin eiga það skilið að það sé þarna eftirlit.“

Hver ber ábyrgð?

Björn Birgisson, samfélagsrýnir og Grindvíkingur, segist ekki geta setið á sér. Grindavík sé lokað af minnsta tilefni en ekki Reynisfjöru.

„Hvernig er öryggisgæslu eiginlega háttað í Reynisfjöru? Hvað á sjórinn að hrifsa marga með sér til að virkilega sé svo búið um hnútana að fólk sé þar ekki í bráðri lífshættu? Ferðamenn sem alls ekki þekkja ofurmátt hafsins. Hver ber ábyrgð á öryggisgæslu í Reynisfjöru?“

Hvers konar gestgjafar eru Íslendingar?

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona, tekur í sama streng. Það þurfi að svara fyrir öryggið í Reynisfjöru.

„Mikið hefði verið tilvalið að kalla til svara í kvöldfréttum, stjórnvöld, lögreglu, almannavarnir, fulltrúa ferðaþjónustunnar og spyrja: Hvernig í veröldinni standi á því að enginn tekur ábyrgð á umferð fólks við Reynisfjöru? Hvers konar gestgjafar eru Íslendingar? Hvað kostar að hafa almennilegt eftirlit þarna og vit fyrir ferðalöngum? Ábyrgðin er okkar allra.“

Meira að segja lögreglan gefst upp

Fleiri hafa tjáð sig um málið og má merkja að landsmönnum er mikið niðri fyrir. Fólk spyr hvort lausnin sé að takmarka aðgengi að fjörunni, loka henni eða tryggja þar stöðuga vöktun. Eins sé spurning hver beri ábyrgðina, hvort það séu landeigendur, stjórnvöld, ferðamannaiðnaðurinn eða samfélagið eins og það leggur sig. Aðrir velta fyrir sér hvort það sé eitthvað hægt að gera þegar ferðamenn virða viðvaranir að vettugi.

Mbl.is greinir frá því að landeigendur í Reynisfjöru ætli að funda á þriðjudag og ráða þar ráðum sínum um hvað sé hægt að gera. Einn landeigandi, Ragnar Sigurður Indrason, segir að hluti ferðamanna bregðist illa við öryggisfyrirmælum.

„Sumt fólk vill bara ekki láta stjórna sér,“ sagði Ragnar og tók fram að hann hafi bent fólki á hætturnar og fengið ömurlegt viðmót og leiðindi í staðinn.

„Maður getur varla verið að standa í þessu, meira að segja lögreglan gefst upp á þessu.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gabríel Þór keypti TR-húsið á tæpan milljarð – Umsvif hans vekja spurningar

Gabríel Þór keypti TR-húsið á tæpan milljarð – Umsvif hans vekja spurningar
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Auglýsti gistingu á Þjóðhátíð og netverjar eru fjúkandi yfir verðinu – „Mundu bara að karma er alltaf að fylgjast með“

Auglýsti gistingu á Þjóðhátíð og netverjar eru fjúkandi yfir verðinu – „Mundu bara að karma er alltaf að fylgjast með“