Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri KSÍ, er bjartsýnn fyrir leik kvöldsins gegn Noregi. Hann segir þó að sú staðreynd að íslenska kvennalandsliðið sé á leið heim að honum loknum sé vitaskuld vonbrigði.
„Ég er mjög vel stemmdur og held að þetta fari bara vel í kvöld. Ég hef trú á því að stelpurnar leggi allt í söluna og eigum við ekki bara að spá íslenskum sigri? Það er alltaf mikilvægt að taka eitthvað með sér inn í næstu keppni og ég veit það fyrir víst að stelpurnar og þjálfarateymið er staðráðin í að gera sitt besta og vonandi skilar það sér í sigri,“ sagði Eysteinn við 433.is í Thun í dag.
Ísland hefur hingað til tapað gegn Finnlandi og Sviss á því sem fyrr segir ekki möguleika á að komast áfram, þrátt fyrir sigur í kvöld.
„Við erum auðvitað með fólk í því að gera og græja en eins og hefur komið fram hefðum við viljað vera með sigur á bakinu fyrir þennan leik til að eiga einhvern möguleika. En fyrsti leikurinn var ekki nægilega góður. Mér fannst við betri gegn Svisslendingum framan af en mörk breyta leikjum og þetta er bara svona,“ sagði Eysteinn.
„Við megum ekki gleyma því að við erum komin á þetta stórmót. Við erum með 16 bestu liðum Evrópu, vorum fyrst til að tryggja okkur hingað. En auðvitað hefðum við viljað gera betur og það er eitthvað sem við förum bara yfir.“
Eysteinn var ráðinn sem framkvæmdastjóri KSÍ fyrir rúmu ári síðan og er því á sínu fyrsta stórmóti í því starfi.
„Það er margt sem maður er að sjá og læra. Þetta eru forréttindi og ég er ótrúlega þakklátur hreyfingunni að fá tækifæri til að vera hér. Ég hef reynt að leggja mitt af mörkum til að hjálpa til við undirbúninginn hér og starfsfólkið er að gera frábæra hluti.“
Vitðtalið í heild er í spilaranum.