Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Íslenska kvennalandsliðið mætir gestgjöfum Sviss í öðrum leik sínum á EM annað kvöld. Mikið er undir, sér í lagi þar sem bæði lið töpuðu sínum leikjum í fyrstu umferðinni.
Leikurinn fer fram á Wankdorf-leikvanginum í Bern og þaðan eiga Íslendingar skemmtilegar minningar. Það var þar sem Jóhann Berg Guðmundsson skoraði eftirminnilega þrennu gegn heimamönnum í undankeppni HM 2014, þar sem Ísland fór alla leið í umspil um sæti á mótinu.
Jóhann kom Íslandi yfir í leiknum en Svisslendingar svöruðu með fjórum mörkum. Héldu flestir að sigurinn væri þá í höfn en svo var aldeilis ekki. Kolbeinn Sigþórsson minnkaði muninn í 4-2 á 56. mínútu og svo var komið að Jóhanni.
Hann minnkaði muninn enn frekar á 68. mínútu og jafnaði hann svo í uppbótartíma með stórkostlegu marki. Lokatölur urðu 4-4, en hér að neðan má sjá svipmyndir úr leiknum.